Vilhjálmur og Katrín í 10 ár

Katrín hertogaynja og Vilhjálmur bretaprins gengu í hjónaband fyrir 10 …
Katrín hertogaynja og Vilhjálmur bretaprins gengu í hjónaband fyrir 10 árum. LEON NEAL

„Núna eru komin 10 ár síðan Vilhjálmur bretaprins giftist Kate Middleton í Westminster Abbey. Því er um að gera að fara yfir 10 staðreyndir um hertogahjónin af Cambridge og brúðkaupið þeirra í tilefni dagsins,“ segir Guðný Ósk Laxdal sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni í sínum nýjasta pistli: 

1. Nýtt nafn

Kate gekk inn í kirkjuna sem Kate Middleton en gekk út sem HRH Catherine the Duchess of Cambridge (hennar hátign Katrín, hertogaynjan af Cambridge, eins og við myndum segja á íslensku). Venja er að prinsar fái hertogatitil þegar þeir giftast og fá eiginkonurnar kvenútgáfuna af titlinum. Síðan 2011 ber Katrín ekki lengur Middleton nafnið, þó flestir þekki það nafn mjög vel. Það er hefð að konungsfólk beri ekki eftirnöfn, þar sem allir landsmenn eiga að vita um hvern ræðir. Katrín sjálf valdi að vera kölluð Catherine en ekki Kate.

2. Tímabundin sambandsslit 

Vilhjálmur og Katrín kynntust fyrst í St. Andrew háskólanum í Skotlandi. Þar voru þau fyrst einungis vinir, og fluttu saman með öðrum vinum í íbúð árið 2002. Það er síðan árið 2004 sem samband þeirra varð opinbert, en þá sást Katrín með Vilhjálmi og fjölskyldu í skíðaferð í Sviss. Árið 2007 hættu þau stuttlega saman í um tvo mánuði en náðu svo aftur saman. Telja margir að tímabundnu sambandslitin hafi verið vegna þess að Vilhjálmur taldi sig ekki tilbúinn að biðja Katrínar. Úr því varð uppnefni slúðurblaðanna fyrir Katrínu „Waity Katie“. Í október 2010 bað Vilhjálmur Katrínu um að giftast sér meðan þau voru að ferðast um Kenía. Trúlofunin var síðan gerð opinber á blaðamannafundi í nóvember 2010 og loks giftu þau sig 29. apríl 2011. 

3. „Bíddu þar til þú sérð hana“

Mikil leynd var yfir brúðarkjólnum hennar Katrínar og einungis fáir sem höfðu séð hann áður en hann birtist fyrir heiminum. Kjóllinn var hannaður af Sarah Burton, hönnuði hjá Alexander McQueen tískuhúsinu. Hefð er fyrir því að ekki sjáist í handleggi konunglegra brúða við trúarathafnir og var það ástæðan fyrir síðerma kjól. Það að ermarnar voru úr blúndu leyfðu kjólnum að vera aðeins nútímalegri. 

Samkvæmt hefð mátti Vilhjálmur ekki snúa sér við til að sjá brúði sína ganga upp að altarinu, en bróðir hans Harry fékk leyfi til þess og á að hafa hvíslað að Vilhjálmi "bíddu þar til þú sérð hana" þegar Katrín gekk inn. Það fyrsta sem Vilhjálmur sagði við Katrínu þegar hann sá hana var „You look beautiful“.

CARL DE SOUZA

4. Líkindi við brúðkaup Karls og Díönu

Margt við brúðkaupið minnti á brúðkaup Díönu og Karls árið 1981, en bæði brúðkaupin voru í Westminster Abbey. Katrín tók sömu ákvörðun og Díana prinsessa gerði árið 1981, og valdi að fjarlægði orðið „hlýða“ úr brúðkaupsheitunum. Einnig ber Katrín sama trúlofunarhring og Díana gerði. 

Eftir athöfnina ferðuðust brúðhjónin í hestakerru að Buckinghamhöll og birtust á svölunum þar fyrir framan mannfjöldann. Á svölunum kysstust þau fyrir framan alla og urðu mikil fagnaðarlæti. Þau ákváðu síðan að kyssast aftur. Foreldrar Vilhjálms, Díana og Karl voru fyrstu konunglegu brúðhjónin sem kysstust á svölunum eftir sitt brúðkaupið, en það var bara einu sinni. 

Mörgum fannst athyglisvert að Vilhjálmur og Katrín kysstust ekki við athöfnina, en þannig eru konunglegu hefðirnar. 

5. Brúðartertan

Brúðarterta Vilhjálms og Katrínar var frekar smá miða við konunglegar brúðartertur, en hún var um 89 cm. Lítil samanborið við brúðartertu Karls og Díönu sem var ca 183 cm og brúðartertu Elísabetar og Filippusar sem var ca 274 cm. 

Kakan var ávaxtakaka og hefur ekki klárast í veislunni þar sem seinast var boðið upp á sneiðar af kökunni í skírn Lúðvíks prins árið 2018. 

6. Afslappaðari brúðhjón

Eftir athöfnina, og kossana á svölum Buckinghamhallar, var hádegisverður fyrir gesti í Clarence House. Brúðkaupsveislan var síðan um kvöldið. Það kom öllum á óvart að Vilhjálmur og Katrín sáust keyra um á Aston Martin bíl Karls eftir hádegisverðinn. Þar voru brúðhjónin mjög afslöppuð, miðað við hestakerruferðina fyrr um daginn, og skemmtu sér konunglega. 

7. Konunglegir gestir

Konungsfjölskyldum um 24 þjóða var boðið í brúðkaupið. Þar má telja Margréti danadrottningu, Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og Daníel prins eiginmaður hennar, Albert prins af Mónakó og Charlene eiginkona hans (þá ógift), Felipe konungur Spánar (þá krónprins) var viðstaddur með Letizia eiginkonu sinni (þá krónprinsessu) og móður sinni Sofia spánardrottningu. Willem-Alexander og Maxima, kóngur og drottning Hollands voru líka viðstödd, en á þessum tíma voru þau krónprins og krónprinsessa. Meðlimir grísku konungsfjölskyldunnar voru líka á gestalistanum, en Filippus afi Vilhjálms fæddist prins af Grikklandi og Danmörku. 

8. Konungleg heimili

Fyrst eftir brúðkaupið bjuggu Vilhjálmur og Katrín í Clarence House ásamt Harry, Karli og Kamillu. Eftir brúðkaupið fluttu þau inn í Kensingtonhöll (sem var heimili Díönu prinsessu). Harry flutti einnig inn í höllina stuttu seinna en flutti síðan út eftir að hann giftist Meghan. 

Það þarf ekki að hafa áhyggjur um að þröngt sé á þessum heimilum en Vilhjálmur og Katrín búa í „íbúð“ 1A í Kensingtonhöll, en sú íbúð er á 4 hæðum með 20 herbergjum. Undanfarin ár hafa þau breytt íbúðum 8 og 9 í skrifstofur fyrir starfsfólk sitt. Íbúðir 8 og 9 voru heimili Díönu á sínum tíma. 

Katrín og Vilhálmur eiga einnig Anmer Hall, sveitasetur í Norfolksýslu. Setrið var brúðkaupsgjöf frá Elísabetu drottningu en þau fluttu ekki inn fyrr en 2013 og var setrið þá mikið endurnýjað. Anmer Hall er 3 km frá Sandringhamsetrinu, en það er í eigu Elísabetar sjálfrar og er breska konungsfjölskyldan þar vanalega um jólin. 

Cambridgefjölskyldan fyrir framan Anmer Hall 2020

9. Sögulegir erfingjar

Árið 2013 eignuðust Vilhjálmur og Katrín sitt fyrsta barn Georg Alexander Lúðvík, og síðan stelpu árið 2015, Karlottu Elísabetu Díönu, og síðan strák árið 2018, Lúðvík Arthúr Karl. Öll börn þeirra bera prins og prinsessu tilil, þó þau séu barnabarnabörn drottningar. Þegar Vilhjálmur og Katrín áttu von á Georg var farið í að breyta erfðalögum titla, stærsta breytingin var að stelpur hafa sama rétt og drengir til að erfa titla, og að börn ríkiserfingja fái prinstitla. Áður fyrr voru það einungis börn karlskyns barna konungs sem fengu prins eða prinsessu titil. Þar sem Vilhjálmur er augljós ríkiserfingi á eftir föður sínum þá fá börn hans prinsa og prinsessu titla. 

Þegar Lúðvík prins fæddist fyrir þremur árum varð Karlotta söguleg að því leyti að hún er fyrsta breska prinsessan sem færist ekki aftur í erfðaröðinni við það að eignast yngri bróður.

10. Framtíðarkóngur og drottning

Vegna hás aldurs Elísabetar og Karls, er líklegt að ekki munu líða margir áratugir þangað til að Vilhjálmur erfir krúnuna. Mun Katrín þá vera honum við hlið og líklegast fá titilinn drottning, ef ekkert breytist. Mikið er um skilnaði í bresku konungsfjölskyldunni, Anna skildi við fyrsta mann sinn eftir 18 ár, Andrew og Sara skildu eftir 10 ára hjónaband og Karl og Díana skildu eftir 15 ára hjónaband. 

Vilhjálmur og Katrín hafa þó undanfarinn áratug sýnd mikla samheldni og verið mjög stöðug í sínu sambandi. Má því segja að þau minni frekar á Elísabetu og Filippus, en þau voru gift í rúm 73 ár.

Hjónin eiga í dag þrjú börn.
Hjónin eiga í dag þrjú börn. DANIEL LEAL-OLIVAS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda