Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst á fimmtudaginn og Ísland spilar sinn fyrsta leik á laugardaginn. Það eru því miður margir sem komast ekki til Rússlands að styðja strákana, það þýðir þó ekki að hengja haus yfir því. Hér eru nokkur ráð til þess að halda gott HM-partí og njóta þess að styðja strákana hér heima við.
Góðar veitingar
Góðar veitingar gera gæfumuninn þegar horft er á íþróttir. Bandaríkjamenn eru sérstakir snillingar í því en þeir geta þó ekki státað af því að spila á HM í ár. Pítsa, kjúklingavængir, snakk, ídýfa og nammi eru tilvaldar veitingar í HM-partíið. Markaðsdeildir flestra matvælaframleiðenda hér á landi hafa klætt vörur sínar í fánalitina og því ætti að vera nóg úrval af HM-nasli í búðum.
Svo geturðu gengið skrefinu lengra og sett rauðan og bláan matarlit út í matinn til að búa til meiri stemningu og svo bætirðu rjóma við til að fá hvíta litinn alveg tæran. Bláar pönnukökur með jarðarberjasultu og rjóma er nokkuð sem hægt er að vinna með.
Góður félagsskapur
Það er mikilvægt að bjóða rétta fólkinu í heimsókn til að horfa á leikinn. Skiljanlega eru sumir svekktir að komast ekki til Rússlands en það má þó ekki gleyma sér í svekkelsinu og láta það smita út frá sér. Ekki bjóða einhverjum sem dregur niður stemninguna með því að minna þig stöðugt á að þú sért ekki í Rússlandi.
Skreytingar
Það eru ekki aðeins matvælaframleiðendur sem hafa sett fánalitina á allar vörur sínar. Í flestum matvöruverslunum má finna skreytingar með íslenska fánanum eða myndum af strákunum okkar. Verum þjóðleg og skreytum heimilið í fánalitunum fyrir HM-partíið. Mundu að meira er betra og alls ekki spara skrautið.
Farðu niður í bæ
Leikir Íslands verða sýndir víðsvegar um bæinn, á Ingólfstorgi, í Hljómskálagarðinum, á túni við Vesturbæjarlaug, á matarmarkaðnum Box í Skeifunni, á Garðatúni, Rútstúni, Hjartagarðinum og Thorsplani. Ef þú sérð ekki fram á að geta haldið gott partí heima mælum við með því að þú mætir á einhvern þessara staða til að horfa á leikinn og upplifir stemninguna þar.