„Hola amigos, það er nú orðið svolítið síðan ég skrifaði síðast blogg. Íbúðin sem við erum í er á sölu, pínu bömmer ég viðurkenni það. Búin að koma okkur svo vel fyrir og líður vel. En sem betur fer er ekki mikil hreyfing á íbúðunum hér núna því verðið á þeim er svo rosalega hátt. Bý í um það bil 100 fm blokkar íbúð með 3 svefnherbergjum og verðmiðinn á henni er 320.000 evrur sem er algjör bilun. En allavega þá selst hún ekki á meðan og við erum þakklát fyrir það,“ segir Svali Kaldalóns í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Sófinn lét loksins sjá sig sem við keyptum í ferbrúar, var í rauninni búinn að gleyma því að við höfðum keypt hann. Fékk símtal frá Conforama og mér tjáð að sófinn væri klár og hvort ég væri heima til að taka við honum. Hingað kom sendibíll með einum frekar gömlum og öðrum mjög ungum að bera sófann uppá þriðju hæð. Ekki málið fyrir þá, snöruðu honum inn, settu hann saman og tóku pappa draslið með sér og hentu því. Frábær þjónusta finnst mér. Svo kom símtal daginn eftir frá Conforama þar sem var verið að fylgja pöntuninni eftir, hvort ekki örugglega allt hafi verið í lagi og hvort sófinn hafi nokkuð skemmst í flutningnum.
Skólinn gengur bara ágætlega hjá drengjunum. Eru í fjórða og fimmta bekk núna og fá sennilega að skríða upp um bekk á nýjum vetri. Kerfið hér virkar nefnilega þannig að ef þú nærð ekki að fóta þig í náminu t.d í fjórða bekk þá þarftu að taka hann aftur árið eftir. Get ekki útskýrt nægileg hvað ég var mikið á móti þessu en svo útskýrði skólastjórinn fyrir mér að það væru einfaldlega ekki öll börn á sama þroska stað og því ekki tilbúin að fara upp í næsta bekk. Ef þau réðu ekki við efnið í fjórða bekk núna, þá munu þau ekki ráða við það í fimmta bekk á næsta ári og það mun skapa verulega vanlíðan. Þannig að ég ákvað að vera ekki að fetta fingrum út í þetta strax.
Sumarið er komið á Tenerife og sólin skín. Þetta er víst búið að vera köld tíð í vetur á mælikvarða heimamanna. Get ekki sagt að ég hafi mikið fundið fyrir því en t.d þá var hitastigið frá miðjum apríl og fram í maí byrjun svipað og í janúar, sem sagt mun kaldara. Þannig að ég mjög ánægður að sjá og finna þennan hita sem á að vera núna og verður fram á næsta vetur, sem byrjar í nóvember. Sit núna á svölunum heima að skrifa á sunnudagsmorgni í 28 gráðum og hef það náðugt. Blessuð sólin.
Það hefur eitt og annað gerst hjá okkur, maður er kominn töluvert lengra inn í kerfið og spænskan kemur í rólegheitunum hjá okkur eldri en krakkarnir æða áfram og geta tjáð sig ágætlega. Við hjónin höfum í nægu að snúast. Erum komin með tvö hús til að sjá um í útleigu, og næg verkefni þar. Við semsagt sjáum um bókanir í húsið, tökum á móti, þrífum og pössum að allt sé í stakasta lagi. Oft gott að geta bara talað íslensku við þann sem sér um húsið sem er verið að leigja. Ég sjálfur hef verið að fara í töluvert mikið af túrum með fólk. Ég býð upp á hjólatúra, gönguferðir og prívat ökuferð um eyjuna. Þetta hefur eiginlega bara allt sprungið út og ég haft miklu meira en nóg að gera. Þannig að nú er staðan þannig að við erum eiginlega orðnir tveir í þessu til að geta annað öllum ferðum, ef þú ert á leiðinni hingað á eiginvegum eða með ferðaskrifstofu getur þú haft samband við mig/okkur í gegnum FB síðuna mína Svali á Tenerife og þar getum við svo búið til ferðir fyrir fólk eftir þörfum. En ég sjálfur mun reyndar núna minnka ferðirnar sem ég er að fara í því ég er við það að hefja störf hjá Vita og mun starfa hjá þeim fram í október, þannig að ég hef ekki sama tímann í þessar ferðir mínar en vinur minn hann Ásgeir Ingólfsson mun taka hitan og þungan af ferðunum í sumar.
Bestu kveðjur, Familia Kaldalóns
Svo er alltaf hægt að fylgjast með okkur á SnapChat og Instagram
Snap : svalik
Insta: svalikaldalons