Herra Hnetusmjör opnar sig um fíkniefnaneysluna

Herra Hnetusmjör er viðmælandi Sölva Tryggvasonar.
Herra Hnetusmjör er viðmælandi Sölva Tryggvasonar. Ljósmynd/Aðsend

Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Honum skaut hratt upp á stjörnuhimininn sem unglingi og rapptónlist hans sló strax í gegn og síðan þá hefur hann verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Í viðtalinu við Sölva segir hann frá nýrri bók sinni, sem var að koma út, þar sem hann fjallar meðal annars opinskátt um fíkniefnaneyslu.

„Ég er búinn að vinna úr þessu dóti. Það væri öðruvísi ef ég væri bara nýorðinn edrú. En ég er búinn að byggja mér sterkan grunn, þó að auðvitað viti maður aldrei hvað gerist á morgun. En ég man ekkert allt og í heimildarvinnu fyrir bókina fór ég og náði í gamla símann minn sem var mölbrotinn til að finna myndir og skilaboð frá mínu erfiðasta ári, sem var árið 2016. Það var erfitt að fara í gegnum það og sjá fullt af skilaboðum frá mömmu sem var áhyggjufull að spyrja: „Hvar ertu?“, en sem betur fer eigum við frábært samband í dag.“

Hann segir að neyslan hafi ágerst frekar hratt.

„Ég byrjaði í grasi í tíunda bekk og svo var þetta snögg leið niður, þó að mér hafi fundist ég eldgamall þegar ég byrjaði að drekka. En ég var bara sextán ára. Svo stuttu seinna þróast þetta mjög hratt niður á við eins og gerist yfirleitt með fíknisjúkdóma," segir Árni og segir svo frá fyrsta skiptinu sem hann tók oxycontin.

„Þetta var algjör viðbjóður, en af því að maður var á svo dimmum stað reyndi maður einhvern veginn að slá þessu upp í grín bara. Þetta er ógeðslega sterkt opíumskylt lyf og vandamálið er að fræðslan í kringum þetta er ekki til staðar og þess vegna virkar þetta bara eins og tafla. Í bíómyndum sér maður harða fíkla vera að taka kók með röri eða sprauta sig, en í hræðilegum sögum sér maður aldrei neinn taka bara eina töflu. Þannig að þetta virkar einhvern veginn saklausara. En það er hröð þróun í þessu og bara á tímanum sem ég hef verið edrú, í rúmlega þrjú ár, eru komin ný efni sem ég er ekki inni í, eins og „spice“, sem er búið til á tilraunastofu og fleira. Þetta hefur verið mikið í rappinu, eins og til dæmis að taka hóstasaft með kódíni í, sem er kallað „dirty sprite“, og svo eru menn bara að fá regluleg flogaköst, enda er þetta algjör viðbjóður.“

Í viðtalinu segir hann frá nokkrum augnablikum þar sem honum leið eins og ferillinn væri kominn á nýjan stað:

„Á Secret Solstice 2016 var ég á næststærsta sviðinu og þá sá ég fólk eins langt og ég sá. Ég man að það var augnablik þar sem ég hugsaði að þetta væri orðið stórt. Svo var það þegar lagið „Já maður“ fór í spilun á FM, það var fyrsta lagið sem fór í almenna spilun í útvarpi. En svo eru svona augnablik sem virka kannski skrýtnari og rosalega nördaleg, eins og þegar ég var boðinn í settið í Game TV. Ég man að þegar ég sat á milli Óla og Sverris hugsaði ég: „Nú er ég búinn að meika það.“ Svo var það þegar ég var í FM 95Blö að svara hraðaspurningum. Ég veit ekki hvað ég hef séð marga í þessum þætti og af því að ég var ekki í íþróttum voru mínar fyrirmyndir Auddi og Sveppi en ekki Eiður Smári. Ég þurfti að klípa mig þegar ég var í viðtali hjá Audda.“

Viðtalið er hægt að hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál