Sara Piana er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Sara, sem hefur í gegnum árin verið umtöluð á Íslandi, hefur hingað til ekki farið í viðtöl í íslenskum fjölmiðlum ef frá er talið viðtal sem Júlía Margrét Alexandersdóttir tók fyrir Sunnudagsmoggann 2015.
Nú fannst henni tími til kominn að segja sögu sína, einkum og sér í lagi þar sem hún er nú alfarið flutt til landsins og ætlar að hefja hér næsta kafla í sínu lífi. Hún segir í þættinum sögu af ástarsambandi sem hún var í sem endaði með því að hún þurfti að flýja land.
„Ég var 18 ára gömul og frétti af manni sem var að opna sólbaðsstofu og ég og vinkona mín sóttum um vinnu þar. Svo fórum við í partý með honum og hann virkaði mjög spennandi og fljótlega eftir það fórum við að stinga saman nefjum og byrjuðum saman. Hann varð edrú fljótlega eftir að við byrjuðum saman, en það fór allt niður á við eftir að hann féll. Hann sýndi sínar bestu hliðar fyrst um sinn, en svo þróast þetta smám saman á verri og verri og verður að algjöru ofbeldissambandi sem ég var á endanum föst í og var skíthrædd alla daga. Ég skil alveg fólk sem hugsar með sér af hverju maður komi sér ekki bara út úr svona sambandi, en þetta gerist svo hægt og lúmskt að á endanum er það hægara sagt en gert. Hann hótaði báðum foreldrum mínum, mömmu minni oft með hafnarboltakylfu og pabba mínum með exi og hótaði að meiða og drepa hundana mína, þannig að ég var bara orðin allt of hrædd til að fara. Hann sýndi ágætar hliðar inn á milli, en gat aldrei haldist edrú, þannig að þetta varð bara verra og verra og var á endanum orðinn vítahringur sem ég komst ekki út úr. Ég sleit á samskipti við fjölskyldu og vini og á endanum bannaði hann mér að vera með síma. Það var alltaf eitthvað sem ég var að gera rangt að hans mati.“
Sara lýsir því hvernig hættan, ofbeldið og neyslan hafi stigmagnast allan þann tíma sem sambandið stóð yfir.
„Þetta er án vafa versti tími lífs míns og ég var bara orðin skugginn af sjálfri mér. Þegar maður er í ofbeldissambandi af þessu tagi verður maður bara hræddur við allt. Það er erfitt að skilja það fyrir þá sem hafa ekki prófað hvernig er að vera í þeirri stöðu að vera bara barinn í spað ef maður gerir eitthvað sem aðilanum mislíkar. Það gerðist ítrekað að ég var dregin á hárinu, hent í gólfið og sparkað í mig aftur og aftur og í raun bara of margt til að telja það upp. Hann hótaði því ítrekað að drepa mömmu mína, en alltaf þegar hún reyndi að kæra frétti hann af því af því að hann var með einhvern innanbúðarmann inni í lögreglunni. Og þá varð allt bara tíu sinnum verra. Hann braut oft rúður í íbúð mömmu minnar og rústaði bílnum hennar og fleira í þeim dúr. Þannig að óttinn var bara orðinn algjör.“
Sara segir að það hafi tekið sig mjög langan tíma að finna rétta tímapunktinn til að flýja.
„Þetta náði loksins því stigi að ég hugsaði að ég myndi deyja ef ég kæmist ekki í burtu og ég yrði að flýja. Mamma var búin að bíða í bílnum í nágrenni við íbúðina í nærri 3 daga samfellt þegar rétta tækifærið kom þegar hann var sofandi. Þegar ég loksins komst út var ég keyrð beint upp á spítala, enda var ég gjörsamlega í tætlum. Búið að rífa af mér mikið af hárinu og öll blá og marin. Ég var ekki skráð inn á spítalann af ótta við að hann gæti fundið mig og síðan um morguninn fór ég beinustu leið upp á flugvöll. Lögreglan fylgdi mér alla leið frá spítalanum og alveg inn í flugvélina, af því að hann var með tengsl út um allt.“
Sara segir að í mjög langan tíma eftir þetta hafi hún ekki einu sinni íhugað að koma til Íslands af því að hún var sannfærð um að hún yrði drepin ef hún kæmi heim. Þessi flótti varð svo upphafið að því að Sara hefur síðasta áratuginn búið erlendis. Það var svo í Bandaríkjunum sem hún kynntist vaxtarræktarkappanum Rich Piana, sem var þekktur og af þeim birtust reglulega fréttir.
Sara segist gífurlega glöð yfir því að vera komin aftur til Íslands eftir öll þessi ár.
„Það tók mig mánuð að komast heim. Öllum flugum alltaf frestað og ástandið í Bandaríkjunum er bara ekki skemmtilegt. Þannig að ég var mjög feginn þegar ég komst loksins í burtu þaðan,“ segir Sara, sem lærir nú Hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.
„Það er bara æðislegt að vera komin aftur heim og ég er mjög bjartsýn fyrir framtíðinni og hlakka til þess að byrja þennan nýja kafla.”
Í þættinum ræða Sölvi og Sara um tímabilið þegar hún fór langt inn í Fitness-heiminn eftir að hún flutti til Bandaríkjanna og síðan frá skrautlegu líferni sínu með Rich Piana, sem oft var öðruvísi en það virkaði út á við. Sara lærir nú hjúkrunarfræði og hlakkar til næsta kafla í sínu lífi, eftir að hafa fengið margfaldan æviskammt af dramatík, eins og hún segir sjálf.