Ásta Sóllilja veiðir sjálf í jólamatinn

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir er töluvert jólabarn.
Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir er töluvert jólabarn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi og stjórnarformaður Laka Power, býr á skemmtilegum stað neðst í Þingholtunum, í hljóðlátri götu rétt við Hljómskálann. Hún reynir að byrja daginn í líkamsrækt með dóttur sinni og fer síðan í vinnuna þar sem hún aðstoðar vísindamenn við að búa til verðmæti úr rannsóknum sínum og uppgötvunum.

„Í því felst meðal annars að aðstoða við einkaleyfisumsóknir, gera markaðsgreiningar og nytjaleyfissamninga við aðila úr atvinnulífinu og aðstoða við stofnun og fjármögnun sprotafyrirtækja. Eftir vinnu tekur við þetta hefðbundna; matreiðsla og aðstoð við heimavinnu, en svo setjumst við fjölskyldan við matborðið og förum yfir daginn. Það er minn uppáhaldstími.“ Jólin eru yndislegur tími að mati Ástu. „Ég á afmæli tveimur dögum fyrir jól svo þau hafa enn meiri þýðingu fyrir mig þess vegna. Mér finnst ótrúlega fallegt þegar jólaskreytingarnar lýsa upp skammdegið og jólalögin byrja að hljóma en mér finnst mikilvægt að það sé ekki of snemma. Ef ég fengi að ráða yrði jólatíminn takmarkaður við aðventuna og ég er ekkert spennt fyrir útþynntri jólahátíð sem byrjar í september með auglýsingum og jólaskrauti í búðum.“

Velja jólatréð vandlega úr Skorradalnum

Hefðirnar eru í föstum skorðum á heimilinu. „Ég hafði ekki endilega gert mér grein fyrir því en nú þegar þú spyrð átta ég mig á því að við erum ansi vanaföst varðandi jólahaldið. Síðustu ár höfum við Nanna Reykdal vinkona mín hist í lok nóvember og föndrað saman hurðarkransa. Hún er snillingur í höndunum og frábært að fá leiðsögn hjá henni yfir hvítvínsglasi. Við borðum alltaf rjúpu á jólunum og flestar helgar í nóvember eru fráteknar hjá Kjartani manninum mínum fyrir veiðiferðir. Ég fékk mér skotvopnaleyfi fyrir nokkrum árum og tek þátt í þessari hefð því rjúpnaveiði er frábær útivist og það er gaman að veiða í jólamatinn. Við förum svo yfirleitt upp í Skorradal þar sem fjölskyldan á sumarhús og veljum okkur fallega furu sem við höggvum sjálf.

Fjölskylda mannsins míns hefur haft það fyrir hefð í rúmlega tuttugu ár að fara út að borða á Þorláksmessu og rölta í kjölfarið saman um bæinn og kaupa síðustu jólagjafirnar. Áður fyrr var mesta áskorunin að finna veitingastað sem ekki angaði af skötulykt en nú er orðið talsvert erfitt að finna borð og greinilegt að margir fara nú út að borða á þessum degi.

Svo hefur kórinn minn það fyrir hefð að syngja jólalög fyrir gesti og gangandi á Laugaveginum á aðventunni. Það er fullkomin leið til að komast í jólaskap.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólin eru dýrmætur tími með fjölskyldunni

Hvað tákna jólin í þínum huga? „Í mínum huga tákna jólin fyrst og fremst fjölskyldusamveru og notalegheit.“ Ásta hefur reynslu af bandarískum jólum en einnig þeim ítölsku. „Þegar ég var tvítug bjó ég á Ítalíu hjá ítalskri fjölskyldu í eitt ár og mér fannst spennandi að upplifa öðruvísi jólahefðir. Á Ítalíu er aðfangadagur ekki haldinn hátíðlegur og ég man að mér fannst dálítið skrítið að borða einfalt pasta með tómatsósu á aðfangadagskvöld á meðan fjölskyldan á Íslandi borðaði jólarjúpuna. Það var gaman að prófa að opna jólagjafirnar á náttfötunum á jóladags morgun og algjör matarupplifun að borða svo sex rétta hádegisverð.

Við fjölskyldan bjuggum í sjö ár í Bandaríkjunum og vorum yfirleitt úti um jólin en fengum fjölskyldumeðlimi í heimsókn til okkar. Það voru mjög róleg og notaleg jól, mikið lesið, spilað og slakað. Við bjuggum okkur til okkar eigin amerísku jólahefðir, fórum t.d. oft að sjá Hnotubrjótinn hjá New York City ballet sem er algeng amerísk jólahefð og börnin fengu gjafir í sokkinn á jóladag frá ameríska jólasveininum í viðbót við skógjafirnar 13 frá íslensku jólasveinunum sem amerísku vinirnir dauðöfunduðu þau af.“ Ásta býður alltaf upp á möndlugraut á aðfangadag í hádeginu. „Möndlugrautur og flatkökur með hangikjöti er fastur liður í hádeginu á aðfangadag og á aðfangadagskvöld elda ég rjúpu eftir uppskriftinni hennar tengdamömmu. Á jóladagsmorgun erum við alltaf með heitt súkkulaði og nýbakaðar bollur. Við erum svo með stórfjölskylduna í mat á gamlárskvöld og þá erum við vön að bjóða upp á nautasteik með béarnaisesósu.“

Mælir með súkkulaði-babka

Áttu góða uppskrift að deila með lesendum? „Í New York smakkaði ég fyrst súkkulaði-babka sem er sætabrauð sem gyðingarnir baka og margir borða á Hanukkah-hátíðinni sem haldin er um jólaleytið. Ég hef haft það fyrir sið að gera svona brauð og gefa vinum og ættingjum fyrir jólin. Ég gef brauðið frosið, óbakað, því það er langbest heitt úr ofninum, löðrandi í smjöri, súkkulaði og kanil.

Hvað leggur þú áherslu á tengt gjöfum á jólunum? „Ég legg áherslu á að gefa persónulegar gjafir og hef ánægju af því að að finna einmitt réttu gjöfina handa viðkomandi. Mér finnst gaman að gefa einhvers konar samveru eða upplifun frekar en hluti og hef gert sífellt meira af því á síðustu árum.“ Skiptir aðventan miklu máli? „Já, ég reyni sem mest að njóta aðventunnar og takmarka jólastress. Ég safna hugmyndum að jólagjöfum allt árið og reyni að vera búin að kaupa þær í byrjun desember svo hægt sé að njóta allra þeirra jólaviðburða sem aðventan býður upp á.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Horfir á jólamyndir í jólamánuðinum

Hvað gerir þú í jólamánuðinum? „Í jólamánuðinum baka ég sörur, skreyti húsið, horfi á skemmtilegar jólamyndir með fjölskyldunni, fer í jólaglögg, á jólahlaðborð og í útgáfuhóf. Ég hef ekki lagt það í vana minn að fara á jólatónleika en kannski breyti ég til á þessu ári.“ Áttu uppskrift að góðum stundum á milli jóla og nýárs? „Á milli jóla og nýárs finnst mér gaman að hitta vini og fjölskyldu, stunda útivist, spila og lesa allar jólabækurnar að sjálfsögðu.“ Hvernig er vinnan um jólin? „Ég byrjaði í nýrri vinnu fyrir nokkrum mánuðum svo ég hef ekki hugmynd um hvernig vinnan verður um jólin. Vonandi verður bara rólegt á skrifstofunni.“ Í framtíðinni dreymir Ástu um að eiga róleg jól á fjarlægri strönd eitthvert árið.

Súkkulaði-babka

Uppskriftin er u.þ.b. þrír hleifar af brauði.

1½ bolli volg mjólk

14 g þurrger

1¾ bollar sykur

3 egg og 2 eggjarauður

við stofuhita

6 bollar hveiti

1 tsk. salt

400 g smjör

900 g suðusúkkulaði, smátt skorið

1 msk. og ein tsk kanill

1 msk. rjómi

Geri og örlitlum sykri dreift yfir mjólkina í lítilli skál. Hrært þar til sykur er uppleystur. Látið standa í fimm mínútur.

¾ bollar sykur, tvö egg, eggjarauður og gerblanda þeytt saman í hrærivélarskál.

Hveiti og salt hrært saman. Eggjablöndu hrært saman við á litlum hraða í u.þ.b. 30 sek. Skipt yfir í deigkrók og 225 g smjöri bætt út í. Hnoðað þar til smjör er vel blandað saman við og slétt og mjúkt deig myndast eftir um það bil 10 mín.

Hnoðið deigið á hveitistráðu borði. Setjið það í vel smurða skál og lokið skálinni með plastfilmu. Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í um það bil klukkustund.

Blandið súkkulaði, einum bolla af sykri og kanil saman í skál. Blandið afgangi af smjöri saman við.

Smyrjið brauðform og þekið með bökunarpappír. Blandið eggi saman við rjóma og setjið til hliðar.

Skerið deigið í þrjá hluta. Fletjið hvern hluta út í ferning sem er u.þ.b. 40x40 cm. Smyrjið kantinn með eggjablöndu. Dreifið 1/3 af súkkulaðifyllingu á hvern ferning en skiljið eftir ca 1 cm kant. Rúllið deiginu í þétta rúllu. Búið til áttu úr rúllunni og tengið endana saman. Snúið nokkrum sinnum upp á áttuna og setjið snúninginn í brauðformið.

Strausel-kurl

1 2/3 bollar flórsykur

1 1/3 bolli hveiti

170 g smjör

Blandið saman sykri og hveiti og skerið smjör út í og blandið saman þar til deigið verður gróft kurl.

Smyrjið hvern hleif með eggjablöndu og dreifið strausel-kurli yfir. Látið hefast á hlýjum stað í 40 mínútur. Bakið við 180 gráður í 55 mínútur. Lækkið þá hitann í 165 gráður og bakið áfram í 20-30 mínútur þar til hleifarnir eru gullinbrúnir.

Hægt að frysta óbakað í einn mánuð. Hleifar eru þá látnir þiðna í fimm klukkustundir áður en þeir eru bakaðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda