„Breska blaðið Tatler var með umfjöllun um Katrínu um daginn. Umfjöllunin hefur verið mjög umdeild og er það aðallega vegna þess hve harkalega Kensington-höll gagnrýnir umfjöllunina. Með Kensington-höll er átt við starfslið hertogahjónanna af Cambridge,“ skrifar Guðný Ósk Laxdal í sínum nýjasta pistli á Smartlandi.
„Í stuttu máli þá kemur fram í umfjölluninni að Katrín sé þreytt á hversu mikið álag sé núna á henni og hennar fjölskyldu eftir að Harry og Meghan drógu sig í hlé. Einnig sé hún sár yfir því að núna sé meiri pressa að börnin hennar séu í sviðsljósinu þegar færri eru til að deila því. Umfjöllunin er byggð á vitnisburðum frá ónafngreindum „vinum“ Katrínar sem segja frá þessari upplifun hennar.
Síðan blað Tatler kom út hefur Kensington-höll gefið það út að þau hafi ekki verið upplýst um greinina og harma rangyrði hennar. En yfirlýsing hallarinnar má sjá orðrétt hér fyrir neðan á ensku.
Tatler hefur hins vegar svarað þessari yfirlýsingu frá höllinni þar sem það segir að höllin hafa verið látin vita af umfjölluninni en hafi ekkert viljað aðhafast.
Höllin er ekki vön að skipta sér af svona umfjöllunum og má túlka þetta komment þannig að staðreyndir umfjöllunarinnar hafi farið sérstaklega fyrir brjóstið á þeim.
Ég var sjálf með áhyggjur af því að ákvörðun Harry og Meghan um að draga sig í hlé myndi þýða að meiri pressa yrði á Cambridge-fjölskyldunni. Raunin er sú að Vilhjálmur og Katrín hafa haldið áfram að auka við sig skyldur líkt og þau hafa verið að gera undanfarin ár og hafa aðrir aðilar konungsfjölskyldunnar frekar byrjað að sjást meira. Eru þetta aðallega Edward og Sophie, greifinn og greifynjan af Wessex, og Anna krónprinsessa. Þau hafa m.a. byrjað að sjást meira á samfélagsmiðlum konungsfjölskyldunnar eftir að Harry og Meghan „hættu störfum“.
Er auðveldlega hægt að lesa úr viðbrögðum Kensington-hallar að Katrín sé sár og móðguð vegna umfjöllunar Tatler. Hefur verið sagt að Katrín sé víst mjög ósátt við að vera ásökuð um að vera að kvarta yfir að vera þreytt í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Henni finnist það vera móðgun við fólk sem er að sinna nauðsynlegum störfum í Covid-ástandinu. En Katrín er að sjálfsögðu í mikilli forréttindastöðu þó svo að hún þurfi núna að sinna konunglegum skyldum og vera með börnin heima. Vissulega má þó benda á að þetta kemur einnig frá ónafngreindum „vini“ Katrínar.
Katrín hefur verið virk í því undanfarnar vikur að vekja athygli á störfum fólks innan heilbrigðisgeirans, og þá sérstaklega á mikilvægi andlegrar heilsu þeirra sem vinna erfið störf á þessum kórónutímum. Fyrir stuttu tók hún t.d. þátt í að óska hjúkrunarfræðingum til hamingju með alþjóðlegan dag hjúkrunarfræðinga, en þá kom hún fram í myndbandi ásamt öðrum í konungsfjölskyldunni til að þakka hjúkrunarfræðingum fyrir störf sín.“