Ástarsorgin dró hana í Kópavog

Kamilla Einarsdóttir.
Kamilla Einarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kamilla Einarsdóttir hefur skrifað sögur alla sína ævi en langaði ekki að gefa neitt út. Eftir að bókaútgáfa sýndi verkum hennar áhuga og bauðst til að gefa bók hennar út varð til bókin Kópavogskronika. 

Í bókinni má finna kómískar lýsing á miðbæ Kópavogs þar sem sögumaður upplifir m.a. ástarsorg og gefur dóttur sinni góð ráð. Sjálf á Kamilla þrjú börn á aldrinum 8-17 ára og hefur mikla trú á yngri kynslóðinni. Hún segir að það að eignast börn neyði fólk í eins konar uppgjör við foreldra sína og sjálfa sig í leiðinni.

Hvernig varð þessi bók til?

„Ég hef verið að skrifa og segja sögur síðan ég man eftir mér en aldrei séð fyrir mér að gefa það út. Svo höfðu þeir hjá bókaútgáfunni Bjarti/Veröld samband og buðu mér í kaffi. Ég fór og sýndi þeim það sem ég var að gera þá, sem átti að vera nokkurs konar vegahandbók um Kópavog en endaði samt sem skáldsaga um bömmer og að vera í ástarsorg í Smiðjuhverfinu. Ég bjóst alltaf við að þeir myndu biðja mig um að hætta, en þeir voru alltaf bara svo hressir að nú er þetta bara komið í bók,“ segir Kamilla.

Þú dregur upp skemmtilega mynd af Kópavogi í bókinni. Hver er tenging þín við bæjarfélagið?

„Ég hef aldrei búið í Kópavogi. Ég var í tónlistarskóla þar í nokkur ár þegar ég var krakki og fannst aldrei mikið til bæjarins koma. Svo lenti ég í ástarsorg og fór að þyrsta svo í nýtt umhverfi og að hitta alls ekki neinn eða neitt sem gæti minnt mig á harm minn og rambaði þá á Kópavog í gegnum Kalla vin minn og varð ástfangin af þessum bæ í staðinn.

Bókin átti að koma út núna um mánaðamótin en frestast um einhverja daga út af einhverju prentsmiðjuveseni. Mér finnst það bara passandi fyrir bók um Kópavog. Það er mjög auðvelt að týnast og villast smá þar.“

Í bókinni skrifar sögumaður bókarinnar til dóttur sinnar. Hvers vegna ákvaðstu að skrifa um mæðgnasambönd?

„Mér þykja mæðgnasambönd heillandi. Þetta er skáldsaga svo þetta er ekki alveg beint bréf frá mér til dætra minna, þó að einstöku atriði passi alveg við mig og þær. Það að eignast börn neyðir fólk til að eiga nokkurs konar uppgjör við eigin foreldra og sjálft sig í leiðinni. Bara það að verða fullorðin neyðir okkur mörg til að fyrirgefa foreldrum okkar breyskleika þeirra, þegar við sjáum og áttum okkur á því hvað við erum gölluð sjálf.“

Heldurðu að kynslóð framtíðarinnar muni nálgast sambönd og kynlíf með ólíkum hætti en þín eigin?

„Ég vona það. Það hefur átt sér alls konar vitundarvakning varðandi samþykki til dæmis. Þessi krafa stelpna um að fá að taka meira pláss mun vonandi líka skila sér mjög víða, bæði í opinbera lífinu og einkalífinu til dæmis. Ég hef alla vega bullandi trú á mér yngra fólki. Mér sýnist það vera langtum upplýstara og betra en mín kynslóð, sem betur fer. Í bókinni gefur sögumaður dóttur sinni það ráð að eyða fermingarpeningunum í að láta vana sig. Sjálf myndi ég nú kannski ekki beint segja neinum að gera það. Aðallega því mér finnst ungar konur eiginlega fá allt of mikið af ráðum. Ég held að það sé orðið tímabært að hætta að segja ungum konum til og fara frekar að hlusta á þær. Mín kynslóð og nokkrar á undan erum að því komnar að tortíma jörðinni. Ég sé dætur mínar umgangast jörðina og samfélagið á miklu ábyrgari hátt með því að draga úr kjötneyslu, hætta að kaupa fjöldaframleidd föt og nota almenningssamgöngur og ég held það væri miklu betra ef ég og við öll einbeittum okkur bara að því að styðja það frekar en að þykjast vita betur,“ segir Kamilla.

Ertu með fleiri hugmyndir að bókum í farteskinu?

„Já, ég er alltaf eitthvað að. Um daginn byrjaði ég á nýrri bók um konu sem lendir í hræðilegri ástarsorg og fer þá að hanga rosalega mikið á Selfossi. En svo uppgötvaði ég að það væri nú kannski ekki gaman að skrifa alltaf um það sama. Vonandi tekst mér svo bara að skrifa nýja bók um konu sem er bara alltaf hress að drekka kokkteila. Það væri alla vega mjög gaman að stunda rannsóknarvinnu fyrir þannig bók.“

Nú starfar þú sem bókavörður og ert því sífellt umkringd bókum. Hvaða bók hefur veitt þér innblástur nýlega?

„Á bókasafninu er ég alltaf að rekast á bækur sem veita mér innblástur. Sumar með því að vera skemmtilegar og fróðlegar, aðrar með því að vera svo óspennandi og leiðinlegar að ég hugsa, jæja, ef einhverjum fannst taka því að skrifa og lesa þetta get ég alveg haldið áfram að skrifa.

Ein af þeim íslensku bókum sem ég get alltaf tekið upp og lesið er bókin Tilfinningarök eftir Þórdísi Gísladóttur. Það er að koma út ný skáldsaga eftir hana núna fyrir jól og ég er að farast úr spenningi,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda