Sér ekki eftir því að hafa flutt til Tenerife

„Í dag eru sléttir sex mánuðir síðan við fluttum. Vá hvað tíminn flýgur hratt, stundum finnst okkur eins og við séum ekki tengd við neitt dagatal. Margir búnir að koma út að heimsækja okkur, ekki endilega búið hjá okkur en komið og verið með okkur. Þetta er auðvitað búið að vera frábær tími og við erum núna kannski komin á þann stað að finnast við vera heima. Hvernig líður ykkur þarna, sjáið þið eftir þessu og hvað ætlið þið að vera lengi eru sennilega algengustu spurningarnar sem við fáum. Skiljanlega, því það er kannski ekkert sjálfgefið að skipta svona um gír. En til að svara spurningunum hér skriflega þá er þetta einhvern veginn svona,“ skrifar Svali Kaldalóns um helgina í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:

Hvernig líður ykkur þarna? Okkur líður mjög vel í það heila, en stundum verðum við óttaslegin yfir því að hafa farið út í þetta. Stundum koma dagar sem heimþráin bankar upp á, stundum efast maður um að maður sé með öllum mjalla. En oftast þá líður okkur vel og erum sátt við að hafa tekið þetta skref. 

Sjáið þið ekkert eftir þessu? Það hefur aldrei verið eftirsjá, en oft efasemdir um ákvörðunina. Í rauninni þýðir ekkert að sjá eftir því að hafa tekið svona, eða bara nokkra, ákvörðun. Skaðinn er þá bara skeður og best að vinna úr því. Það hefur sína kosti að vera hér en líka galla auðvitað. Það er ekkert allt betra í sólinni þó að margt sé gott. 

Hvað ætlið þið að vera lengi? Jóhanna segir alltaf ekki minna en tvö ár, ég segi ekki minna en þrjú ár. En ef ég loka augunum og læt hugann reika að þá væri ég til í að kaupa mér íbúð hér á Tenerife og búa þar á veturna og fara svo til Ítalíu á sumrin. Vinna við að bjóða upp á svona gormet Ítalíuferðir. Taka á móti fólki og kynna það fyrir mat og drykk, fara í göngur um sveitir Ítalíu, eitthvað í þá áttina. 

En að öðrum fréttum þá er gaman frá því að segja að drengirnir okkar kláruðu skólann með bravör. Fjúka báðir upp um bekk, sem var einmitt það sem við vorum búin að kvíða mest að myndi ekki ganga. En þrátt fyrir gamaldags skólakerfi þá eru frábærir kennarar í skólanum og án þeirra hefði þessi vetur getað verið mun erfiðari fyrir strákana en raun bar vitni. Þeir komust í sumarfrí 22. júní en munu þurfa að sækja auka spænskukennslu í sumar ef þeir ætla að eiga þolanlegan vetur á næstu önn. 

Jóhanna hefur nóg fyrir stafni, við erum með þrjár íbúðir sem hún er að sjá um. Sér um þrifin, lyklaafhendingar og bara almenna þjónustu við íbúðirnar. Tvær íbúðanna sem við sjáum um eru með Facebook-síður þar sem hægt er að bóka húsin. Við sjáum nefnilega líka um að bóka þau. Annað húsið er í Costa Adeje og heitir síðan á Facebook Hús til leigu í Costa Adeje, og hitt húsið er í Los Cristianos og heitir síðan á Facebook Hús til leigu í Los Cristianos Tenerife, en það er meira og minna uppbókað. Þriðja húsnæðið er í eigu verkalýðsfélags og er í stanslausri útleigu af félagsmönnum. Þannig að í rauninni á þessum 6 mánuðum erum við búin að koma okkur nokkuð vel fyrir vinnulega séð. 

Ég er kominn á fullt að vinna fyrir Vita þessi misserin og kann því mjög vel. Gaman að vera innan um fólk sem er svo ofsalega kátt, loksins sumarfrí og svona og langflestir frábærir gestir, en svo eru það aðrir. Ótrúlegt hvað sumir eru til í að eyða mikilli orku í að vera fúll á móti. En ég viðurkenni það að ég hef pínu gaman af svoleiðis týpum. Maður bara kæfir það í glaðlegheitum og þá á það engan séns. Það er gaman að vera fararstjóri, maður reynir að tryggja að allir þeir sem koma fái sitt og þeir njóti frísins eins vel og hægt er. Mér finnst skemmtilegast af þessu að fara í ferðirnar og fá að deila eyjunni með fólki. Svo ótrúlega margt að sjá og svo mögnuð sagan hér. Svo er mjög gaman að taka á móti fólki, þá eru allir svo extra kátir. En að sama skapi getur stundum verið erfitt að skila fólki, mætti halda að stundum blossaði upp allur sá pirringur sem viðkomandi hefur safnað upp um veturinn og hann látinn gossa í röðinni þegar er verið að innrita farþegana. En auðvitað skilur maður það, fúlt að fara úr fríinu og svona. 

Þegar öllu er á botninn hvolft þá líður okkur vel og við lifum bara fyrir daginn í dag. Við erum þakklát fyrir að hafa tækifæri til að fara í þetta ævintýri saman og ætlum að njóta vegferðarinnar. 

Takk fyrir að nenna að fylgjast með okkur, ekki hika við að senda okkur línu ef það er eitthvað sem þig langar að vita varðandi Tenerife. 

Mbk, Svali, Jóhanna, Sigvaldi, Valur og Siggi Kári

SnapChat: Svalik

Instagram: svalikaldalons

Facebook: Svali á Tenerife 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda