Teitur Björn Einarsson er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og starfandi lögmaður. Hann býr með fjölskyldu sinni í Skagafirði og stefnir á gott sumarleyfi þar sem hann ætlar að njóta en ekki þjóta.
Teitur Björn er alinn upp á Flateyri þar sem hann starfaði bæði í fiskvinnslu og stundaði sjóinn á unglingsárum. Í dag býr hann með fjölskyldu sinni í sveitinni í Skagafirði. Orðatiltækið „til sjávar og sveita“ lýsir honum því ansi vel.
Hvað hefurðu verið að fást við að undanförnu?
„Við fjölskyldan fluttum í Geldingaholt í Skagafirði fyrir rúmu ári þar sem ég starfa sem lögmaður. Nú er ég að sækjast eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Kosningabaráttan sem því fylgir hefur sett ansi fjörlegan svip á lífið að undanförnu. Ég hef verið mikið á ferðinni, átt þess kost að hitta fólk um allt kjördæmið
og eiga við það samtal um verkefnin fram undan ásamt því að heimsækja fjölbreytt fyrirtæki og stofnanir. Þess á milli reyni ég að eiga gæðastundir heima með fjölskyldunni.“
Mikilvægt að rækta fjölskylduna
Teitur og eiginkona hans, Margrét Gísladóttir, eiga tvo drengi sem eru tveggja og fjögurra ára.
„Það eitt að hafa stjórn á þeim kálfum er heilmikill búskapur. Hér býr einnig stór hluti tengdafjölskyldu minnar í næsta nágrenni svo samgangurinn er mikill. Við erum svo heppin að tengdaforeldrar mínir eru sauðfjárbændur og mágur minn og svilkona kúabændur svo
drengirnir okkar fá búskapinn beint í æð. Báðir foreldrar mínir eru fallnir frá og því átti nálægð við ömmu og afa drengjanna stóran þátt í þeirri ákvörðun að flytja í Skagafjörðinn. Við erum þrjú systkinin og fjölskyldan er mjög tengd Flateyri. Þar eigum við hús sem við nýtum vel og þar eigum við líka náið frændfólk og vini. Við höfum líka verið dugleg að fá gesti með okkur vestur sem endar iðulega á veisluhöldum, varðeldi og ferð á Vagninn.“
Hvernig er lífið í Skagafirði?
„Það verður ekki annað sagt en að lífið í Skagafirði sé afskaplega þægilegt og ljúft. Við hjónin getum bæði sinnt störfum okkar héðan vandkvæðalaust. Ég held að störfum án
staðsetningar fjölgi verulega á næstu árum með tilheyrandi auknu frelsi fólks til að velja sér hvar það vill búa.
Ég hef kynnst góðu fólki hér bæði í gegnum fjölskyldu, vini og flokksstarfið. Maður finnur það vel að hér er tekið vel á móti nýju fólki. Blessunarlega veit fólk ekki að ég er hræðilegur söngmaður og frekar klaufskur knapi.
Þar sem við búum er útsýni til allra átta og góðir nágrannar. Hér er mikill landbúnaður svo um þessar mundir erum við með lambfé, hross og nautgripi allt í kringum okkur og þegar við keyrum drengina í leikskólann á morgnana er sérstaklega fylgst með því hvort það séu komin
ný folöld hjá nágrannanum. Strákarnir eru þannig orðnir miklir áhugamenn um hesta og hafa það nær alfarið frá móður sinni. Við fjölskyldan kíktum til dæmis í sunnudagsbíltúr að Hólum í Hjaltadal um daginn sem endaði svo óvænt í áhorfendabrekku á hestamannamóti sem erfitt var að slíta þá frá.“
Með brennandi áhuga á samfélaginu
Nú veit ég að þú brennur fyrir framþróun í landinu – hvað er efst á baugi hjá þér í þeim efnum núna?
„Ég hef brennandi áhuga á að samfélaginu okkar vegni vel og þess vegna vil ég láta til mín taka í stjórnmálum. Ég er þeirrar skoðunar að styrkleiki landsbyggðanna sé fólkið sem hér býr og hversu annt því er um samfélagið og reiðubúið að leggja sitt af mörkum. Þessi kraftur
sem býr í fólki sannfærir mig um að hægt sé að nýta betur þau óteljandi tækifæri sem eru til sjávar og sveita til að efla byggðir landsins. En til þess þarf grunnurinn af hálfu hins opinbera að vera rétt lagður, fyrst og fremst á forsendum byggðanna og fólksins sem hér býr, til að mynda með hóflegum álögum, jöfnu aðgengi að þjónustu og fjárfestingum í innviðum.“
Ertu búinn að ákveða hvað á að gera í sumarleyfinu?
„Verkefnin næstu daga eru tengd prófkjörinu og í tengslum við það eru mikil ferðalög. Mér finnst nú ekki ólíklegt að að þeim loknum munum við fjölskyldan ferðast eitthvað um landið og svo stoppa á Flateyri. Vonandi komum við fyrir einhverjum gönguferðum og jafnvel
útilegum en annars er planið að njóta en ekki þjóta, svona þar til baráttan fyrir alþingiskosningarnar hefst svo í haust.“
Veturinn var dimmur og kaldur
Hvernig upplifðir þú veturinn?
„Veturinn var dimmur og kaldur á köflum en annars nokkuð viðráðanlegur. Ég náði til að mynda aldrei að festa bílinn í snjóskafli. Veturinn hefur auðvitað einkennst af heimsfaraldri og samkomutakmörkunum en menn studdust þó við hinar ýmsu lausnir eins og rafræn þorrablót og tónleika svo þetta slapp allt til.“
Áttu þér uppáhaldsstaði um landið að ferðast á?
„Þegar ég var krakki áttu mamma og pabbi hlut í sumarbústað í Húsafelli og við fórum þangað á hverju sumri og dvöldum þar einhverjar vikur í senn þegar best lét. Fyrir mér er þetta svæði Borgarfjarðar enn þann daginn í dag einn stór ævintýraheimur. Strútur er til að
mynda eitt af mínum uppáhaldsfjöllum, Eiríksjökull hreint magnaður og veiðiferð upp á Arnarvatnsheiði er eitthvað sem ég þarf að endurtaka fljótlega við gott tækifæri.“
Hvað með viðveruna í Reykjavík – hvað er best við borgina?
„Það besta við borgina eru fyrst og fremst vinirnir og ættingjar sem búa fyrir sunnan en mörg hver hafa verið dugleg að heimsækja okkur norður og við þau þegar skreppa þarf suður. Það er auðvitað margt heillandi við borgina og gott að dvelja þar annað slagið og njóta alls þess sem hún hefur upp á að bjóða. Við erum enn þá að aðlaga okkur því að geta ekki pantað heimsendan kvöldmat á síðustu stundu en það er allt að koma. Hér er alla vega búið að kaupa frystiskáp sem er óðum að fyllast.“
Myndi vilja treysta stöðu foreldra langveikra barna
Er eitthvað í gangi núna sem þú værir mjög mikið til í að leysa – í íslenskum stjórnmálum?
„Já, brýnasta verkefnið fram undan er að vinna okkur út úr þessu efnahagsáfalli sem heimsfaraldurinn kallaði yfir okkur. Það er vel hægt vegna þess að árin fyrir kórónuveiruna hafði verið búið vel í haginn og grunnurinn fyrir frekari verðmætasköpun og fjölgun starfa er til staðar. En ef það er eitthvað eitt einstakt mál sem ég væri til í að leysa núna strax í dag þá væri það að treysta til muna stöðu foreldra langveikra barna, sem þurfa að sækja
heilbrigðisþjónustu um langan veg sem og vera mikið frá vinnu án fullnægjandi stuðnings.“
Saknarðu tímans í fjármálaráðuneytinu?
„Það var ákaflega spennandi og krefjandi að starfa sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Verkefnin voru ærin og sneru mörg að því að koma ýmsu í ríkisrekstrinum í réttar horfur eftir fjármálakreppuna 2008 og vinna til að mynda að afnámi gjaldeyrishafta. Þau ár og verkefni eru nú að baki og leystust flest farsællega og önnur verkefni fram undan en ef það er eitthvað sem ég sakna þá er það að starfa með öllu því góða og öfluga fólki sem vinnur í ráðuneytinu.“
Hvaða áhugamál áttu þér?
„Við hjónin deilum áhuga á ferðalögum um landið hvort sem það eru útilegur, fjallgöngur eða annað sem landið hefur upp á að bjóða. Eftir að við eignuðumst strákana hefur ferðaþörfin meira færst í styttri bíltúra en við reynum þá að fara um svæði sem við höfum ekki komið á
áður. Auk þess stunda ég skot- og stangveiði í þau fáu skipti sem tími er fyrir slíkt og hef gaman af að spila á píanó. Ef ég hefði tíma þá væri ég örugglega áhugasamur um að eiga
fleiri áhugamál.“