Ellý Ármanns byrjar með fullorðinsútvarpsþátt

Ellý Ármannsdóttir hefur komið víða við á sínum ferli. Nú er hún að byrja með útvarpsþátt á K100 sem verður á dagskrá á mánudagskvöldum. Undanfarið ár hefur Ellý spáð fyrir hlustendum í þættinum Ísland vaknar með Jóni Axel, Kristínu Sif og Ásgeiri Páli. Ellý segir að það hafi notið svo mikilla vinsælda að nú eigi að gera meira úr því og spá fyrir hlustendum í heilum útvarpsþætti. Útvarpsþátturinn verður fyrir fullorðna fólkið klukkan tíu á kvöldin þegar börnin eru sofnuð. 

„Ég finn fyrir mjög miklum áhuga á spádómum hjá fólki en ég hef spáð í spil lengi vel, alveg síðan ég var unglingur. Bússi sölustjóri hjá K100 bauð mér að vera með minn eigin spá-þátt á K100 með lengri símatíma fyrir Íslendinga sem vilja skyggnast inn í framtíðina með mér og auðvitað sagði ég já! 

Þátturinn verður á dagskrá á mánudagskvöldum klukkan 22.00 og verður í beinni útsendingu. Þá getur fólk alls staðar af landinu hringt í mig og ég spái fyrir því. Ég held að þessi tímasetning sé alveg hreint ágæt. Þá eru yngstu fjölskyldumeðlimirnir jafnvel farnir í háttinn og við fullorðna fólkið getum notið þess að hlusta á útvarpið, kveikja á kertum og spjallað um andleg málefni á meðan ég stokka spilin,“ segir Ellý. 

Ellý segist vera full tilhlökkunar.

„Það er svo skrýtið hvernig lífið hefur tekið skyndilega völdin. En ég er einhvern veginn að breytast í spákonu og það á besta aldri. Útvarpsstarfið kemur sér mjög vel fyrir mig samhliða því að ég mála myndir og húðflúra,“ segir hún. 

Muntu spá fyrir hlustendum eða hvernig verður þetta?

„Já ég spái fyrir hlustendum sem hringja inn og svo langar mig að bjóða gestum í heimsókn í þáttinn og skoða framtíð þeirra sem þiggja vilja samhliða því hlusta með mér á notalega tónlist. Mig grunar að mánudagskvöldin verði notaleg og nærandi bæði fyrir mig og hlustendur sem vilja vera samferða mér inn í nýja viku.“

Finnur þú fyrir auknum áhuga á spádómum?

„Já, ég finn fyrir mjög miklum jákvæðum áhuga á spádómum og öllum skilaboðum sem birtast innra með okkur og í okkar nánasta umhverfi. Íslendingar eru opnir á sál og líkama og mér þykir almennt vænt um fólk. Ég hef áhuga á fólki og vil gefa af mér og í gegnum spákonuna get ég gert það.

Spákonan í mér starfar algjörlega og eingöngu með hjartanu í þakklæti og kærleika. Hér áður fyrr var þetta andans tal svo mikið feimnismál en í dag er jákvætt að vera opin fyrir skilaboðum umheimsins og tengingu okkar við ljósið,“ segir hún. 

Nú er oft sagt að fólk leiti meira til spámanna og -kvenna þegar skóinn kreppi að fjárhagslega og tilfinningalega. Finnst þér fólk vera opnara fyrir skilaboðum að handan þegar kreppir að?

„Mér finnst fólk vera almennt opið fyrir skilaboðum bæði í gleði og sorg.“

Síðustu ár hafa verið snúin í lífi Ellýjar. Þegar hún er spurð að því hvernig hún hafi unnið sig út úr sínum erfiðleikum segir hún að það hafi hjálpað henni mikið að standa með sjálfri sér. 

„Ég hrasaði en stóð aftur upp og þá loksins ákvað ég að standa með mér. Ég er mín besta vinkona loksins. Ég horfi á hverjum einasta morgni í spegilinn í upphagi dags þegar ég tannbursta mig og minni mig á það með því að segja við sjálfa mig: „Góðan daginn elsku Ellý. Takk fyrir að standa með mér. Ég elska þig nákvæmlega eins og þú ert. Allt er eins og það á að vera. Dagurinn í dag er góður og ég er örugg,“ segir hún. 

Ertu með eitthvað gott ráð fyrir lesendur sem eru á krossgötum?

„Já, treysta að í hönd þeirra er ávallt tekið. Mikilvægt er að hleypa óttanum ekki að. Treysta fyrst og fremst. Æðri máttur er og verður hér. Lykilorðið er traust, kærleikur og þakklæti,“ segir Ellý. 

Þú tókst líka heilsuna föstum tökum. Segðu mér betur frá því og hvað drífur þig áfram í dagsins önn?

„Drifkraftur minn birtist mér í hverjum einasta andardrætti sem ég dreg. Ég gríp hvert einasta augnablik 24 klukkustundir í sólahringnum og vel hvernig ég eyði tíma mínum gaumgæfilega bæði þegar kemur að því hvað ég segi, hugsa, framkvæmi og svo vel ég fólkið sem ég umgengst. Þegar kemur að líkamanum þá er ég heppnasta amma í öllum heiminum en ég er með fasta hóptíma hjá Reebok Fitness sem eru þéttsetnir af konum og körlum sem kjósa að sinna sér. Hreyfingin er olían mín sem kveikir eldinn í brjósti mínu og ástríðunni hjá mér að skapa og gefa af mér þegar kemur að því að mála og spá en hreyfingin er jú jafn mikilvæg og maturinn, svefninn og kærleikurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda