Skipulagði afmælið áður en barnið fæddist

Veisluborðið var ákaflega glæsilegt. Hrönn setti tjullpils utan um borðið …
Veisluborðið var ákaflega glæsilegt. Hrönn setti tjullpils utan um borðið og blöðruboginn yfir borðinu setti mikinn svip á heildarmyndina.

Hrönn Bjarnadóttir eignaðist dóttur fyrir rúmlega ári síðan eftir langt og strangt ferli. Hrönn var byrjuð að skipuleggja afmælið löngu áður en barnið fæddist. 

„Ég var mjög lengi að undirbúa afmælið – var byrjuð að pæla í fyrsta afmælinu löngu áður en Embla dóttir mín fæddist. Þetta var eiginlega þannig að um leið og ég var búin að halda skírnarveisluna hennar sem var líka alveg svaka undirbúningur þá fór ég á fullt að skipuleggja afmælið,“ segir Hrönn.

Áður en skipulagning 1. árs afmælisins hófst fyrir alvöru valdi Hrönn þema sem hún vann eftir. Hún þeyttist út um allt internet til að spá í skreytingum, kökum og safna góðum hugmyndum fyrir afmælið.

Afmælisbarnið Embla var alsæl.
Afmælisbarnið Embla var alsæl.

Vissir þú strax hvernig þú vildir hafa afmælið?

„Sko ég var alveg í smá tíma að ákveða hvaða þema ég vildi hafa í afmælinu af því ég var með svo margar skemmtilegar hugmyndir. En þegar ég var búin að ákveða að velja einhyrninga-þema þá var ég með nokkuð ákveðnar hugmyndir um hvernig ég vildi hafa þetta.“

Þetta 1. árs afmæli var kannski líkara fermingarveislu því Hrönn og maður hennar buðu 55 manns í afmælið, sem var tvískipt.

„Það mættu 35 manns yfir daginn og svo mættu 20 um kvöldið. Ég ákvað að vera með veisluna tvískipta af því þetta voru svo margir. Við Sæþór maðurinn minn vorum með opið hús fyrir vini og þeirra fjölskyldur yfir daginn og svo buðum við fjölskyldum okkar í súpu og kökur um kvöldið. Mér fannst þetta afskaplega þægilegt fyrirkomulag og með því að hafa þetta svona nutum við dagsins miklu betur og gátum sinnt öllum gestunum betur heldur en ef allir hefðu komið í einu. Að hafa opið hús yfir daginn var líka mjög þægilegt þar sem gestafjöldinn dreifðist aðeins í stað þess að allir kæmu í einu,“ segir hún.

Mæðgurnar Hrönn og Embla.
Mæðgurnar Hrönn og Embla.

Hrönn var með sex tegundir af kökum og sætmeti, candyfloss, lítil box með snakki, poppi og saltkringlum, lítil box af ferskum ávöxtum og grænmeti, þrjár tegundir af mismunandi salati ofan á brauð, pesto og hummus, gott súrdeigsbrauð og míní pizzur. „Um kvöldið var ég svo með mexíkóska kjúklingasúpu og brauð og svo kökur og sætmeti eftir matinn.“

Hrönn lagði mikinn metnað í einhyrningskökuna sem prýddi veisluborðið. Hrönn segir að bakstur á slíkri köku taki minni tíma og sé einfaldari en hún líti út fyrir að vera.

„Ég horfði á nokkur youtube myndbönd af svona einhyrninga-kökum áður en ég hófst handa og þetta gekk eins og í sögu hjá mér. Það sem er mesta föndrið í þessu eru hornið og eyrun sem ég mótaði úr sykurmassa nokkrum dögum áður og lét harðna og málaði svo með gylltu dufti. Kakan sjálf getur verið hvernig kaka sem er með hvítu smjörkremi utan á og þar er aðalmálið að slétta fallega úr kreminu með spaða og helst að hafa kökuna á snúningsdisk meðan hún er skreytt. „Makkinn“ á einhyrningnum er gerður úr smjörkremi í nokkrum litum. Ég var með mitt krem í ljósbleikum, ljósfjólubláum, dökkfjólubláum og grænbláum lit og var með kremið í 6 sprautupokum með 4 mismunandi stútum. Mesta vinnan við þetta er að lita allt kremið í réttum litum en ég notaði gel-matarliti til að fá sterka og fallega liti. Augun eru svo gerð með svörtu kremi í sprautupoka með mjög mjóum stút en augun eru klárlega mesta nákvæmnisvinnan við þessa köku. Auk stóru einhyrningskökunnar var ég líka með einhyrnings-bollakökur og kökupinna og var þar að mestu leyti sama aðferð notuð og við stóru kökuna. Horn og eyru föndruð úr sykurmassa og máluð gyllt og kremi í þema-litunum, og sprautað með mismunandi sprautustútum á kökurnar. Ég mæli algjörlega með því að horfa á sýnimyndbönd á youtube áður en maður hefst handa,“ segir hún.

Hrönn skreytti kókflöskurnar.
Hrönn skreytti kókflöskurnar.

Litaþemað í 1 árs afmælinu voru mismunandi tónar af bleikum, fjólubláum og grænbláum eða þeir litir sem Hrönn finnst passa best við einhyrninga.

Hrönn lagði ekki bara metnað í kökurnar heldur voru drykkjarföngin afar spennandi.

„Ég var með drykkjarbar í veislunni þar sem ég bauð upp á nokkrar tegundir af drykkjum. Ég var með þrjár glerkönnur með stút sem voru allar með mismunandi drykkjum. Ég var með ribena sólberjasaft, bleika einhyrninga-mjólk (venjuleg mjólk með smá matarlit) og svo var ég með sódavatn með sítrónu. Ég var svo með tómar skreyttar Froosh flöskur sem fólk gat sett drykkina í. Eins var ég með gos í gleri en bæði gosið og tómu Froosh flöskurnar voru skreyttar í litaþemanu með gylltum einhyrning og röndóttu röri bundnu á flöskuna með silkiborða. Mér finnst ótrúlega gaman að hafa svona drykkjarbar í veislum af því það kemur svo fallega út og eins er gaman að bjóða upp á skreyttar flöskur og allskonar flotta drykki fyrir gestina.“

Hrönn elskar að skreyta fyrir viðburði og veislur og sleppti fram af sér beislinu þegar hún skreytti fyrir afmælið.

„Það var því algjör veisla fyrir mig að fá að skreyta fyrir þetta afmæli – þetta er svo skemmtilegt þema og fallegir litir að það var algjört æði að skreyta og ég var alveg í vandræðum að velja úr hvaða skreytingar ég vildi nota. Ég ákvað á endanum að einblína mest á veisluborðið og drykkjarbarinn. Ég er búin að vera að sanka að mér skrauti síðustu mánuði fyrir veisluna, bæði hérlendis og erlendis og keypti til dæmis mjög mikið úti í London í byrjun desember og dröslaði með mér heim. Tjullpilsið sem er utan um borðið keypti ég tilbúið en annars föndraði ég skrautið að mestu sjálf með hjálp frá frábæru vinum mínum. Gylltu stafirnir með nafninu hennar Emblu voru algjör handavinna en ég byrjaði á því að fara í Pixel og láta þá prenta út stafina á A3 blöð. Ég klippti svo stafina út til að nota sem skapalón og límdi á glimmer-kartonblöð og klippti út og límdi á vegginn. Blöðruboginn fyrir ofan borðið er búinn til úr blöðrum í nokkrum tónum af bleikum, fjólubláum og grænbláum og eins er mismikið blásið í blöðrurnar svo þær séu ekki allar í sömu stærð svo þetta yrði flottara. Blöðrurnar eru svo allar þræddar uppá band og búin til lengja sem er svo fest á vegginn. Veggurinn bakvið drykkjarbarinn er svo alveg þakinn af pompoms í þemalitunum og í nokkrum stærðum. Kökurnar sem ég var með voru svo auðvitað stór hluti af heildarlúkkinu og skreyta borðið alveg helling og eins skreyttu flöskurnar á drykkjarbarnum.“

Hvað lærðir þú af því að halda þetta afmæli?

„Ég lærði aðallega að það er betra að byrja fyrr en seinna að skreyta og baka, sérstaklega þegar maður er með lítið barn heima allan daginn. Við mæðgur lentum líka í slæmum veikindum en mánudaginn fyrir afmælið greindumst við báðar með lungnabólgu eftir langa flensutíð svo ég var kannski ekki alveg á fullum dampi við undirbúning. Margar kökur geymast mjög vel skreyttar með kremi og öllu í frysti og því er sniðugt að vera búinn að undirbúa sig löngu áður og baka og frysta til að minnka álagið dagana fyrir afmælið. Ég notaði þá aðferð þegar ég var að undirbúa skírnina hennar Emblu og það var ótrúlega þægilegt. Ég komst líka að því að ég á alveg ótrúlega góða vini sem komu veiku mömmunni til hjálpar daginn fyrir afmælið og hjálpuðu mér að klára að skreyta allt.“

Muntu hafa næsta afmæli svipað?

„Ég er sko strax byrjuð að plana næsta afmæli og það verður klárlega ekkert minna umstang í kringum það heldur en núna. Komin með möppu í tölvuna og byrjuð að safna hugmyndum! Get ekki beðið,“ segir hún kát og glöð.

Hrönn er mjög virk á Snapchat. Hægt er að fylgjast með henni á hronnbjarna. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál