Landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason segir í viðtali við Sölva Tryggvason að Covid-tímabilið hafi verið eitt það undarlegasta og lærdómsríkasta í lífi hans. Rúrik er gestur í nýjasta hlaðvarpi Sölva, þar sem þeir ræða um heimsfrægðina eftir HM, álit annarra, tímamót Rúriks og móðurmissinn.
Eftir að móðir hans veiktist mjög illilega af krabbameini og hrakaði hratt fór Rúrik heim til Íslands til að vera við hlið hennar í dauðastríðinu. Félag hans í Þýskalandi var ekki sátt við þessa ákvörðun Rúriks, sem var í raun gerður brottrækur eftir að hann sneri til baka til Þýskalands. Inn í þetta spilaði einnig sú ákvörðun Rúriks að vilja frekar gefa launalækkun sína í góðgerðarmál en til moldríkra eigenda félagsins.
„Þeir fóru í fjölmiðla og sögðu að ég væri ekki „fit“, af því að ég hafi ekkert æft á Íslandi, en þegar ég var á Íslandi í þessar þrjár vikur æfði ég upp á hvern einasta dag. Ég var á daginn og kvöldin bara uppi á líknardeild og svo á milli þess sem ég var á líknardeildinni, þá skaust ég á æfingar,“ segir Rúrik í viðtalinu.
„Svo lætur mamma lífið 16. apríl og ég fór í kistulagningu, en ákvað semsagt til að þóknast klúbbnum, af því að það var komin gríðarleg pressa frá þeim að koma að æfa…að þá ákvað ég að sleppa jarðarförinni til að sýna mitt „commitment“ gagnvart klúbbnum, en fékk ekki meiri verðlaun en það að ég var bara sendur heim,“ segir Rúrik, sem fékk ekki að mæta á eina einustu æfingu eftir þetta.
Í viðtalinu við Sölva ræðir Rúrik meðal annars um móðurmissinn, tímabilið sem nú fer í hönd, álit annarra og margt margt fleira
Viðtal Sölva við Rúrik má sjá hér fyrir neðan.