Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Baugs var í viðtali við Kveik á RÚV í gærkvöldi. Þar var hann spurður út í glæstan lífsstíl fyrri ára. Hann keyrði um á fínustu Range Roverum, bjó í glæsihúsum í Þingholtunum, flaug með einkaþotum og gekk í fínustu fötunum þótt Bónus-pokinn væri aldrei langt undan. Hann játaði að hann hefði þroskast síðan 2007 og sagðist aldrei hefði haldið svona glæsipartí í dag eins og Baugsdaginn.
Baugsdagurinn var haldinn í maí 2007 í Mónakó og var ekkert til sparað. Um 200 manns, bæði starfsmenn og velunnarar, var flogið út, gist var á fínustu hótelunum og miklum peningum eytt í kampavín, fæði og skemmtiatriði.
Í ráðstefnuhluta dagsins var Halla Tómasdóttir fundarstjóri en hún var þá framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Rithöfundurinn Malcolm Gladwell var aðalfyrirlesari dagsins en um kvöldið var slegið upp veislu.
Þar bar hæst að Tina Turner skemmti gestum og söng smellinn Simly the Best og var það Jonathan Ross sem stýrði skemmtuninni.
Í viðtali gærkvöldsins var Jón Ásgeir spurður að því hvort þetta partí hefði kostað hálfan milljarð og neitaði hann því. Hann játaði hinsvegar að hann myndi aldrei halda svona partí í dag því hann ætti minni peninga en áður. Eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir fjárfestir, er hinsvegar betur stödd fjárhagslega og greindi Jón Ásgeir frá því í þættinum.