Rakel Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá Matís og fyrrverandi eigandi Frú Laugu, og Helgi Þorgils Friðjónsson listamaður gengu í hjónaband í Hallgrímskirkju 25. ágúst.
„Við vorum bæði að gifta okkur í 2. sinn eftir áratuga löng fyrri hjónabönd og þar sem fjölskyldu- og vinasamsetning og samskipti eru flókin ákváðum við að hafa þessa staðfestingu á ást okkar og heitum fyrir Guði og samfélagi manna fyrir okkur ein. Við báðum Sr. Sigurð Árna Þórðarson um að gifta okkur í Hallgrímskirkju og óskuðum eftir því að athöfnin yrði fyrirferðarlítil og truflaði ekki almenna notkun kirkjunnar,“ segir Rakel í samtali við Smartland.
Ferðamönnum, sem heimsækja kirkjuna daglega, var því ekki vísað frá meðan á athöfninni stóð, heldur var sett upp band um mitt kirkjuskip svo að ferðamenn gátu valsað um og virt fyrir sér kirkjuna og athöfnina úr fremri hluta kirkjuskipsins.
„Að okkar ósk bað Sigurður Árni Hörð Áskelsson um að spila tvö orgelverk á stóra orgel kirkjunnar, eitt í upphafi athafnarinnar og annað í lokin, sem hann og gerði óafvitandi um hverjir væru að gifta sig fyrr en á hólminn var komið. Við gengum saman inn við stórfenglegan undirleik Harðar sem hljómaði um alla kirkjuna og fyllti hana mikilfengleik. Að vonum voru ferðamennirnir undrandi og glaðir yfir þessum gleði- og kærleiksatburði sem þeir urðu óvænt vitni að. Okkur þótti fallegt að tilviljun skyldi ráða því hverir yrðu viðstaddir þennan samruna okkar, að það skyldi vera eitthvað sem væri stjórnað af öðrum öflum en okkur sjálfum,“ segir Rakel.
„Það vildi svo til að þegar við komum í kirkjuna var þar komin stúlka, ljósmyndari, að setja upp myndavél fyrir fjölmenna giftingarathöfn kl. 15 og að okkar ósk bað Sigurður Árni hana um að smella nokkrum myndum af okkur, sem hún gerði, auk þess sem kirkjuvörðurinn tók nokkrar ljósmyndir,“ segir hún.
Rakel segir að giftingin hafi verið falleg og innileg.
„Okkur þótti sem himnarnir opnuðust til að greiða veg fyrir andlegri og veraldlegri sameiningu okkar. Við höfðum ritað stuttar tölur til hvort annars, sem lýstu hug okkar og ást, og Helgi las sína fyrir mig, en sr. Sigurður Árni varð að lesa mína til Helga þar sem ég var svo klökk að ég átti erfitt með lesturinn. Að lokinni athöfninni leiddumst við aftur út við ómandi undirspil Harðar á stóra orgelinu og þegar við nálguðumst mitt kirkjuskipið brutust út fagnaðarlæti meðal ferðamannanna og okkur mættu mörg gleðibros, klapp, fagnaðaróp og hamingjuóskir. Við gengum svo tvö saman undir glampandi sól á heiðbláum himni og við hlýjan andvara á tvo uppáhaldsstaði okkar í Reykjavík, Listasafn Einars Jónssonar gegnt Hallgrímskirkju, þar sem við nutum fegurðar og fallegs boðskapar listar Einars enn sem áður, og Hljómskálagarðinn þar sem við heimsóttum tvær hjartfólgnar höggmyndastyttur eftir Einar, Úr álögum og Jónas Hallgrímsson. Við skáluðum svo tvö í kampavíni, borðuðum einar bestu pizzur bæjarins á veitingastaðnum Ítalíu og nutum dreggja dagsins.“