„Ég drekk aldrei áfengi“

Pétur Einarsson.
Pétur Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pétur Einarsson er á spennandi stað í lífinu. Hann er menntaður hagfræðingur en hefur að undanförnu verið að viða að sér aukinni þekkingu og er að stíga inn í að nota allt sem lífið hefur kennt honum og vísindin í að aðstoða annað fólk við að ná markmiðum sínum.

Þó Pétur sé ekki mikið jólabarn í sér, þá er hann fullur tilhlökkunar fyrir jólunum og búinn að ákveða að taka þátt í þeim af heilum hug og gera sitt besta í að upplifa jólastemninguna með sínum nánustu.

Hann segir ákvarðanir sem hann hefur tekið í lífi sínu að undanförnu ýta undir löngun sína til að upplifa jólin eins og hann langar að hafa þau.

„Ég ákvað fyrir um ári að ég ætlaði að endurmennta mig á árinu 2020 þannig að ég yrði tilbúinn fyrir þennan nýja og spennandi áratug sem framundan er.“

Hugurinn er ekki geymsla heldur staður þar sem hugmyndir vakna

Pétur hefur tæplega þriggja áratuga reynlsu í sölu- og markaðsmálum og leiddi uppbyggingu á nýjum rekstri og mörkuðum hjá stórfyrirtækjum og bönkum svo dæmi séu tekin.

„Nú langar mig að nota þessa reynslu og miðla henni þangað sem þörf er á.

Ég hef verið í þremur skólum á þessu ári. Hjá Predictive Index (PI) og einnig hjá Getting Things Done (GTD) og svo er í Rágjafarskólanum hjá Kára Eyþórssyni. PI er greining á starfsfólki og aðstoðar við að setja saman þá sem vinna best saman. GTD er leið til að bæta skipulag og minnka streitu og gera meira af því sem skiptir máli. Ráðgjafarskólinn snýr svo að áhuga mínum á andlegri heilsu og fíknivanda, sem hefur verið mjög skemmtilegt nám.“

Hvernig getur GTD nýst fólki í atvinnulífinu?

„GTD nýtist öllum í atvinnulífinu, sér í lagi þeim sem eru með mikið á sinni könnu og þeim sem eru með ólík verkefni. Nú þegar við vinnum heima er mikilvægt að geta haldið einbeitingu og sinnt þeim verkefnum sem mestu máli skipta. Það er auðvelt að láta trufla sig og fara úr einu í annað en það er ekki endilega gott fyrir okkur. Við þurfum að vita hvað skiptir máli og geta svo klárað þau verk og þá farið og gert eitthvað skemmtilegt. Þá líður okkur best. Það er líka að sýna sig að við eigum mjög erfitt með að gera margt í einu. Svokallað „multi-tasking“ virkar ekki. Við erum gerð til þess að sinna vel einum hlut í einu og klára það sem við byrjum á. Vissulega er það ekki alltaf hægt, það koma upp önnur verkefni sem við þurfum að sinna. En þá er svo gott að hafa kerfi sem við treystum þannig að þegar við komum til baka þá vitum við alveg hver staðan er. Það hefur líka sýnt sig að þegar einhverjir í fyrirtæki byrja að vinna eftir meira skipulagi þá sjá aðrir árangurinn og þá langar í það líka. Það er jákvætt og myndar góða stemningu sem skiptir miklu máli.

Við erum alltaf að vinna saman og það er grundvallaratriði í öllum rekstri eða stjórnsýslu.“

Pétur segir að hugurinn okkar sé ekki gerður til að geyma upplýsingar heldur til þess að fá hugmyndir og vera skapandi.

„Til þess þarf að minnka álag og streitu. Annað sem skiptir líka máli er að taka tíma í skipuleggja það sem við ætlum að gera, gefa okkur tíma til að hugsa hvað skiptir máli og hvað við ætlum að gera. Þannig náum við meiri einbeitingu og þá líður okkur betur. Þegar við klárum að vinna og förum heim getum við verið afslappaðri og meira til staðar. Við förum þá frekar í erfiðari verkefni eins og að taka til í bílskúrnum. Lesum bækur til að læra nýtt tungumál og fleira í þeim dúr. Daglega lífið okkar verður þá meira eftir okkar vali og minna tilviljunarkennt. Auðvitað gerist lífið og allavega kemur upp á en við getum þróast í þessa átt, sem er aðalatriðið.“

Ekki mikið verið að halda upp á jólin í Frakklandi

Pétur er alinn upp á erlendri grundu þar sem fjölskyldan var oftar en ekki á skíðum á jólunum.

„Ég bjó lengi í Frakklandi þar sem ekki var haldið upp á jólin. Ég var einu sinni að vinna um jólin og heimsótti vinafólk sem var með hús í sveitinni í Massif Central. Þau voru ekki með neitt skraut eða jólagjafir og auðvitað ekkert jólatré. Aðfangadagur var alveg eins og hver annar dagur en á jóladag fórum við að fljúga í svifflugvél en um kvöldið var þó betri matur og venjulega, „foie gras“ í forrétt en mér er líka sérstaklega minnisstætt að það var tekin upp flaska af Chateau d'Yquem frá 1967 sem mér skilst að hafi verið meira virði en allar jólagjafir sem ég hef fengið frá upphafi!

Ég var líka að vinna einu sinni í Óman og var þar tvenn jól í röð en þar er ekki haldið upp á jólin, sem átti ágætlega við mig. Það var reyndar ekki einu sinni frí á aðfangadag, en ég fór að kafa eftir hádegi og svo í bíó og á Burger King um kvöldið.“

Pétur segir mikið hafa breyst í sínu lífi frá þessum tíma.

„Ég reyni að taka þátt og finna jólabarnið í mér! Nú eru jólin að koma og auðvitað hlakka ég til að eiga góða stund með fjölskyldu og ættingjum og vonandi verður hægt að hittast og borða góðan mat saman og skiptast á nokkrum pökkum. Við búum ekki öll á Íslandi þannig að þetta er venjulega sá tími sem við hittumst og eyðum tíma saman sem er afar mikilvægt. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að skreyta en nú ætla ég að setja upp ljós í glugganum og gera jólalegt. Ekki veitir af í skammdeginu. Annað sem ég hugsa til er að það eru margir sem eiga erfitt um jólin og eru einmana eða sem dæmi í fangelsi. Ég mun reyna að gera eitthvað gott og gefa af mér um jólin.“

Hvað gerir þú alltaf á jólunum?

„Það er eitt sem ég hef gert undanfarin tíu ár á jólunum, eða frá því við fluttum aftur heim til Íslands. Við feðgarnir, ég og yngri sonur minn, förum í messu í Kópavogi klukkan sex hjá séra Sigurði Arnarsyni sem er prestur okkar Íslendinga í London. Þetta er góð hefð og það er svo hátíðlegt að syngja Heims um ból saman. Þá mega jólin byrja hjá mér. Það er eitt sem ég gerði fyrir jólin sem var að mála kort og senda, en nú er það kannski ekki viðeigandi, þannig að nú þarf ég að finna nýja leið til þess að gera eitthvað skapandi sem er hægt að senda rafrænt. Svo reyni ég alltaf að hreyfa mig á jólunum. Nota tækifærið og fara út í náttúruna og hreyfa mig. Ef ég fer ekki á skíði þá fer ég í það minnsta að hlaupa, hjóla eða út að ganga.“

Hvað gerir þú aldrei?

„Ég drekk aldrei áfengi á jólunum. Ég reyndi það fyrir mörgum árum og það fer ekki vel saman. Ég reyndar drekk aldrei áfengi þannig að það sé nú sagt. En jólin eru fyrir börnin og einnig eldra fólkið sem kemst minna út og það er aðalatriðið að öllum líði vel og það sé öruggt og skemmtilegt andrúmsloft á þessum tíma.“

Upplifun að sturta niður jólagjöfinni

Pétur segir skemmtilega hefð að hitta fjölskylduna og borða hangikjöt á jólunum.

„Eitt sem við höfum gert á jólunum er að hitta öll frændsystkinin og borða hangikjöt. Það er klárlega uppskrift að skemmtilegu kvöldi. Við erum mörg og búum hér og þar í heiminum þannig að það er alltaf gaman að hittast. Nú er aldrei að vita hvernig þetta verður. Kannski á Zoom? Það er mjög mikilvægt að fólk haldi áfram að hittast jafnvel á netinu. Það er mikilvægt að sjá hvert framan í annað í gegnum facetime eða eitthvað slíkt. Það er einnig hægt að heimsækja eldra fólk með símamyndavélum, sem ekki er hægt að hitta, eða sjúklinga á spítala.“

Pétur segir að bestu jólin sem hann hefur upplifað hafi verið í bernsku barna sinna.

„Ég held að bestu jólin hafi verið þegar synir mínir voru þriggja til fimm ára. Þá voru þeir nógu stórir til þess að taka þátt í jólunum og finnast allt skemmtilegt og nógu ungir til þess að vera ennþá saklausir og vera spenntir fyrir öllu en líka þakklátir. Mér fannst þetta ein besta tilfinning sem ég upplifað; að geta verið til staðar og eiga svona góða stund saman. Ég fékk einu sinni brún Armani-jakkaföt í jólagöf. Ég held að það hafi ekki ennþá verið toppað! Annars voru margar góðar gjafir gefnar þegar ég var barn. Ég man sérstaklega eftir kúrekabúningi og byssu og líka járnbrautaleik sem ég fékk og margt fleira.“

Pétur man ekki eftir að hafa fengið slæma gjöf en hann á slæma reynslu af gjöf á jólunum.

„Einu sinni fékk ég pening frá vini foreldra minna sem var hjá okkur um jólin sem ég missti ofan í klósettið þegar ég var að sturta. Þetta er ekki versta gjöfin en klárlega ein versta minningin! Erfiðast hefur mér fundist að hitta ekki syni mína um jól og nú einmitt um þessi jól gæti svo farið að eldri sonur minn sem er í námi í London komi ekki heim um jólin til þess að þurfa ekki að vera í sóttkví helminginn af fríinu. Kórónuveirufaraldurinn mun klárlega setja mark sitt á þessi jól og við munum væntanlega ekki hittast eins og venjulega. Hins vegar er margt gott sem mun koma út úr þessu. Fólk hugsar sig um áður en það fer í ferðalag. Það er hægt að fækka um eina til tvær ferðir á ári án þess að ég sé að missa af einhverju. Við getum hist sjaldnar en þegar við hittumst erum við virkilega til staðar og gefum okkur góðan tíma. Við stöldrum meira við, hlustum betur, ræðum um það sem máli skiptir og sýnum væntumþykkju. Lífið okkar er að meðaltali 82 jól sem þýðir að ég á um 25 jól eftir. Ég ætla því að gera hið besta úr því og kannski er aldrei of seint að byrja nýjar hefðir. Ég gæti alveg náð að venjast einhverju nýju og skemmtilegu. Ég fer kannski að hugsa það á næstunni; hvað gæti verið ný og góð jólahefð!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda