Væri bara grátandi ef ég héldi tónleika núna

Söngkonan Bríet er gestur Sölva Tryggvasonar.
Söngkonan Bríet er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Bríet Ísis Elfar, sem er vinsælasti tónlistarmaður Íslands í dag, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Síðan platan hennar kom út hafa lög hennar átt topplistana á Íslandi vikum saman. Bríet kom mjög ung fram á sjónarsviðið og vakti strax verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína. Í þættinum segir hún ferlið í kringum nýju plötuna hafa verið erfitt og átakanlegt.

„Ég er bara að fatta núna hvað þetta er búið að vera átakanlegt ferli. Af því að þetta er svo stórt og mikið og mér þykir svo vænt um þessa plötu. Núna er maður búinn að gefa út listaverk og athyglin er öðruvísi núna, af því að fólk vill stærri bita. Ég er auðvitað mjög þakklát fyrir það, en er að venjast því. 

Þegar fólk er búið að heyra svona mikið persónulegt vill það meira. Mér finnst þetta einhvern veginn búið að vera svolítið erfitt núna, af því að athyglin er öðruvísi. Ég var að semja þessa plötu af því að mér leið svona og ég þurfti að koma þessu frá mér. Mér fannst ég ekki hafa neitt að segja á heila plötu, en svo kom þetta stóra fyrirbæri sem kallast ástarsorg og þá bara dritaðist frá mér þessi plata. En þó að maður hafi átt stórt lag og unnið með frábæru fólki veit maður aldrei hvernig tónlistinni verður tekið.“

Bríet er meðvituð um mikilvægi þess að halda sér á jörðinni þegar vel gengur:

„Maður er endalaust að berjast við egóið sitt og það er erfitt að halda sér á jörðinni þegar allir eru að segja þér hvað þú ert frábær og að gera góða hluti og þess vegna þarf maður að passa mikið upp á sjálfan sig. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það verður ekki alltaf þannig að lögin mín séu vinsælust og þess vegna verð ég að halda mér á jörðinni.“

Hún segist á ákveðinn hátt þakklát fyrir að geta ekki haldið tónleika á þessari stundu, þar sem hún segist hreinlega ekki tilbúin í að spila lögin af nýju plötunni fyrir framan hóp af fólki.

„Ég held ég gæti ekki sungið fyrir framan fólk núna. Ég væri bara grátandi. Þannig að ég held að tímasetningin hafi verið fullkomin. Ég hlakka mikið til að gera það og það mun gerast, en það er gott að það fái aðeins að bíða. Mér er búið að finnast yndislegt að fá að jafna mig aðeins, vera með kaffi uppi í rúmi og spjalla við mömmu. Maður fattar ekki hvað þetta er búið að vera mikið átak að gera plötuna og koma henni út. Maður er að klifra og klifra upp og svo hoppar maður niður og þá kemur eðlilega „crash“ og maður þarf að leyfa því að líða hjá.“

Bríet segist ekki endilega hafa ætlað sér að verða tónlistarkona, heldur hafi eitt leitt af öðru og valdið því að nú sé hún á þeim stað sem hún er núna.

„Ég er þrettán ára þegar ég byrja að læra á gítar og var fengin til að spila „off-venue“ á Airwawes ári síðar. Eftir þá tónleika var fólk sem vildi vinna með mér og það fór af stað ferli sem er í raun enn í gangi. Mér leið aldrei eins og ég yrði að vera tónlistarkona, heldur fannst bara gaman að taka í gítarinn með pabba. En ég hef alltaf verið svo mikil já-manneskja að ég segi bara já ef ég er beðin að flytja tónlist og það hefur bæði gert mér gott og slæmt. Ég hef stundum hleypt fólki of nálægt mér, en að sama skapi hef ég fengið ótrúleg tækifæri.“

Í þættinum ræða Sölvi og Bríet um tónlistina, ástarsorg, hvað fylgir því að vera landsþekkt, reynslu af svitahofum og margt margt fleira.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál