Fékk Harry í 25 ára afmælisgjöf

Guðný Ósk Laxdal fékk sinn eigin Harry í afmælisgjöf.
Guðný Ósk Laxdal fékk sinn eigin Harry í afmælisgjöf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðný Ósk Laxdal er 25 ára gömul flugfreyja sem er alin upp á Akureyri. Hún hefur mikinn áhuga á konungsfjölskyldum, svo mikinn að hún skrifaði BA-ritgerð um bresku konungsfjölskylduna þegar hún útskrifaðist úr Háskóla Íslands. Á dögunum hóf hún pistlaskrif á Smartlandi um kóngafólk og hafa skrif hennar vakið mikla athygli. 

„Eftir að ég kláraði stúdentinn í Menntaskólanum á Akureyri fór ég sem au pair til Englands og var þar einn vetur hjá enskri fjölskyldu sem ég heimsæki enn þá reglulega. Eftir Englandsdvölina flutti ég til Reykjavíkur og byrjaði nám í ensku við Háskóla Íslands. Eftir að ég kláraði það fór ég í MA í enskukennslu sem ég kláraði síðan núna í vor. Undanfarin tvö sumur hef ég síðan starfað sem flugfreyja,“ segir Guðný sem hefur mikinn áhuga á kóngafólki. En hvers vegna er hún svona áhugasöm um konungborið fólk?

„Þetta er góð spurning, en ég hef einhvern veginn alltaf haft hann. Ætli það sé ekki hægt að segja að ég hafi aldrei þroskast upp úr prinsessutímabilinu! Þegar ég var yngri var það oft umræðuefni hjá mömmu minni og móðursystrum hvað væri í gangi hjá norræna kóngafólkinu, og ólst ég upp við að það væri alveg eðlilegt að vita hvað krónprinsinn í Danmörku heitir og hversu mörg börn hann á. Konungleg brúðkaup eru álíka fótboltaleikjum heima, og á ég skemmtilega minningu af því þegar Madeleine Svíaprinsessa gifti sig. Þá var verið að fara að mála heima og mikið í gangi, en brúðkaupið var sett á skjá í nærri hverju herbergi þannig við mamma misstum ekki af neinu. Ég held samt að þessi mikli áhugi hafi kviknað þegar Vilhjálmur og Katrín giftust árið 2011, en það heillaði mig alveg hvað það var mikið ævintýri sem varð að raunveruleika og fékk þá þennan áhuga á bresku konungsfjölskyldunni,“ segir hún. 

-Hvað er það við kóngafólk sem er svona spennandi?

„Í fyrsta lagi þá finnst mér mjög áhugavert hvað allir hafa í raun áhuga á þeim! Þetta er kannski smá eins og Eurovision. Það segist enginn hafa áhuga en ef málið kemur upp þá hefur fólk oft spurningar og er oft að pæla í fólkinu og því sem það hefur heyrt. Sú spurning sem ég fæ oftast, þegar fólk fréttir að ég fylgist mikið með þeim, er sú hvort Karl Bretaprins muni verða konungur. Svarið er: Já. 

Í öðru lagi, þá er bara að mörgu leyti bilað að þetta sé enn þá til. Bretland er íhaldssamt og mikið um gamlar hefðir, en það eru enn þá konungsfjölskyldur í flestum Norðurlandalöndunum, eins og í Svíþjóð og Danmörku og það finnst okkur bara mjög eðlilegt.  

Í þriðja lagi, þá er þetta fólk sem er í frekar sérstökum aðstæðum. Það fæðist inn í heim sem er fullur af sögum og hefðum, og er fullt af skyldum og reglum. Ég meina, ímyndaðu þér að leika þér í stofunni hjá ömmu þinni en þarft að muna að passa þig á borðinu sem Napóleón átti.

Ég varð síðan alveg hugfangin af því hvernig breska konungsfjölskyldan markaðssetur sig eftir að ég fjallaði um það í BA-ritgerðinni minni. En það er auðveldlega hægt að segja að breska konungsfjölskyldan sé eitt stærsta vörumerki heimsins.“

Guðný skrifar ekki bara um kóngafólk því hún hefur hitt Vilhjálm og Katrínu en það gerðist í Manchester árið 2016. 

