Fatahönnuðurinn Karl Lagerfeld er látinn 85 ára gamall. Franskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Þjóðverjinn hefði látist í París. BBC og fleiri fjölmiðlar greina frá þessu. Lagerfeld var listrænn stjórnandi Chanel þegar hann lést en áður hafði Smartland greint frá veikindum hans.
Tilkynning kom frá tískuhúsinu eftir sýningu Chanel í janúar um að listræni stjórnandinn hafi verið of þreyttur til að koma á sýninguna.
Lagerfeld fæddist í Hamborg í Þýskalandi en laug lengi vel til um aldur sinn. Hann flutti sem unglingur til Parísar og varð aðstoðarmaður Pierre Balmain áður en hann byrjaði að vinna fyrir tískuhús á borð við Fendi og Chloe á sjöunda áratug síðustu aldar.
Hann hóf að starfa fyrir Chanel árið 1983. Ári seinna stofnaði hann einnig sitt eigið merki, Karl Lagerfeld.