Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti segir í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar að hann hafi reglulega fengið ofsakvíðaköst og þurft að leita sér hjálpar á spítala. Þeir Gauti og Sölvi ræða kvíðaköstin og andlegu heilsuna í þættinum. Gauti segir það hafi gert mikið fyrir hann að hætta að drekka áfengi.
„Ég fékk mjög reglulega ofsakvíða, þar sem mér leið eins og það væri svört filma fyrir augunum á mér og ég ofandaði og var búinn að sjúkdómsgreina mig endalaust,” segir Gauti og bætir við að sennilega hafi hann bara verið búinn að keyra sig of hratt út.
Emmsjé Gauti gaf út plötuna Bleikt ský í dag og er hún aðgengileg á streymisveitu Spotify.
„Ég fer einu sinni í ofsakvíða uppá spítala, á bráðamóttöku geðdeildar og sagði við þann sem tók á móti mér: „það er allt í fokki, ég bara titra” og hann spurði mig strax hvort ég hefði prófað að hætta að drekka,” segir Gauti. Það að hætta að drekka hjálpaði honum mikið, en hann bætir samt við að það sé samt ekki lausnin á öllum vandamálum og fólk sé jafn misjafnt og það sé margt. Gauti prófaði að taka kvíðalyf, en segir að það hafi ekki virkað fyrir sig, þar sem hann fékk mikil ónæmisviðbrögð.
„Ég hef líka prófað að taka kvíðalyf og þunglyndislyf og fór í greiningu fyrir ADHD og fékk uppáskrifað Concerta, en þorði aldrei að taka það,” segir Gauti.
Í viðtalinu ræða Sölvi og Gauti meðal annars um tónlistina, kvíðatímabilið sem Gauti gekk í gegnum, trúarbrögð, guð og skoðanakúgun.
Þáttinn er hægt að horfa á hér fyrir neðan. Einnig er hægt að hlusta á hann á streymisveitu Spotify.