„Mættum endurhugsa íslenska stressið“

Unnur Ýrr Helgadóttir er með annan fótinn á Íslandi og hinn í Svíþjóð. Jól fjölskyldunnar eru með alþjóðlegu sniði en umfram allt annað skemmtileg og einlæg þar sem börnin eru í fyrirrúmi. 

Unnur Ýrr er grafískur hönnuður, teiknari og listmálari. Fyrir nokkrum árum tók hún það skref að sinna ástríðu sinni fyrir málverkinu og starfar nú með annan fótinn á Íslandi og hinn í Svíþjóð. Margir kannast við hana sem listamanninn sem setti kindina í lopapeysuna. Unnur býr í Stokkhólmi með manni sínum og tveimur dætrum. Henni finnst jólin yndislegur tími sem gefur okkur tilefni til að hengja upp ljós og lýsa upp skammdegið. Hátíðin gefur okkur tilefni til að hlakka til einhvers að hennar mati.

„Þetta er tíminn þar sem maður grefur upp gamlar kökuuppskriftir og nýtur þess að vera með þeim sem manni þykir vænt um. Jólin verða svo náttúrlega enn skemmtilegri þegar maður fær að upplifa þau í gegnum börnin sín algjörlega upp á nýtt.“

Gefa hvort öðru upplifun

„Ég og maðurinn minn höfum ekki gefið hvort öðru gjafir og þar á meðal jólagjafir síðan við giftum okkur. Okkur finnst við eiga nóg og nennum ekki stressinu eða dótinu sem safnast að manni. Ég er ekki að segja að aðrir ættu að gera þetta enda finnst mér mjög gaman að gefa öðrum gjafir og þá sérstaklega yngstu kynslóðinni, en það er alveg ótrúlegt hvað þetta léttir á. Stundum gefum við hvort öðru einhvers konar upplifun sem gjöf, en bara þegar það hentar. Um jólin gefum við okkar nánustu annaðhvort útprentaðar myndir, sem er alltaf minna og minna gert af í dag, eða leggjum inn á mismunandi góðgerðarmál vissa upphæð í nafni hvers og eins. Það veitir öllum gleði. Svo í stað þess að gefa enn eina inniskóna eða bindið er list/listaverk gjöf sem veitir mikla varanlega ánægju. Ég gef oft öðrum list sjálf. List þarf ekkert að vera dýr, ég tala nú ekki um ef nokkrir taka sig saman um að gefa. Svo getur þetta verið góð fjárfesting og það sakar ekki að styðja við listaheiminn á Íslandi.“

mbl.is

Hverjar eru jólahefðirnar og hvernig eru jólin? Eruð þið með alþjóðlegar hefðir?

„Við erum núna sem fjölskylda að púsla saman okkar eigin jólahefðum með litlu stelpurnar okkar tvær þar sem úr mörgu er að velja. Ég er íslensk, maðurinn minn er hálfur Svíi og hálfur Indverji og afi hans er frá Þýskalandi.

Íslensku jólasveinarnir eru með heimilisfangið okkar hérna úti og láta sig ekki vanta. Svo höfum við maðurinn minn það þannig að við skiptumst á um að halda jólin heima á íslandi með fjölskyldu minni og svo með hans fjölskyldu í Svíþjóð á stað sem heitir Lungsberg, sem er lítið bæjarfélag úti í miðjum skógi í Vermalandi þar sem amma hans býr.“

Unnur á góðar minningar frá jólunum í barnæsku.

„Það var borðaður góður matur, opnaðir pakkar, miðnæturmessa og svo lesið fram á nótt og næstu daga. Varla var farið úr náttfötunum nema á allra nauðsynlegustu tímum. Það er ekki hægt að hugsa sér það betra fyrir lestrarhest eins og mig. Þessa dagana eigum við tvær litlar vekjaraklukkur sem byrja daginn snemma og halda okkur við efnið, en vonandi verður hægt að taka upp þessa afslöppuðu lestrarhefð á ný þegar að því kemur.“

Þegar Unnur og fjölskylda hennar eru í Svíþjóð er meira um að vera að hennar mati.

„Jólin hjá Svíunum byrja um leið og þeir vakna á aðfangadag, ekki klukkan sex um kvöldið eins og hjá okkur Íslendingum. Mér hefur fundist erfiðast að venjast þessari hefð. Ég sakna jólaundirbúningsins sem á sér stað til sex um daginn. Manninum mínum finnst alveg rosalega fyndið hvað margir bíða með sem dæmi að kaupa síðustu jólagjafirnar þar til rétt fyrir sex á aðfangadagskvöld. Svíar eru svo skipulagðir að þetta finnst honum alveg séríslenskt fyrirbæri; næstum eins og hluti af hefðinni. Stressið fyrir sex og svo róin sem tekur við á slaginu. Um morguninn í Lungsberg er labbað í skóginum, skautað á vatninu fyrir framan húsið og ferðast um á sparksleða ef veður leyfir. Aðalmáltíðin er svo í hádeginu og áður en sest er að borðum takast allir í hendur og dansa um húsið til að færa jólin inn í hvert herbergi. Klukkan þrjú setjast allir niður fyrir framan sjónvarpið og þá er horft á Andrés Önd og aðrar Disney-teiknimyndir. Það ótrúlega er að þetta hafa verið sömu teiknimyndirnar í 60 ár! Þrátt fyrir það hrúgast allir fyrir framan sjónvarpið á slaginu. Eftir kirkjuferð og söng koma svo allir inn. Þá læðist einhver inn í herbergið þar sem pakkarnir verða opnaðir og kveikir á kertum og setur gjafirnar undir tréð. Um leið hringir einhver annar lítilli bjöllu fyrir aftan bak og bendir út um gluggann. Börnin þyrpast að glugganum og reyna að koma auga á „Christkind“ eða Jesúbarnið sem flýgur um fyrir utan og klingir bjöllu þegar hann er búinn að koma með gjafirnar og gera fallegt inni í jólaherberginu. Þetta er þýsk hefð frá afa mannsins míns.“

Unnur nefnir aðra hefð sem hefur flækt innpökkunarferlið fyrir henni verulega.

„Á hvern jólamiða er skrifað ljóð um hvað innihald pakkans er. Oft er setið langt fram á nótt uppi í rúmi að semja fyrir hvern og einn. Fyrst fannst mér þetta voðalega erfitt en nú er ég farin að hlakka meira til þess en ég bjóst við.“

Hvaða sess skipar tónlist um jólin?

„Maðurinn minn er þekktur tónlistarmaður í Svíþjóð þótt hann starfi ekki við það í dag og því er tónlist mjög mikilvæg í þessari litlu fjölskyldu okkar. Einnig eru stórfjölskyldur okkar beggja mikið tónlistarfólk og því mikið sungið og spilað um jólin. Til dæmis eru allir meðlimir í fjölskyldu mannsins míns í jólakór kirkjunnar í Lungsberg þar sem amma hans hefur spilað á kirkjuorgelið frá því hún var ellefu ára. Gaman er að segja frá því að hún verður hundrað ára núna í janúar og spilar enn á aðfangadagskvöld. Jóladagsmorgun er svo vaknað klukkan fimm og gengið í hvaða veðri sem er þrjá kílómetra með kyndla að annarri kirkju þar sem sungið er með öðrum kór. Það er sem sagt mikið um tónlist, svo vægt sé til orða tekið.“

mbl.is

Rjúpurnar ómissandi

Áttu góða sögu af eftirminnilegum jólum?

„Það verða að vera jólin sem við biðum eftir okkar fyrsta barni. Ég var sett 15. desember og þótt þetta hafi átt að vera íslensk jól var ekki hægt að fljúga svona seint á meðgöngunni fyrir mig svo við vorum því í Stokkhólmi. Jólin urðu eins konar bið eftir barninu. Besta vinkona mín á afmæli á jólunum og var ég viss um að stelpan mín myndi verða annað jólabarn með þeim kostum og göllum sem því fylgja. En svo varð ekki heldur urðum við að bíða þar til sjö mínútur fyrir miðnætti á gamlárskvöld og í stað jólabjalla voru það flugeldar sem blöstu við mér út um gluggann þegar ég fékk hana í fangið. En spenningurinn við biðina hjá okkur báðum í litlu 45 fm íbúðinni okkar í miðbæ Stokkhólms var besta jólagjöfin þetta árið.“

Hvað borðið þið á jólunum?

„Þegar við erum á Íslandi eru rjúpurnar ómissandi. Báðar litlu stelpurnar mínar, sem hafa mjög mismunandi matarsmekk, borða þær með bestu lyst, sem mér finnst einstakt. En svo er það auðvitað íslenska lambakjötið líka sem hvergi er hægt að finna annars staðar í veröldinni. Oftast er borðhaldið einhver samsetning af þesum réttum þar sem karlmennirnir í fjölskyldunni eru ekki miklir rjúpuaðdáendur. Heitar grænar baunir úr dós, rauðkál og rjómasalat. Það má ekki raska þessari eðalformúlu neitt.

Í Svíþjóð er borðaður sami matur á öllum hátíðisdögum, eða þannig er mín upplifun: Kjötbollur og síld. Ég er ekki meiri víkingur en það að ég hef aldrei getað borðað síld nema þegar ég gekk með fyrstu stelpuna mína. Þá heimsótti ég nokkur síldarhlaðborð. Þannig er mín jólamáltíð í Svíþjóð litlar kjötbollur og kartöflur. Þá sakna ég virkilega rjúpnanna.“

Megum endurhugsa íslenska jólastressið

Saknarðu Íslands um jólin?

„Já alltaf. Hvar sem ég er. Það er einstakur jólaandi á Íslandi. Kannski er það vegna þess hvað við erum fá, eða hvort það sé myrkrið og við staðráðin í að hugsa ekki um það. Hver veit?“

Hvað væri áhugavert að endurhugsa við jólin að þínu mati?

„Jólastressið. Við mættum alveg læra hitt og þetta af Svíanum og skipuleggja okkur kannski aðeins betur fram í tímann til að geta eytt meiri tíma með vinum og fjölskyldu í stað þess að vera á hlaupum dagana fyrir jólin. Svo er það þetta með gjafirnar og jólapappírinn sem fer í ruslið. Ég fjárfesti í fallegum stórum jólapokum sem ég og fjölskyldan mín nýtum ár eftir ár og sé ekki eftir því. Mér finnst áhugavert að minnka efnishyggju og rusl eftir getu.“

Áttu góða uppskrift sem þú værir til í að deila með lesendum?

„Lussebullar eru klassík hérna í Svíþjóð og nokkuð sem ég held upp á. Ég er ekki með neina sérstaka uppskrift að því en bendi fólk bara á að leita á netinu. Það virkar alltaf.“

mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda