Silja Hauksdóttir heimsfrumsýndi mynd sína, Agnesi Joy, á kvikmyndahátíðinni BUSAN í Suður Kóreu á dögunum. Myndin verður frumsýnd á Íslandi í október.
Aðalleikkonur myndarinnar eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Donna Cruz og voru þær mættar til Suður Kóreu á frumsýninguna þar. Báðar klæddust þær íslenskri hönnun á frumsýningunni.
Katla Margrét og Donna klæddust fötum frá Another Creations eftir Ýr Þrastardóttur en Silja leikstjóri var í topp og pilsi eftir Anitu Hirlekar.
Silja skrifaði handrit myndarinnar ásamt Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Agnes Joy er þroskasaga mæðgna á Skaganum. Móðirin Rannveig, sem leikin er af Kötlu Margréti upplifir kulnun í starfi og í raun í lífinu öllu. Hún er ekki bara einmana heldur er hjónaband hennar farið í hundana. Hún er föst í vinnu sem hún hatar og ofan á allt á hún í stöðugum útistöðum við dóttur sína Agnesi sem leikin er af Donnu.
Þegar nýr nágranni mætir í götuna blasir nýr veruleiki við fjölskyldunni.
Með önnur hlutverk í Agnesi Joy fara Björn Hlynur Haraldsson, Þorsteinn Bachmann og Kristinn Óli Haraldsson sem er betur þekktur sem Króli.