Í þáttunum Hver ertu? eru Lilju Pálmadóttur sýndar erfðafræðiniðurstöður og upprunakort sem einkennist af íslenskum rótum hennar. Hver er Lilja Pálmadóttir? Heimsborgari sem gerðist hestabóndi? Fagurkeri í stígvélum? Margir vita hver hún er, en fáir þekkja hana í raun og veru.
„Ég vissi það alveg, það er ekkert að frétta. Það er ekkert krydd í þessu dæmi,“ segir Lilja þegar hún fer yfir niðurstöðurnar en þar kemur í ljós að hún er 65% skandinavísk, 23% bresk og írsk og svo er smá frávik þar sem við sjáum hvar 0,1% og 0,2% leiða hana til Austur-Asíu.
„Ég hélt að það stæði bara hreinræktaður Skagfirðingur,“ segir Þóra Karítas, umsjónarmaður þáttanna, og hlær.
Þáttaröðin Hver ertu? fer í loftið á fimmtudaginn í Sjónvarpi Símans Premium og verður fyrsti þáttur sýndur í opinni dagskrá sama kvöld.