„Ég var sem skiptinemi í háskólanum í Leeds haustönnina 2016 og komst að því að Vilhjálmur og Katrínu voru að koma í opinbera heimsókn til Manchester. Við vorum nokkrar af sömu heimavistinni sem ákváðum að drífa okkur og athuga hvort við gætum ekki að minnsta kostið átt færi á að sjá hárið á Katrínu. Við vorum tvær sem ákváðum að slá til og fara snemma til Manchester og um leið og við komum út af lestarstöðinni sáum við múg af löggum og að það væri byrjað að setja upp hindranir fyrir framan safnið sem Vilhjálmur og Katrín áttu að heimsækja fyrst um daginn. Við fórum og fengum okkur kaffi, og fundum okkur síðan stað við hindranirnar og biðum. Við biðum í allgóða stund en eftir smá byrjaði að fjölga fólki. Við hittum fullt af fólki; aðra skiptinema, gamla konu sem hafði hitt Vilhjálm þegar hann var unglingur og síðan var þarna skólahópur af um það bil 6 ára gömlum krökkum sem voru með grímur og fána. BBC kom og tók viðtal við krakkana og það var bara fullt að gerast. Síðan byrjaði fullt af fólki að koma inn á safnið, en Vilhjálmur og Katrín komu seinust. Við sáum þau koma út úr bílnum en þau fóru beint inn á safnið. Það var samt alveg æðislegt, en ég þakka lögreglumanninum sem stóð fyrir framan mig og hinum megin við hindrunina innilega, en fólksfjöldinn beygði sig allur fram til að sjá betur og ef lögreglumaðurinn hefði ekki haldið í handriðið er ég hrædd um að ég hefði getað orðið undir. 

Þau voru dágóða stund inn á safninu, sem er fótboltasafnið í Manchester, en komu svo út og byrjuðu að heilsa fólki. Þetta er algengt hjá konungsfólki í Bretlandi, að þau taki svona göngutúr þar sem þau heilsa alveg ógrynni af fólki. Maður veit samt aldrei hvenær þau hætta en við vinkonurnar vorum nokkuð vissar að við myndum fá tækifæri til að heilsa þeim þar sem við vorum á undan skólahópnum, og varla voru hertogahjónin að fara að sleppa þeim. 

Þetta var í raun alveg ótrúleg stund, en Katrín kom fyrst og tók í höndina á okkur og heilsaði og ætlaði svo að halda áfram. Ég veit ekki hvað kom yfir mig, en ég hafði heyrt aðra skiptinema á undan okkur segja henni hvaðan þær voru og hún hafði sýnt áhuga, þannig að ég kallaði til hennar að ég væri frá Íslandi. Og alveg eins og töfrar, þá sneri hún sér við með áhuga í augunum og spurði mig hvað ég væri að gera á Englandi. Ég sagði henni að ég væri í skiptinámi og að ég væri að læra ensku. Hún brosti og sagði að henni þætti svo tilkomumikið þegar fólk fer að læra annað tungumál á háskólastigi og óskaði mér síðan góðs gengis og hélt áfram. Ég stóð eftir með þá minningu um að Katrínu, hertogynju af Cambridge, þætti ég tilkomumikil. 

Vilhjálmur kom næst og ég náði lítið annað að segja en gaman að hitta þig. Enda er alveg ótrúlegt að mínu mati að hitta alvöruprins! Ég sé enn þá eftir því að hafa ekki náð að koma með brandara um að Ísland hafi unnið England á EM fyrr um sumarið það árið, enda Vilhjálmur mikill fótboltamaður og við vorum fyrir framan fótboltasafnið. 

Þetta var mjög skemmtilegur dagur. Við fórum síðan og hittum hinar stelpurnar sem höfðu komið til Manchester og fórum svo allar að fylgja dagskrá hertogahjónanna. Við sáum þó ekki mikið meira af þeim en að sjá þau labba fram hjá í fjarlægð.“

-Hvað er það sem kóngafólk hefur fram yfir aðrar stjörnur? 

„Held að það sé erfitt að kalla þau stjörnur, en við tölum ekki um stjórnmálafólk sem stjörnur og konungsfólk er í raun bara almannapersónur. Og hafa lítið val um það. Frægt fólk sem við tölum um sem stjörnur, velur sér frama fyrir peninga og athygli. En tökum til dæmis Harry og Vilhjálm sem þekkja ekkert annað en að vera í sviðsljósinu og hafa ekkert um það að segja. Ég er ekki að segja að það sér erfitt að lifa við allan þann munað sem kóngafólkið býr við, en ég held að þetta sé ekki öfundsvert líf. Það er svo margt sem að má ekki, þú þarft alltaf að vera að passa upp á að þú sért að hafa þér vel. Síðan hefur þú lítið val um hvað þú gerir í vinnunni, heldur ákveður ríkisstjórnin hvert þú ferðast í opinberar heimsóknir og hverja þú þarft að hitta. Trump-heimsóknin er dæmi, en það sást vel á viðbrögðum Harry, Vilhjálms og Katrínar, sem og mörgum öðrum úr konungsfjölskyldunni að þau voru þarna eingöngu af skyldu. 

Kóngafólk er líka innstillt á að styrkja góðgerðarmál og vekja athygli á fólki sem er að gera flotta hluti. Það er ótrúlegt hvað maður lærir af því að fylgjast bara með kóngafólkinu. Síðan er svo margt meira, t.d. pólitíkin sem er bak við klæðnaðinn hjá þeim, en það er í raun krafa að þau klæðist hönnunarvörum frá breskum hönnuðum.“

Og svo fórstu í háskóla og ákvaðst að skrifa BA-ritgerð um þetta fólk. Hvernig var það ferli? Hver var niðurstaða ritgerðarinnar? 

„Þar sem ég var að læra ensku, er nokkuð frjálst um hvað maður skrifar. Ég fékk hugmyndina þegar ég var í London með vinkonu minni, man ekki alveg hvað varð til þess en hugsaði að af hverju ætti ég ekki að geta skrifað um konungsfjölskylduna út frá menningarlegu sjónarhorni. Ég var síðan svo heppin að leiðbeinandinn minn, Ingibjörg Ágústsdóttir, samþykkti ritgerðarefnið. Í fyrstu ætlaði ég að skrifa um hvernig konungsfjölskyldan hefur nútímavætt sig síðan um aldamótin 1900, en það reyndist allt of mikið efni. Þannig að ég endaði á að fjalla um tímann undir völdum Elísabetar II. 

Elísabet drottning hefur tekið ansi mörg skref í sinni valdatíð til að aðlaga konungsdæmið nútímanum. Hún hefur þurft að aðlagast tímum þar sem fjölmiðlar eru við völdin og þurft að búa til að það samband sem konungsfjölskyldan á við almenning og fjölmiðla í dag. Það besta sem mér dettur í hug sem hún hefur gert er þegar hún tók þátt í James Bond-atriðinu á Ólympíuleikunum 2012! Þar kom hún öllum á óvart en sýnir svo mikið hvað hún er fær um.

Ritgerðin mín kom út árið 2016, en síðan þá hefur margt vissulega breyst. En niðurstaðan mín er sú að sem eitt stærsta vörumerki í heimi þá er konungsfjölskyldan stanslaust að selja almenningi ímynd sem er virklega vel vönduð. Hún er eflaust ekki svo ólík Kardashian-fjölskyldunni að því leyti, en aðalmunurinn er að við erum ekki með raunveruleikaþátt um konungsfjölskylduna og að konungsfjölskyldan er búin að vera til í margar aldir.“

Guðný segir að kóngafólk sé endalaus uppspretta og segir að það sé hægt að pæla í því fram og til baka. 

„Ég hef rosalegan áhuga á konungsfólki og þeirra málum og er heilluð af hvað það er endalaust hægt að pæla í þessu. Af hverju eru sumar heimsóknir tilkynntar fyrir fram en aðrar ekki. Hvernig klæðnaðurinn þeirra er hápólitískur og fleira. Þetta er ótrúlega skemmtilegt þegar maður dettur inn í þetta.“

Þegar Guðný er spurð að því hvort áhugi hennar á kóngafólki hafi áhrif á líf hennar segir hún svo veraHagar þú þér eins og konungborin? 

„Held að margir vinir mínir myndu svara þessari spurningu játandi, en ég tel mig ekki gera það. En það eru samt margir eiginleikar í konungsfólki sem eru aðdáunarverðir, þau tala af áhuga og virðingu við alla sem þau hitta, koma vel fram og vinna að því að bæta heiminn með að styðja hin ýmsu góðgermál. En ég get ekki sagt að ég hagi mér eins og konungsborin, en ég hef það í mér að hafa sterkar skoðanir á hlutunum og gæti ekki verið svona hlutlaus eins og konungsfjölskyldan þarf að vera.“

Það vakti athygli þegar fyrsti pistill Guðnýjar birtist á Smartlandi er að hún var mynduð með Harry í fullri stærð. Þegar ég spyr hana út í hennar pappírs-Harry segir hún að það sé saga að segja frá tilvist hans.  

„Ég hélt upp á 25 ára afmælið mitt í fyrra og ákvað að hafa  konunglegt þema. Vinkonur mínar tóku mjög vel í þemað og mættu flestar í kjólum og með hatta. Ein vinkona mín fór alla leið og gaf mér Harry í fullri stærð í afmælisgjöf. Hún var búin að plana þetta í margar vikur og hafði upprunalega pantað svipaða fígúru af netinu sem kom víst ekki til landsins í tæka tíð. Þannig hún lét auglýsingastofu heima prenta hann út og föndraði svo pappann við sjálf! Finnst þetta svo ótrúlega mikill metnaður hjá henni og kom mér mjög á óvart. Hann sló líka í gegn í afmælinu og kom mjög vel út á öllum myndum. Finnst samt ótrúlega fyndið að það sé þarna úti auglýsingastofa sem dundaði við að útbúa einn svona Harry handa mér, en hann er gerður út frá trúlofunarmyndum af Harry og Meghan, bara búið að taka Meghan út.“ 

-Safnar þú munum frá kóngafólkinu? 

„Myndi ekki segja að ég væri safnari, en ég á fallega minjagripi. Á svona einn og einn grip frá ferðum sem ég hef farið í og frá stöðum sem ég hef heimsótt. Á til dæmis könnu með Vilhjálmi og Katrínu frá því þau giftust árið 2011, en það er líka sama ár og ég fór fyrst til London.“

-Hvert er markmið þitt með pistlunum á Smartlandi? 

„Ég hef gríðarlegan áhuga á þessu öllu saman og var það góð vinkona mín sem benti mér á að hætta að tjá mig um þetta bara við vini mína og gera eitthvað meira með allt sem ég veit. Í gegnum tíðina hafa margir vinir mínir sent mér slúðurfréttir eða annað og spurt mig hvort að það sé rétt eða ekki, finnst alveg tilvalið að deila því með öðrum. Ég byrjaði Instagram aðgang @royalicelander í vor og segi þar frá því helsta sem er að gerast og hefur verið nokkuð vinsæll, mér fannst síðan tilvalið að skrifa lengri pistla og fréttir um þetta og hafði samband við Smartland sem tók mjög vel í hugmyndirnar mínar. Ég stefni síðan að því að opna bloggsíðu á næstunni sem verður vonandi mjög skemmtileg og mun vera með fleiri upplýsingar um breskar konunglegar reglur og hefðir, sem og með upplýsingar um bara hver er hvað í þessari stóru fjölskyldu. 

Þessi heimur er ótrúlega skemmtilegur og svo margt á bak við allar fallegu myndirnar og slúðrið, held að það séu margir á Íslandi sem hafa áhuga á að kynnast þessum heim aðeins betur.“

View this post on Instagram

Staðfest! Archie Harrison Mountbatten-Windsor verður skírður næsta laugardag, 6. júlí. Skírnin mun fara fram í einka kapellu í Windsor kastala. ⁣⁣⁣ ⁣⁣⁣ Munu fjölmiðlar hafa engann aðgang að viðburðinum en höllin mun gefa út opinberar myndir frá deginum. Sem þýðir að þær muni koma fyrst hjá @sussexroyal ⁣⁣ líklega á sunnudaginn.⁣ ⁣ Áhugaverðast við tilkynningu dagsins er að það verður ekki gefið út hverjir eru guðforeldrar Archie. Stendur í tilkynningunni að það sé gert eftir óskum þeirra sem eru að taka að sér guðforeldrahlutverkið.⁣⁣⁣ ⁣⁣⁣ Er þetta eitt af því mörgu sem Harry og Meghan hafa verið að gera til að halda málum Archie frá almenningi og fjölmiðlum. ⁣⁣⁣ ⁣⁣⁣ #harryandmeghan #britishroyalty #meghanmarkle #princeharry #dukeofsussex #duchessofsussex #dukeandduchessofsussex #instaroyals #theroyalfamily #thesussexes #archieharrison

A post shared by royalicelander (@royalicelander) on Jul 3, 2019 at 12:13pm PDT

Guðný segist ekki vera neinn ógurlegur safnari þegar kemur að …
Guðný segist ekki vera neinn ógurlegur safnari þegar kemur að munum tengdum kóngafólki en hún á þó þennan bolla og styttu af Elísabetu drottningu Bretlands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda