Embla er í fullu starfi sem tiktok-stjarna

Embla Wigum er ótrúlega vinsæl á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega TikTok.
Embla Wigum er ótrúlega vinsæl á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega TikTok. Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Embla Wigum er ein vinsælasta samfélagsmiðlastjarna á Íslandi. Hún er nýkomin með milljón fylgjendur á TikTok þar sem hún birtir myndbönd af sér með listræna og óvenjulega förðun. 

„Samfélagsmiðlastarfið er orðin full vinna hjá mér núna. Ég var í öðru hlutastarfi með þangað til í janúar á þessu ári en var þá komin með nógu góðar tekjur til að einbeita mér alveg að þessu,“ segir Embla. 

Embla segir að það hafi verið ákveðið markmið að ná milljón fylgjendum en lengi vel gat hún varla ímyndað sér að hún myndi ná svo góðum árangri. Hún segir fylgjendafjöldann óraunverulegan. 

„Það er ótrúlega gaman að sjá að það sem ég geri nær til svona margra. Það að hugsa sér að milljón manns séu að fylgjast með mér og styðja mig í því sem ég er að gera er alveg ótrúlegt og mér þykir svo vænt um það.“

Listrænir hæfileikar Emblu fá að njóta sín á samfélagsmiðlum.
Listrænir hæfileikar Emblu fá að njóta sín á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Embla Wigum

Hvert stefnir þú?

„Stefnan er í rauninni bara að halda áfram að gera það sem ég er að gera núna, og svo kemur í ljós hvernig það þróast. Það er mjög erfitt að segja en ég á mér alls konar drauma um það sem mig langar að gera, svo sem gefa út vörulínu og fleira.“

Milljón fylgjendur segja ekki alla söguna. Stundum er horft á myndbönd Emblu 100 þúsund til 500 þúsund sinnum en vinsælustu myndböndin fá töluvert meira áhorf. „Myndböndin sem fá mest eru með um fimm til 20 milljónir áhorfa. Þannig að það er mjög erfitt að segja en sem dæmi get ég séð að ég hef fengið fjórar milljónir áhorfa á myndböndin mín í þessari viku.“

Ertu með einhverjar fyrirmyndir í þessum bransa?

„Já það er rosalega margt flott fólk erlendis sem ég lít mikið upp til. Þeir sem eru stærstir í svipuðu og ég er að gera eru til dæmis Abby Roberts og Charlotte Roberts, með 16 og átta milljónir fylgjenda. Svo eru líka ótrúlega margir með í kringum eina til tvær milljónir fylgjenda sem ég lít mikið upp til og fæ innblástur frá.“

Ótrúlega margir horfa á flottar farðanir Emblu á samfélagsmiðlum.
Ótrúlega margir horfa á flottar farðanir Emblu á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Embla Wigum

Finnur þú fyrir því að vera fyrirmynd annarra?

„Já, ég finn stundum fyrir því, en mér finnst mjög skrýtið að hugsa um sjálfa mig sem fyrirmynd annarra. En það er mjög gaman og ég reyni mitt besta til að vera þá góð fyrirmynd. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að sjá þegar aðrir og sérstaklega ungar stelpur og strákar fá innblástur frá mér og eru að merkja mig í myndbönd á TikTok og gera farðanir sjálf. Þá finnst manni maður vera að hafa einhver góð áhrif.“

Það er mikið talað um áhrif samfélagsmiðla á andlega heilsu. Finnur þú fyrir því?

„Ég finn alveg fyrir því eins og kannski flestir. Þegar það að vera í símanum er orðinn partur af vinnunni þinni, og maður fær mikið af ummælum og skilaboðum, getur það orðið svolítið yfirþyrmandi auk þess ef það eru einhver neikvæð ummæli getur það haft áhrif á mann. Ég er orðin betri í því að láta það ekki hafa áhrif á mig auk þess að vera ekki að bera sig saman við aðra á netinu sem getur verið erfitt þegar maður er að skoða endalaust af mismunandi fólki á hverjum degi.

Það sem samfélagsmiðlar geri jákvætt fyrir mig, gefa mér vettvang til að tjá mig og nota þá í listrænum tilgangi, og svo öll fallegu ummælin og skilaboðin sem ég fæ, er svo miklu meira en þetta neikvæða, þannig að ég reyni að einblína bara á allt það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda