Vigdís Diljá fjölmiðlafræðingur býr á Egilsstöðum ásamt unnusta sínum Ísleifi Guðmundssyni og dóttur þeirra Mekkín Eldey Ísleifsdóttur og labrador-tíkinni Freyju. Hún er verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála í Múlaþingi og zumbakennari á Egilsstöðum. Eins er hún með áhugaverðan hlaðvarpsþátt um Bachelor-þættina sem heitir Piparinn.“
„Ég er fædd og uppalin fyrir austan, í Fellabæ. Ísleifur er fæddur og uppalinn fyrir sunnan, í Njarðvík. Hann meiddist í fótboltaleik um sumar árið 2013 svo hann gat ekki spilað næsta leik með Njarðvík og ákvað að koma austur og fór á Bræðsluna á Borgarfirði eystra. Þar hittumst við fyrst. Fyrir utan félagsheimilið þar sem við ætlum að gifta okkur. Það fyrsta sem ég sagði við hann var hvað hann líktist rapparanum Macklemore mikið, en ég var mjög skotinn í Macklemore. Við dönsuðum svo eins og fífl allt kvöldið og eftir ballið bauð hann mér upp á hamborgara. Þá vissi ég að hann væri sá eini rétti.“
Það tók þau tíma að láta hlutina ganga að hennar sögn.
„Við hittumst oft og töluðum mikið saman en hann flutti til Noregs og ég flutti til Danmerkur. Ég fór síðan til Akureyrar í nám. Það var svo ekki fyrr en um jólin árið 2014 sem við ákváðum að verða kærustupar. Þá hoppaði hann upp í næstu flugvél austur til Egilsstaða og var með mér og fjölskyldunni minni um áramótin. Hann flutti svo norður til mín og við kláruðum okkar nám þar, urðum ólétt og fluttum heim til Egilsstaða þar sem við viljum hvergi annars staðar vera.“
Hvað er ást að þínu mati? „Þegar stórt er spurt. Orðið traust er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Að geta treyst hvort á annað í öllum heimsins aðstæðum. Að velja hvort annað, forgangsraða og miðla málum þannig að öllum líði sem best. Mér finnst mikilvægt að við leyfum hvort öðru að vera einstaklingar og styðjum hvort annað í þeim verkefnum sem við tökum að okkur. Eins er mikilvægt að vera tilbúin að styðja við hvort annað og hjálpa þegar það er viðeigandi.
Eins er vert að minnast á þetta hversdagslega líka. Að þola hvort annað og taka öllum göllunum sem við jú öll höfum. Eins að reyna að horfa á þetta jákvæða líka.“
Vigdís Diljá og Ísleifur ætla að láta pússa sig saman á þessu ári og því forvitnilegt að vita hvernig brúðkaupið eigi að vera.
„Það er ómögulegt að segja held ég. Við getum eiginlega ekki sent út boðskortin með fullri vissu um að allir sem fá kort geti komið. Við erum bæði í frekar stórum vinahópum og eigum þokkalega stórar fjölskyldur svo gestalistinn telur alls 150 manns. Það verður náttúrulega tryllt partý ef allir þessir meistarar fá að koma saman en hver veit. Kannski endum við bara tvö með prestinum og foreldrum okkar. Við erum svona að vona það besta en líka undirbúin fyrir það versta held ég.
Svo eru líka ákveðnar áskoranir í að vera með svona mikinn fjölda gesta á jafn litlum stað og Borgarfjörður eystri er. Gistimöguleikarnir eru ekki endalausir svo flestir verða ábyggilega á tjaldsvæðinu, sem verður örugglega geggjuð stemning. Við getum ekki gift okkur í kirkjunni því hún rúmar alls ekki svona marga. Svo ætli við endum ekki á að gifta okkur bara undir berum himni. Það er reyndar erfitt að finna fallegri stað en Borgarfjörð eystri svo það verður pottþétt ekkert mál að finna fullkominn stað fyrir athöfnina.
Annars er planið í grunninn að halda góða veislu, með góðum vinum og góðum mat og hafa svo tryllt partý þegar formlegheitunum er lokið.“
Í hverju ætlarðu að vera? „Ég verð í algjörum draumakjól.
