Fitnessdrottningin Hafdís Björg Kristjánsdóttir fann ástina í gegnum TikTok en hinn heppni heitir Sampson Eros Hampson og er atvinnumaður í rugby. Hann er kominn til Íslands þar sem þau ætla að verja jólunum saman. Hún segir að hann sé einstök mannvera.
„Ég elskaði myndböndin hans og allt sem hann var að tala um tengdi ég við. Svo byrjaði hann að fylgja mér á Instagram og eftir það byrjuðum við að spjalla saman,“ segir Hafdís Björg í samtali við Smartland og bætir við:
„Hann er 31 árs og er búinn að vera í rugby í mörg ár. Hann er virkilega metnaðarfullur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Ef hann til dæmis segist ætla að gera eitthvað þá gerir hann það,“ segir hún.
Hvernig fer fólk að því að kynnast í gegnum TikTok?
„Bara byrjuðum að skrifa undir myndböndin og deila þeim. En þetta varð miklu meira vinasamband en annað í byrjun. Við erum ótrúlega lík og með líkar skoðanir. Systur mínar og vinkonur hlógu einmitt að mér og sögðu að ég hefði fundið karlkyns útgáfuna af sjálfri mér. Hann er bara aðeins meiri nagli en ég og lætur ekki bjóða sér neitt kjaftæði á meðan ég get verið algjör kettlingur.
En við bara byrjuðum að spjalla um allskonar og aldrei eitthvað að daðra enda var ég að hitta annan á þeim tíma. Síðan slitnaði upp úr því og þá spurði hann hvað ég væri að fara að gera um jólin því hann fær gott frí frá ferlinum yfir hátíðirnar og ég sagði að ótrúlegt en satt þá væri ég ekkert búin að plana enda fyrstu jólin mín sem ég er án barnanna minna og móður. Hann spurði hvort hann mætti ekki bara koma og bað mig um að deita ekki neinn fyrr en við myndum hittast. Ég sagði bara í hvatvísi minni að hann væri velkominn, svo næsta sem ég veit fæ ég screenshot af flugmiðanum hans,“ segir hún og játar að hafa fengið smá sjokk við þær fréttir.
„Það var smá sjokk en líka mikil tilhlökkun. Hann sendi mér alla morgna og öll kvöld. Bara það eitt og sér sýndi mér hvað býr í honum, engir leikir hver sendir fyrst eða bíða í tvo tíma áður en maður svarar eða tuð undan því hvað ég svara illa. Hann veit að það er mikið að gera hjá okkur báðum og er samt alltaf til staðar. Aldrei í fýlu eða tuðandi yfir hlutum sem skipta ekki máli,“ segir Hafdís Björg.
Var þetta ást við fyrstu sýn?
„Já, ég verð eiginlega að segja það. Hann byrjaði samt að heilla mig upp úr skónum vikuna fyrir komu. Svo small þetta bara eins og ekkert væri eðlilegra þegar hann kom.“
Hvenær kom hann til landsins?
„Hann kom um miðjan desember og höfum við farið hægt í það að pósta myndum en þetta er allt komið út um allt hér heima og úti. Liðið hans fylgist grimmt með Instagram-síðunni minni.“
Hvað heillaði þig við hann?
„Hvað hann er ótrúlega hreinskilinn, veður í hlutina sama hvað öðrum finnst og sjálfstraustið hans.“
Hvað ætlar þú að gera með honum um jólin?
„Við ætlum bara að taka það rólega og njóta. Jafnvel henda í nokkur TikTok-myndbönd,“ segir hún, alsæl með lífið.