Auður Jónsdóttir rithöfundur kemur Nadíu Sif Líndal og Láru Clausen til varnar í nýjum pistli á Kjarnanum en stúlkurnar heimsóttu ensku landsliðsmennina Phil Foden og Mason Greenwood á Hótel Sögu um helgina.
„Þegar ég var á aldrinum fimmtán til tuttugu og fimm ára gerði ég meðal annars eftirtalið:
Ég var tekin föst, ásamt Jóni Aðalsteini æskuvini mínum, fyrir að ræna pottablómi á Hótel Selfossi á sama tíma og stjúpmóðir mín var í framboði þar á svæðinu.
Ég fór í eftirpartí með handboltaliði, sem mig minnir að hafi verið þýskt, og hellti vatnsglasi yfir sofandi handboltamann með maska á andlitinu til að geta spurt hann inn í hvaða herbergi vinkona mín hefði horfið.
Ég höslaði ókunnugan karlmann á næturklúbbi í London, á tímum eyðnigrýlunnar, og montaði mig af því daginn eftir við vini mína að hann hefði verið í, að mig minnir, æfingaliði eða ungliðadeild Manchester United. Aggi, vinur minn, þá búsettur í London, húðskammaði mig fyrir að hafa látið manninn síðan fá símanúmerið mitt og fullyrti að maðurinn hefði getað myrt mig. Sjálfur var vinur minn, þá átján ára, á flótta undan fyrrum leiklistarkennara sínum, bandarískri konu á fimmtugsaldri sem hafði elt hann frá Bandaríkjunum til London af því hún hélt hún væri ástfangin af honum. Mig minnir að þessi kona hafi hangið með okkur þegar hann skammaði mig og líka Binna vinkona mín sem hafði unnið í frystihúsi öll sumur og brá því á það ráð þegar áðurnefndur maður poppaði upp til að hitta mig að halda auglýsingaræðu um Iceland Seafood þangað til manninum hætti að lítast á blikuna og lét sig hverfa. Ef samfélagsmiðlar hefðu verið til, þá hefði ég pottþétt póstað mynd af honum og taggað þetta æfinga- eða ungmennalið,“ segir Auður í pistli um málið. Hægt er að lesa hann í heild sinni HÉR.