Fáir vissu hvað gerðist í raun og veru

Stef­ani Octa­vi­an Gheorg­he lenti í erfiðri lífsreynslu á árinu sem …
Stef­ani Octa­vi­an Gheorg­he lenti í erfiðri lífsreynslu á árinu sem breytti honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árið 2020 fór illa af stað hjá Stef­ani Octa­vi­an Gheorg­he athafnamanni. Hann lenti í persónulegum áföllum í ár bæði líkamlegum og fjárhagslegum. Þrátt fyrir erfiðleikana segir Stefan árið hafa farið betur en á horfðist í byrjun. Hann horfir nú fram á við og segir að fólk ætti að hugsa um sjálft sig áður en það tuðar um fólk sem það þekkir ekki. 

Margir kannast við Stefan sem fyrstu íslensku klámstjörnuna. Hann hefur einnig starfað í fylgdarþjónustu erlendis en er nú meðal annars í fjarfestingum. Hann er nýbúinn að fjárfesta í eign á Íslandi auk þess sem hann er í fjárfestingum í Bandaríkjunum. En hvernig efnast maður svona?

„Þú ferð og sigrar heiminn og býrð til klám,“ segir Stefan og hlær. Hann bætir þó við að það sé ekki einfalt að vera í þessum bransa. Ýmsir fylgifiskar fylgja því að vera í klámi og fylgdarþjónustu.

„Árið mitt byrjaði ömurlega. Ég byrjaði á því að fara í viðskipti við fólk úti í Litháen sem leiddi til þess að ég tapaði alveg rosalega miklu. Ég tapaði eiginlega bara öllu sem ég átti. Það leiddi til þess að Íslendingar sem ég var í viðskiptum við og útlendingar urðu fyrir jafn miklum svikum og ég. Kostaði kannski ekki mannorðið en hefur skemmt mikið fyrir mér, sérstaklega hérna heima,“ segir Stefan.

Lenti í stórfelldri líkamsárás

Áfall sem Stefan varð fyrir í Berlín hjálpaði ekki til við að greiða úr viðskiptaflækjunum.

„Svo varð ég í byrjun árs fyrir stórfelldri líkamsárás og hópnauðgun úti í Þýskalandi þannig að þetta var svolítið mikið í einu. Ég lokaði á allt, hætti á samfélagsmiðlum og fór í sjálfsvinnu,“ segir Stefan. Hann segir fjölda fólks hafa talað illa um sig. Hann lagði áherslu á að hætta að hugsa um hvað aðrir voru að segja enda vissu fáir hvað gerðist í raun og veru.

Þrátt fyrir jákvæðni og elju Stefans áttar hann sig á að það tekur tíma að vinna úr því áfallinu. Stefan dvaldi á spítala með áverka eftir árásina auk þess sem hann fór í skýrslutökur. Hann fer aftur út í janúar til þess að fylgja málinu eftir. Hann segist vera með réttargæslumann á Íslandi.

Árásin í Þýskalandi hafði mikil áhrif á Stefan.
Árásin í Þýskalandi hafði mikil áhrif á Stefan. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að það taki einhver ár að vinna sig út úr svona. Það getur enginn farið að ljúga því að sjálfum sér að hann jafni sig á einhverju svona á örfáum vikum eða mánuðum. Þetta er jú búið að vera mjög erfitt,“ segir Stefan.

Hann segir erfiðara að vera í nánum samskiptum eftir ofbeldið sem hann var beittur. Á Íslandi var hann spurður hvað honum þætti erfiðast eftir þetta allt saman og eru náin samskipti einna erfiðust.

„Auðvitað getur maður stundað kynlíf og allt þetta, það er ekki það. Þrátt fyrir að mig langi að stunda kynlíf, njóta ásta og sýna ást og alúð þá er það erfiðara. Ég er heppinn að sú manneskja sem ég er með núna veit hvað er í gangi og veit hvað er búið að vera í gangi allt þetta ár. Allt sem hefur gerst. Búin að hjálpa mér með vinnu og alls konar. Ég held að ég sé mjög heppinn með manneskju sem ég er með og það fólk sem er í kringum mig upp á skilning og að gefa mér tíma í að vinna úr því sem gerðist. Þetta er kannski ekki auðvelt fyrir það heldur en þetta er eins og það er.“

Tapaði mörgum milljónum

Á meðan Stefan var að vinna úr áfallinu sem hann varð fyrir í Þýskalandi gekk hvorki né rak í innflutningi hans á Calvin Klein-nærbuxum til Íslands vegna nokkurra samverkandi þátta. Fjöldi fólks var búinn að panta nærbuxur á hagstæðu verði. Stefan segir suma hafa sakað hann um að nærbuxurnar væru ekki ekta vegna þess hversu ódýrar þær voru. Hann segist hins vegar hafa selt þær á svipuðu verði og í Ísrael þar sem þær eru ódýrar að hans sögn.

„En svo kom bara Covid og öllu var lokað og ég lenti í þessari árás úti sem gerði það að verkum að ég var fastur í Berlín vegna skýrslutöku og lá á spítala vegna áverka. Það leiddi til þess að ég komst ekki aftur til Litháens til að halda áfram með mitt. Maðurinn þar var búinn að lofa öllu fögru en svo gerðist ekkert,“ segir Stefan. Hann segist skilja reiði fólks en á meðan fólk úti í bæ tapaði nokkrum þúsundköllum tapaði hann mörgum milljónum.  Í kjölfarið á þessu var hann meðal annars kallaður öllum illum nöfnum á netinu, þar á meðal dópisti og þjófur. 

Á Þorláksmessukvöld veittist maður að Stefani á Laugaveginum. Greip í handlegg hans, kippti honum að sér og hótaði honum. Maðurinn hélt því fram að Stefan skuldaði dóttur hans peninga. Vinur Stefans kom honum til bjargar og sagði við manninn að hann gæti reynt að lemja hann ef hann þyrfti að berja einhvern. Þá hætti maðurinn við.

„Það að lenda í svona er auðvitað ekki gaman. Ég skil alla þá sem áttu í viðskiptum við mig, reiði og pirring yfir því að hafa lent í þessu og eina sem er í stöðunni er að sjálfsögðu eins og ég hef gert áður að biðjast afsökunar. Staðan eins og ég hef sagt áður og gefið út er að ég varð fyrir svikum af hálfu aðila sem fjárfesti í þessu með mér. Í kjölfarið urðu margir aðrir fyrir því sama og ég. Ég er alveg jafn reiður og mínir fyrrverandi viðskiptavinir. En það að koma svona fram við mig fyrir framan fullan Laugaveg á Þorláksmessukvöld er algjör óþarfi,“ segir Stefan sem var í áfalli eftir atvikið. Hann hafði ekki lent í atviki á borð við þetta áður en hótunin um ofbeldi kom þó ekki á óvart vegna skilaboða sem hann og samstarfsfólk hans hafa fengið meðal annars á netinu.

Stefan er með marga bolta á lofti. Er meðal annars …
Stefan er með marga bolta á lofti. Er meðal annars nýbúinn að gera upp lúxusíbúð í Miðbænum til útleigu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verður að halda áfram

Það kann að vera að það sé hægt að efnast í klámheiminum eins og Stefan sagði í upphafi en bransinn er ekki einfaldur. Það var til dæmis lítið að gera í fylgdarþjónustunni vegna kórónuveirufaraldursins. Áfallið í Þýskalandi gerði það einnig að verkum að það gekk erfiðlega að sinna þjónustunni. „Ég gerði eitthvað af því úti í Berlín en það var bara svo erfitt eftir það sem gerðist.“

Stefan hefur verið á Íslandi síðan í ágúst og hefur hann ekki verið eins lengi á landinu í fimm ár. Hann segir það hafa verið gott fyrir sig að fá tíma til að hugsa inn á við. Hann nýtti tímann í að standsetja lúxusíbúð í miðbæ Reykjavíkur sem hann hugsar fyrir erlenda ferðamenn.

Stefan horfir fram á við og segir lítið annað í stöðunni en að gera það.

„Hvað áttu að gera? Auðvitað er hægt að leggjast í þunglyndi og ég gerði það og talaði ekki við neinn. Ég fór að vinna við að smíða bar í Þýskalandi sem ég fékk í gegnum kúnna. Ég hef aldrei unnið smíðavinnu.“

Hann gat þó ekki lokað sig af endalaust.

„Ég get ekki endalaust legið heima og grenjað. Þú verður að halda áfram. Lífið heldur áfram og ef þú ætlar að eyða tíma þínum í að vera í einhverju þunglyndi, láta þér líða illa og ekki gera neitt í því nærðu ekki neinum árangri í lífinu.“

Það þýðir ekki að loka sig af segir Stefan.
Það þýðir ekki að loka sig af segir Stefan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefan er í ljónsmerkinu og spáir því að árið 2021 verði gott fyrir ljónin. Í rauninni spáir hann að árið verði gott fyrir langflesta.

„Það koma tímar sem ganga vel og það koma tímar sem eru erfiðir en það eina sem er í stöðunni er að horfa fram á við og vera bjartsýnn. Ekki gefast upp. Númer eitt, tvö og þrjú er að elska sjálfan sig og taka okkur sjálf í sátt, gera alltaf betur og betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda