Hildur Eir tekst á við nýjar áskoranir

Presturinn í Akureyrarkirkju, Hildur Eir Bolladóttir, er byrjuð með mannbætandi hlaðvarp. Hún er ekki með dýran tækjabúnað heldur tekur hlaðvarpið upp á símann sinn. 

„Ástæða þess að ég fór af stað með þetta hlaðvarp/podcast er sú að ég hef skrifað pistla um mannlega hluti í mörg ár og er kannski komin á þann stað að geta talað meira blaðalaust um hluti sem ég er alltaf að fást við í prestsstarfinu. Það þýðir að ég fæ kannski hugmynd í sálgæsluviðtali, útför, giftingu eða fermingartíma og í stað þess að setjast niður og skrifa pistil sem tekur sinn tíma get ég rifið upp símann og talað beint inn á hljóðvarpið á meðan hugsunin er ný og fersk. Ég held að það sé líka meira gaman að hlusta á þannig framsetningu heldur en eitthvað sem er augljóslega lesið upp af blaði,“ segir Hildur Eir og bætir við:

„Kannski langar mig svolítið til að þetta hlaðvarp verði framlenging á þáttunum mínum á N4 með þann tilgang einan í hug að veita fólki von, sálgæslu og sálarró að marki sem maður er þess megnugur. Mig langar sem sagt að þetta verði til gagns fyrir áheyrandann hvort sem það verður til að hugga, opna augu fyrir nauðsynlegum breytingum eða efla sjálfsást og sjálfsmynd viðkomandi,“ segir hún. 

Hildur Eir er ekki með stúdíó heldur tekur hljóðvarpið upp á símann sinn. 

„Ég tek þetta bara upp á símann þar sem ég finn ró og frið til að tala. Það er svolítið þannig með mig í hvert sinn sem ég fer í gegnum breytingar í lífinu, tekst á við nýjar áskoranir, erfiðleika eða sorg þá eflist í kjölfarið þörf til að koma einhverjum lærdómi áfram og leiðar og þannig lít ég svo á að pistlum eða podcasti sé ég allt eins að tala við sjálfa mig, tala sjálfa mig til og hugga. 

Það eru satt best að segja erfiðu áskoranirnar í lífi mínu sem hafa kennt mér að vera prestur en þar er líka fullt af ást og kærleika, megum ekki gleyma því,“ segir hún. 

HÉR er hægt að hlusta á hlaðvarp Hildar Eirar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda