Harpa Karlsdóttir skrifstofustjóri hjá Heilsugæslunni og Gunnar Gunnarsson ljósmyndari, eða Gunni Gunn eins og hann er kallaður, gengu í hjónaband í síðustu viku.
Parið lét pússa sig saman hjá Sýslumanni eftir að hafa verið saman í 18 ár. Nú eru þau stödd í brúðkaupsferð þar sem þau njóta lífsins.
„Eftir 18 àra sambúð àn leiðinda þà var kominn tími à staðfestingu sem tók innan við 10 mínútur að viðstöddum tengdarföður mínum, Gunnari Gunnlaugssyni lækni og æskuvinkonu minni, Sigrúnu Björgu Bragadóttur búsetta í USA síðastliðin 30 àr,“ segir Harpa í samtali við Smartland.
Hvar kynntust þið?
„Við Gunni kynntumst gegnum Séð og Heyrt, það àgæta blað sem fæstir könnuðust við en allir làsu á sínum tíma,“ segir hún og hlær.
Gunni var ljósmyndari á blaðinu og Harpa var tíður gestur á síðum þess. Sem er ekkert skrýtið. Harpa hefur alltaf skorið sig úr hópnum og þannig var það líka á brúðkaupsdaginn þegar hún gekk að eiga Gunna sinn í hlébarðabuxum og Guns´n Roses jakka. Það er varla hægt að toppa það. Það er því ekki annað hægt en að spyrja hana út í jakkann.
„Ég keypti þennan jakka í Zöru á Tene fyrir um fjórum árum síðan en keypti svo merkið á ebay og saumaði á frakkann fyrir tónleikana með Guns´n Roses á Laugardalsvellinum,“ segir hún og hlær.
Harpa og Gunni eru stödd á Tenerife þar sem þau njóta lífsins í nokkra daga. Harpa ætlar ekki að missa af Eurovision á laugardaginn.
„Við ætlum ekki að missa af Ástrósu Guðjónsdóttur dansara slá í gegn með Höturum. Hún er systurdóttur Gunna og því skylda að sjá hana í sjónvarpinu.“
Smartland óskar þeim hjartanlega til hamingju með giftinguna!