Guðný Ósk Laxdal er nýr pistlahöfundur á Smartlandi. Hún er sérfræðingur í konungsfjölskyldum en hún stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Í sínum fyrsta pistli á Smartlandi skrifar hún um Harry prins:
Harry og Meghan eru að verða vel þekkt fyrir að fara öðruvísi að hlutunum en konunglegar hefðir segja til um og vilja margir meina að það sé Meghan sem sé að umbreyta öllu, en Harry er líka að fara nýjar leiðir.
Seinasta sunnudag deildi Instagram aðgangur Harry og Meghan nýrri mynd af syni þeirra Archie í tilefni feðradagsins í Bretlandi. Það sést hinsvegar bara rétt svo í andlit barnsins, en það er eflaust leið þeirra hjóna til að vernda hann fyrir athygli fjölmiðla. Við fáum smá skot af hvernig hann lítur út, en á myndinni sést mest í höndina á Harry og á miðri myndinni, það fyrsta sem maður sér, er giftingahringur. Það sem er áhugavert við það er að Harry gengur með giftingahring.
Vilhjálmur bróðir hans er ekki með hring og hefur aldrei verið með, en það vakti mikla athygli þegar hann og Katrín giftust árið 2011. Þá gaf höllin það út að það væri persónulegt val Vilhjálms að vera ekki með hring. Áhugvert er líka að nefna að hvorki Filippus drottningarmaður né Karl Bretaprins eru með giftingahringa.
Þegar Filippus og Elísabet giftu sig árið 1947 var það frekar nýlegt fyrirbæri að karlar gengu með giftingahringa og var Filippus ekki að taka þátt í þeirri tískubylgju. Er talið að siðurinn hafi byrjað í seinni heimstyrjöldinni þannig að eiginmennirnir hefðu eitthvað til að minnast eiginkonunnar þegar þeir voru erlendis að berjast.
Karl Bretaprins var þó með giftingahring þegar hann giftist Díönu árið 1981. En hringurinn var ekki á baugfingrinum eins og vanalega er. Heldur var hringurinn næstum falinn á bakvið stærri hring sem Karl er með á litla fingrinum. Sá hringur táknar að hann sé Prinsinn af Wales, en slíkir hringar á litla fingri sem tákna stöðu einstaklingsins eru vinsælir innan efri stétta Bretlands. Karl gekk áfram með hringinn eftir að Díana dó, en hann tók þann hring af árið 2005 og setti upp nýjan þegar hann giftist Kamillu það sama ár.
Harry er því ekki algjörlega að fara nýja leið, en Instagram myndin er þó ákveðin yfirlýsing þar sem hvorki afi hans, bróðir né faðir ganga með hringa svona augljóslega. Hann og Meghan eru staðráðin í að fara öðruvísi að hlutunum.
Gaman er þó að segja frá því að skírn Archie á að fara fram snemma í júlí og er búið að staðfesta að Katrín og Vilhjálmur ásamt Karl og Kamillu muni mæta. Elísabet mun því miður missa af skírninni, en hún mætti ekki heldur í skírn hjá Lúðvík prins, yngsta syni Katrínar og Vilhjálms í fyrra. Hvenær skírnin mun síðan fara fram kemur í ljós þegar nær dregur, en það er alveg víst að höllin mun birta fallegar myndir og við munum loksins fá góða mynd af Archie Harrison.