Ég ætlaði að reyna að spara í kjólnum, enda nóg af útgjaldaliðum við svona partý. Ég á vinkonur sem hafa gift sig í kjólum frá Ali Express og Asos til dæmis og litið út eins og milljón dollarar, svo ég ætlaði að gera það sama. Ég fann svakalega fallegan kjól á Asos sem ég pantaði en hann var svo of lítill á mig. Einhver hluti af mér var pínulítið fegin þegar ég þurfti að skoða og pæla meira í kjólum. Þá bókaði ég mér brúðarkjólamátun hjá Ásdísi í Loforði og ég verð bara að fá að mæla innilega með því að bóka svoleiðis mátun! Ég tók tvær góðar vinkonur með sem drukku freyðivín, kjömsuðu á makkarónum og klöppuðu í hvert skipti sem ég kom fram í nýjum kjól. Þetta var frábært stelpudeit. Frekar amerískt en ómetanleg minning í undirbúningnum.
Í mátuninni varð ég alveg ástfangin af einum kjólnum. Hann er frábær lending á milli klassísks brúðarkjóls og svona meiri „bohem“ stíls. Ég gat alls ekki farið til baka í Ali-pælingar eftir það sem ég hafði upplifað svo nú verð ég bara að finna einhvern annan lið sem ég get sparað í.“
Hefur þig alltaf dreymt um að gifta þig? „Ég myndi kannski ekki segja að mig hafi dreymt um það, en ég sá það aldrei öðruvísi fyrir mér. Ég hef svo frábærar fyrirmyndir allt í kringum mig af ástríkum og sterkum hjónaböndum að mér datt aldrei annað í hug en að ég yrði líka svo heppin.“
Er mikil pressa á konur útlitslega að vera fullkomnar á brúðkaupsdaginn?
„Nei, það held ég ekki. Mér finnst við sem samfélag vera komin svo langt í þessum líkamsvirðingarpælingum, til dæmis að við erum meðvitaðri um að þessi hugmynd sem við höfum verið fóðruð með af samfélaginu, að einhver ákveðin líkamstýpa sé „fullkomin“, er í raun bara kjaftæði.
Án þess að vera rosa væmin finnst mér að ef konum líður vel á brúðkaupsdaginn séu þær fullkomnar. Það ættu allir að vera nákvæmlega eins og þeim líður vel á brúðkaupsdaginn sinn.“
Ætlarðu að dansa zumba í brúðkaupinu? „Já. Það verða allir, sko allir, píndir í salsasveiflur og „twerk“. Annað er ekki til umræðu.“
Vigdís Diljá bindur miklar vonir við landann sem þau ætla að kaupa frá KHB brugghúsinu á Borgarfirði.
„Það ættu flestir að skemmta sér konunglega í veislunni þar sem verður skemmtileg tónlist, dans og góðir drykkir.“
Hvað ætlarðu ekki að gera á brúðkaupsdaginn þinn? „Ég ætla að vera mjög sein. Ég væri alveg líkleg til að vera of sein, óvart. Ég ætla ekki að svekkja mig á einhverju sem fer öðruvísi en ég sé fyrir mér heldur bara njóta þess í botn að vera með öllu fólkinu mínu á fallegasta stað Íslands og ekki verða ælu-full.“
Vigdís Diljá segir allt ferlið áhugavert og fjölskyldan hennar sé sérstaklega ánægð með tilvonandi eiginmanninn. Það er eitthvað sem hún fann fyrir þegar þau trúlofuðu sig.
„Það var árið 2016 sem við trúlofuðumst hvort öðru. Við höfðum verið saman í eitt og hálft ár en vissum að við værum frekar gott teymi. Móðurfjölskyldan mín öll er frá Dalvík svo á hverju ári er lítið ættarmót í kringum Fiskidaginn mikla. Þá fyllist húsið hjá ömmu og afa á Dalvík af ættingjum og þetta er oft besta helgi ársins hjá okkur. Á föstudeginum fyrir Fiskidaginn bað Ísleifur pabba um hönd mína. Það er frekar gamaldags en þannig er Ísleifur minn svolítið – og mér finnst mjög sætt að hann hafi gert það. Svo bað hann afa heitinn um að fá bátinn hans að láni og sagðist vilja bjóða mér í smá siglingu. Mér fannst hann frekar leiðinlegur að vilja ekki bjóða neinum fleirum með. Ég var búin að bjóða frændsystkinum mínum með en hann hélt nú ekki. Ég skildi þetta svo allt þegar hann henti sér á skeljarnar milli Dalvíkur og Hríseyjar. Ég datt aðeins út af því mér brá svo og man ekki alveg hvað hann sagði en þetta var bara svo fullkomið augnablik.
Þegar við komum heim til ömmu og afa eftir þetta beið fjölskyldan öll úti á hlaði með kampavín og fagnaðarlæti. Þau voru svo fáránlega glöð að ég væri búin að negla hann, enda er hann algjört gull.“