Hólmfríður Björnsdóttir, eða Hófý eins og hún er kölluð er þrítugur lögfræðingur og unnusta Jóhanns Bergs landsliðsmanns í fótbolta en hann spilar á HM í Rússlandi en mótið hefst á laugardaginn. Parið býr í tveimur löndum, á Íslandi og í Manchester í Bretlandi. Hófý og Jóhann eiga dótturina Írisi sem er 17 mánaða. Auk þess eiga þau hundinn Nino sem er eins og einkasonur þeirra.
Hófý æfði samkvæmisdansa og var margfaldur íslands- og norðurlandameistari bæði í latin og ballroom. Aðeins 18 ára gömul ákvað hún að taka einkaflugmanninn samhliða því að klára Verslunarskóla Íslands, en fluttist svo til Danmerkur til að dansa og bjó þar í rúm tvö ár.
„Fljótlega eftir að ég flutti aftur til Íslands hóf ég nám við Lagadeild Háskóla Íslands. Á sumrin starfaði ég sem flugfreyja hjá Icelandair og skemmti um allt land sem Solla Stirða,“ segir Hófý.
Hvernig leggst HM í þig?
„Heimsmeistaramótið leggst mjög vel í mig og eftirvæntingin er orðin mikil. Ég er þó jafnframt orðin mjög spennt fyrir því að upplifa rússneska menningu og sjá hvað landið hefur upp á að bjóða.“
Hvernig heldur þú að strákunum eigi eftir að ganga?
„Ég hef fulla trú á því að strákunum gangi vel enda hafa þeir sýnt það og sannað að þeir geta allt sem þeir ætla sér.“
Ferðu með til Rússlands?
„Við mæðgur ætlum að fara saman til Rússlands. Við verðum þó ekki einar á báti þar sem bæði foreldrar mínir og foreldrar Jóhanns koma með. Ég er ekki komin svo langt að ákveða hvað ég ætla að taka með mér annað en landsliðstreyju númer 7. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá verður það líklegast meiri höfuðverkur fyrir mig að ákveða hvað ég kemst upp með að taka ekki með.“
Hvaða áhrif hefur HM á fjölskyldulítið?
„Ég myndi nú ekki segja að Heimsmeistaramótið sem slíkt hafi einhver sérstök áhrif á fjölskyldulífið nema kannski sú staðreynd að Jóhann er meira að heiman nú en venja er. Það má hins vegar frekar segja að bæði stórmót og fótboltinn almennt hafi alla daga gríðarleg áhrif á plön okkar fjölskyldunnar enda er það oft á tíðum sjaldnast í okkar höndum hvar við búum á hverjum tíma eða hvenær við tökum sumarfrí. Við lítum þó á þetta allt saman sem forréttindi enda höfum við öðlast ómetanlega reynslu og víkkað sjóndeildarhringinn svo um munar.“
Nærðu að halda ró þinni á leikjum?
„Ég er frekar róleg að eðlisfari og held oftast ró minni á leikjum. Ég man þó að á Evrópumeistaramótinu örlaði fyrir örlítið hraðari hjartslætti en gerist og gengur og það kæmi mér því ekki á óvart að slíkt hið sama myndi gera vart við sig á Heimsmeistaramótinu nú í júní.“
Hvernig leggst sumarið í þig
„Árið 2018 hefur farið afar vel af stað hjá okkur Jóhanni. Hann skrifaði nýverið undir nýjan samning hjá Burnley eftir frábært gengi liðsins í deildinni og ég kláraði öll námskeiðin mín í meistaranámi mínu við lagadeild Háskóla Íslands. Jóhann kikkstartaði svo sumrinu með því að skella sér á skeljarnar fyrir rúmum þremur vikum síðan og nú eru rétt rúmar þrjár vikur í fyrsta leik í Rússlandi. Það er því óhætt að segja að þetta sumar verði okkur eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir og ég get því ekki annað en hlakka til tímans sem framundan er.“