Brúðhjónin Molly Jackson og Jackson Schultz fóru óvenjulega leið til að halda upp á stóra daginn. Þau komu alla leið frá Chicago í Bandaríkjunum, létu pússa sig saman í helli og fögnuðu svo með vinum og vandamönnum á veitingastað IKEA í Garðabæ.
Parið lét reyndar gefa sig saman þann 5. júní í fyrra í ráðhúsinu í Chicago, en þau gerðu það til að geta fagnað með þeim sem kæmust ekki með þeim til Íslands. Stóri dagurinn var þó ákveðinn, 5. júní 2019. Þau langaði að fara óhefðbundna leið, vildu giftast á framandi slóðum, og Ísland varð fyrir valinu. Athöfnin fór fram í Loftsalahelli við Dyrhólaey, og þaðan var haldið á veitingastað IKEA til að fagna.
„Okkur barst tölvupóstur fyrr í vikunni frá Molly þar sem hún útskýrði að þau elskuðu IKEA; hefðu farið á fyrsta stefnumótið þar og vildu gjarnan gera IKEA hluta af brúðkaupsdeginum. Þau vildu í raun bara láta vita að það væri von á hópi af fólki í sínu fínasta pússi svo við létum okkur ekki bregða,“ segir Kristín Steingrímsdóttir, markaðsstjóri IKEA.
„Okkur langaði þó að gera eitthvað fyrir þau þannig að við lögðum á borð fyrir brúðhjónin og rúmlega tuttugu gesti og bakararnir okkar gerðu gullfallega brúðkaupstertu í tilefni dagsins. Þetta var einfaldlega of skemmtilegt til að nýta ekki tækifærið til að fara aðeins út fyrir kassann.“
Molly, Jackson og gestir mættu svo í sínu fínasta pússi á veitingastað IKEA, skelltu sér í röðina og fengu sér ýmsa rétti af matseðli IKEA áður en þau gæddu sér á tertu í boði hússins. Þau voru að vonum mjög ánægð með daginn og móttökurnar og sögðu brúðkaupsdaginn hafa verið ógleymanlegan.