Skólabækurnar kostuðu 60 þúsund

Jóhanna og Svali fluttu til Tenerife um síðustu áramót.
Jóhanna og Svali fluttu til Tenerife um síðustu áramót.

„Hola amigos. Orðið dálítið síðan frá síðasta pistli og löngu kominn tími til að uppfæra ykkur um gang mála. Hér hefur lífið gengið sinn vanagang, strákarnir allir komnir í skólann og það verður að viðurkennast að við tókum fagnandi á móti rútínunni,“ segir Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er kallaður, í sínum nýjasta pistli: 

Það var gestkvæmt í sumar og því allt sem hét regla var löngu horfið. En núna eru þeir allir í skóla og því smá næði sem við fáum í að vesenast og vinna á meðan þeir eru þar. Sá stutti, Siggi, byrjaði í skólanum 10. september og líkar bara mjög vel. Við höfðum kviðið því dálítið að fara með hann í skólann þar sem hann er búinn að vera einn með okkur hér eftir að við fluttum.

Það voru tvær dálítið strembnar vikur þar sem hann vildi alls ekki ganga inn um  hliðið í skólanum. En það lagaðist hægt og rólega og nú kyssir hann mann bara bless og hleypur inn. Held að það hafi tekið meira á okkur en hann sjálfan, þetta er svo allt öðruvísi en heima á Íslandi.

Við megum ekki stíga fæti inn á skólalóðina þannig að maður þarf svona að skúbba honum inn fyrir hliðið og hvetja hann svo að fara í röðina sína fyrir utan rimlana. Við heyrðum svo hjá honum í vikunni í fyrsta sinn þar sem hann útskýrir eitthvað sem hann var að gera í skólanum á spænsku. Sagði okkur frá bolta sem hann var að leika sér með „belota“. En það verður að viðurkennast að við erum búin að taka lengri tíma í að komast í rútínu en ég reiknaði með. Svona hlutir eins og að æfa reglulega, fara í búðina á föstum degi og fleira í þeim dúr. En það er kannski líka út af því að hér er allt svo nýtt fyrir okkur þannig að það er engin rútína í neinu. En það kemur nú sennilega með tímanum. 

Skólinn hófst hér 10. september og þurftum við núna að kaupa allt efni fyrir skólann. Það er ekki gefins hér get ég sagt ykkur. 60 þúsund krónur sem það kostaði að kaupa bækur og ritföng fyrir drengina. Þetta er í rauninni fyrsti alvöruskólaveturinn þeirra hér því í fyrra fengu þeir engar bækur og voru bara svona í einföldu efni í skólanum. En nú er þetta allt annað og nóg að bókum fyrir þá að glugga í. Fáum oft spurninguna, eru þeir sáttir? og svarið er stundum, ekki alltaf. En það er bara eins og gengur og gerist. 

Vita framlengdi við mig vinnuna út apríl 2019 og má því segja að það sé í nógu að snúast hjá mér og okkur þennan veturinn. Vinn fyrir Vita og er að koma fyrirtækinu mínu á koppinn í leiðinni og sýsla alltaf með fleiri fasteignir fyrir Íslendinga. Jóhanna mun fara meira í það núna næstu misserin, ætlum að aðstoða fólk við fasteignakaup hér á eyjunni í samstarfi við íslenskt fyrirtæki. Þannig að það er eitt og annað í kortunum þessa dagana. Þannig að ef við erum spurð hvenær við ætlum að koma heim aftur að þá er ómögulegt að svara því. Erum sem stendur bara ekkert að hugsa um það, svo margt sem þarf að klára hér fyrst. 

Við skutumst heim í ágúst, ég stoppaði í viku en restin af genginu í þrjár vikur. Það var fínt að koma aðeins heim og heilsa upp á vini og vandamenn. Fannst skrítið að koma heim til Íslands og eiga ekkert þar, enga íbúð, engan bíl og svo þar fram eftir götunum. Strákarnir kíktu í skólann heima og fannst það frábært. Gaman að hitta alla og segja frá ævintýrinu og slá jafnvel um sig á spænsku. Það góða við að þeir fóru í skólann heima var að þeir áttuðu sig á því að það var alveg jafnleiðinlegt í skólanum á Íslandi og hér úti. 

Svo fékk ég athyglisverðan póst um daginn frá hagstofunni. Það er verið að fetta fingur út í það að ég sé með lögheimili á Íslandi en búi hér. Ég sótti um búferlaflutning þegar við fórum en það kannski telur ekki, lögheimilið var kannski meira hugsað bara til að fá póstinn sinn sendan eitthvað. En eitt sem mér finnst merkilegt er að ég má ekki vinna hér á íslenskum launum nema í sex mánuði á ári. Þarf sem sagt að vera hálft ár heima á ári til að mega vinna á íslenskum launum. En hversvegna það, ef ég vinn á íslenskum launum og borga skatta og skyldur á íslandi, er þá ekki bara frábær kostur að hafa mig úti því ekki nota ég neitt af því sem ég borga skatt í. Hefði haldið það væri kannski frekar spænska ríkið sem ætti að krefja mig um að borga skatt hér en ekki íslenska ríkið að banna mér að borga skatta heima ef ég bý ekki þar.

Við fluttum í nýja íbúð í ágúst, þriðja íbúðin síðan við komum út. Við fáum alla veganna að vera hér í ár núna en líkur á að við getum gert svo 3 ára samning næst. Við fluttum úr Los Cristianos og yfir í Las Americas. Við erum aðeins nær kraðakinu en íbúðin er fín og nóg af krökkum hér fyrir drengina að leika sér við. Höfum reyndar aðeins lent í barningi við kakkalakka. Það skal ég fúslega  viðurkenna að mér er illa við þá, mein illa við þá. Gera manni svo sem ekki neitt en þeir eru bara svo ófrýnilegir. En eftir flutninginn áttar maður sig líka á hvað bíllinn er óþarfur í bænum. Ég fer allra minna ferða í vinnunni á rafmagnshlaupahjóli og það er algjörlega geggjað. Bara þvílíkur lúxus að þurfa ekki að fara allt á bílnum. 

Varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera með í sjónvarpsþáttunum Ný sýn sem verða sýndir núna á næstunni í Sjónvarpi Símans. Tókum upp viðtal á Íslandi og hér á Tenerife. Er aðeins að stikla á því hvernig stóð á flutningnum hingað og fleira. Verð bara að viðurkenna að ég er mjög spenntur að fá að sjá þáttinn. Held að hann verði í byrjun nóvember. Kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað fólk er til í að fylgjast með okkur hér.

En annars er bara nokkuð gott af okkur að frétta, lífið gengur sinn vanagang hér eins og annars staðar. Aðeins farið að kólna núna sem betur fer, búið að vera afar heitt síðan í sumar. Í næsta pistli er ég að vonast til þess að geta útskýrt almennilega fyrirtækið sem ég stofnaði hér í samstarfi við tvo aðra. En þangað til þá, bestu kveðjur frá Tenerife.

SnapChat : Svalik

Instagram: svalikaldalons

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda