Í vikunni bárust þær fregnir að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona væri komin á fast með Bergsveini Birgissyni. En hver er eiginlega Bergsveinn Birgisson? Bergsveinn er rithöfundur auk þess að vera doktor í norrænum fræðum í Noregi.
Bergsveinn er 48 ára en Steinunn Ólína varð fimmtug á árinu. Bergsveinn ólst upp í Kópavogi og bjó síðar í Garðabæ. Hann hefur búið lengi í Noregi en hann stundaði háskólanám þar eftir BA-próf frá Háskóla Íslands.
Bergsveinn stundað sjóinn frá unga aldri og segir að þar hafi hann meðal annars kynnst góðu fólki og góðum sagnamönnum, fólki sem vakti hjá honum tilvistarlegar spurningar.
„Frá átján ára aldri gerði ég út trillu norður á ströndum á sumrin, þar til ég hafði lokið við magisternám mitt í norrænum fræðum árið 1998,“ segir Bergveinn á vef Bókmenntaborgarinnar.
„Mig dreymdi um að verða heimspekingur, en örlögin gerðu úr mér fílólóg. Draumurinn brýst út á öðrum vettvangi. Árin 1993–1994 ferðaðist ég víða um Afríku og Asíu. Þetta hafði mótandi áhrif á mig; og kveikti mikla forvitni um sögu og fortíð míns fólks,“ skrifar Bergsveinn.
Bergsveinn byrjaði ungur að yrkja og í ljóðabókinni Íslendingurinn frá því Bergsveinn var aðeins 21 árs má finna vott af þessum tilvistarlegu spurningum sem kviknuðu snemma hjá Bergsveiniþ Íslendingurinn fékk misjafnar viðtökur en það dró ekki úr Bergsveini.
Í upphafi Þankaþulu úr bókinni spyr Bergsveinn hver skóp heiftina í mönnunum:
„Við eigum unga systur
með alltof kíttuð brjóst.
Hver skóp heiftina í helvítis mennina?
Ég skal höggva þann djöful í tvennt!“
Árið 2003 kom svo fyrsta skáldsaga Bergsveins út en það var verkið Landslag er aldrei asnalegt.
„Landslag er hvöss, heimspekileg, gamaldags og einkar þjóðleg saga sem dýpkar við nánari kynni og er það ekki síst kjarnyrtum stílnum að þakka. Textinn er rammíslenskur, myndmál mergjað og vísanir í íslenskar bókmenntir, bæði í persónusköpuninni sjálfri og orðfæri sögunnar, eru víða,“ skrifar Steinunn Inga Óttarsdóttir meðal annars um bókina í Morgunblaðinu árið 2003.
Bergsveinn hefur verið vel kunnur í bókmenntaheiminum um langa hríð en náði fyrst hressilega til almennings með bókinni Svar við bréfi Helgu árið 2010. Bókin Svar við bréfi Helgu var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012 auk þess sem leikrit eftir bókinni var sett upp í Borgarleikhúsinu.
Bergsveinn var sæmdur konunglegri heiðursorðu í Noregi árið 2017 fyrir „framúrskarandi störf í þágu Noregs og mannkyns“. Bergsveinn hefur meðal annars ritstýrt útgáfum Íslendinga- og konungasagna á norsku.
Auk orðu Noregskonungs og almennra viðurkenninga á íslenskum ritvelli hlaut Bergsveinn öllu sérstæðari viðurkenningu árið 2015 en það ár hlaut hann Rauðu hrafnsfjöðrina. Rauða hrafnsfjöðrin er veitt fyrir forvitnilegustu kynlífslýsinguna. Var forvitnilega kynlífslýsingin í bók Bergsveins, Geirmundar sögu heljarskinns.