Hvað er í gangi með Harry og Meghan?

Guðný Ósk Laxdal skrifar um þau Meghan og Harry í …
Guðný Ósk Laxdal skrifar um þau Meghan og Harry í nýjum pistli á Smartlandi. AFP

„Ein helsta spurning sem ég fæ þessa daganna er, hvað er í gangi með Harry og Meghan? Það er engin furða að fólk spyr sig, enda virðist alltaf eitthvað nýtt vera að koma fram. Það nýjasta er heimildamynd sem ITV frumsýndi um seinustu helgi, en myndin fylgir hertogahjónunum af Sussex í konunglegri ferð þeirra um Afríku. Þau hjónin gáfu leyfi fyrir myndinni og koma fram í stuttum viðtölum þar sem þau tala opinskátt um ferðina og líðan sína undanfarið ár. Tilgangur myndarinnar er augljóslega sá að Harry og Meghan eru að sýna sína hlið á hlutunum, en fyrr í mánuðinum gáfu þau út yfirlýsingu um að þau eru að kæra ákveðna fjölmiðla fyrir slæman fréttflutning. Það er því um að gera að fara yfir það helsta sem kom fram í myndinni og hvað það þýðir,“ seg­ir Guðný Ósk Lax­dal í sín­um nýj­asta pist­li á Smartlandi. 

Harry og Meghan opna sig og segja frá slæmri líðan

Áður en myndin var frumsýnd voru gefin út atriði sem sýndu Harry og Meghan opna sig um andlega líðan og kom þetta því ekki á óvart. Í myndinni talar Harry um hvernig starfið sem hann er í minnir hann stanslaust á það hvernig móðir hans lést og hvernig það hefur áhrif á hann enn í dag. Meghan talaði um hversu erfitt það hefur verið að venjast því að vera í hinu konunglega sviðsljósi. Við höfum áður heyrt Harry opna sig um andlega erfiðleika en þetta í fyrsta sinn sem Meghan segir frá sinni líðan. Meghan talaði um það að hún hafi hingað til reynt að vera með hið breska viðhorf, að halda alltaf ró sinni, en að þetta sé bara orðið of mikið. Orð hennar eru sérstaklega eftirminnileg þegar hún segir: „Ég vissi að þetta yrði erfitt en ég hélt að þetta yrði sanngjarnt.“

En hefur þetta verið svo afskaplega slæmt fyrir Meghan?

Líf Meghan hefur gjörbreyst á undanförnu einu og hálfu ári eða svo. Hún hefur flust milli landa, gift sig og eignast barn, breytingar sem eru miklar fyrir í raun hvern sem er. Síðan bættist við nýtt hlutverk sem hertogaynja og hún fékk starfstitilinn prinsessa Bretlands. Því að vera eiginkona Harry fylgir að vera stanslaust í sviðsljósinu og ekki er hægt að líta fram hjá því að hún og Harry er hvort af sínum kynþættinum sem mikið hefur verið fjallað um, en hún er fyrsti aðili bresku konungsfjölskyldurnar sem er ekki hvítur á hörund. Ofan á þetta hafa komið fram ótalmargar sögur um hana sem ekki eru sannar. Í kringum brúðkaupið var samband hennar og föður hennar mikið í fréttum og má alveg segja að það hafi gengið of langt. Eftir það komu fréttir um ósætti milli hennar og Katrínar, hertogynjunnar af Cambridge, og fleiri sögur um að Meghan væri erfið í starfi og að starfsfólk hallarinnar væri orðið mjög þreytt á henni. Mikið af þessu er algjör uppspuni og ekki byggt á neinum sannindum.

Meghan og Harry eru mikið í sviðsljósinu.
Meghan og Harry eru mikið í sviðsljósinu. AFP


Samfélagsmiðlar hafa líka haft áhrif en í fyrra gaf Buckingham-höll út yfirlýsingu með velsæmisreglum fyrir samfélagsmiðla sína. Konungsfjölskyldan hefur mikið notað samfélagsmiðla undanfarin ár en þetta var stórt skref og eitthvað sem áður hefur ekki verið þörf fyrir. Er þetta svar hallarinnar við hinum ótal athugasemdum sem birtast þar, þar sem talað er illa um Meghan? Því miður þarf ekki að skoða þessa aðganga lengi til að átta sig á að svona reglur eru nauðsynlegar.

Því miður er ekki hægt að neita því að mikið af mótlætinu sem Meghan hefur fengið er vegna húðlitar hennar. Sögurnar sem hafa verið búnar til um hana byggja oft á því að hún sé skapstór og heimtusöm og að það sé erfitt að vinna með henni. Þegar Meghan starfaði sem leikkona komu aldrei neinar svipaðar sögur um hana og komu svona sögusagnir bara fram eftir að hún giftist Harry. Eins og Meghan sagði sjálf í myndinni finnst henni þetta ósanngjarnt þar sem hún er bara að gera sitt besta í nýju hlutverki á meðan fjölmiðlar birta endalausar lygar um hana. Við hér á Íslandi höfum ef til vill ekki heyrt allar sögusagnirnar um Meghan en margar þeirra hafa birst hérna og við því fengið keim af þeim.

Meghan og Harry í Afríku í byrjun október.
Meghan og Harry í Afríku í byrjun október. AFP

Minning Díönu vakir yfir

Mikið af heimsóknum Harry í Afríku voru farnar til minningar um móður hans, Díönu prinsessu, og minntist hann mikið á hana í ræðuhöldum og í heimildamyndinni. Í yfirlýsingunni um kærurnar, sem gefin var út á seinasta deginum þeirra í Afríku, talar hann um að hann vilji ekki endurtaka söguna. Hann vill ekki sjá það sem kom fyrir móður hans koma fyrir eiginkonu sína. Það er vel vitað að Harry og Vilhjálmur voru oft vitni að því að sjá móður þeirra gráta vegna álags og þeir vissu að henni leið mjög illa. Harry talar um að það að hafa orðið faðir hafi orðið til þess að hann vilji standa upp á móti óréttlætinu og stoppa svona einelti af hálfu fjölmiðla. Orð hans um að vilja ekki taka þátt í leiknum sem drap móður hans sitja eftir í manni.

Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja.
Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja. AFP

Vilhjálmur með áhyggjur af bróður sínum

Harry í raun staðfesti það í heimildamyndinni að þeim bræðrum kæmi ekki svo vel saman þessa dagana, en tók það líka fram að mikið væri að gera hjá þeim báðum og sambandið væri allt öðruvísi en það hefði verið. Strax og myndin kom út byrjuðu fjölmiðlar að segja frá því að Vilhjámur prins væri með áhyggjur af bróður sínum. Það er hægt að lesa þetta á tvo vegu, annars vegar að Vilhjálmur sé að taka undir það sem margir fréttaskýrendur konungsfjölskyldunnar segja, en það er að Harry og Meghan séu sífellt að fá fjölmiðla upp á móti sér, sem leiðir til enn meiri togstreitu. Hins vegar er auðvelt að lesa þetta þannig að Vilhjálmur hafi áhyggjur af bróður sínum sem opinberlega talar um að honum líði illa andlega.

Hvar endar þetta?

Kæran, eða kærurnar mætti frekar segja, munu fara fyrir rétt og verður áhugavert að sjá hvernig það mál fer. Ef Harry og Meghan vinna öll málin mun það setja ákveðinn tón fyrir alla fjölmiðla. Samt sem áður hafa margir áhyggjur af því að þessi herferð þeirra muni fá þá fjölmiðla sem hafa verið að búa til sögur um þau enn frekar upp á móti þeim. Þessi aðferð Harry og Meghan, að tala opinskátt um tilfinningar sínar, er ekki beint í anda eldri kynslóða konungsfjölskyldunnar en hún hefur að mörgu leyti tileinkað sér mottóið „aldrei kvarta, aldrei útskýra“ (e. never complain, never explain). Þó svo að þessi opinbera umræða um andlega líðan Harry og Meghan muni ef til vill fara illa í eldri kynslóðir er spurningin sú hvort þessi herferð þeirra muni ekki verða til þess að yngra fólk muni frekar sýna þeim skilning en það gæti tryggt vinsældir konungsfjölskyldunnar til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda