Bankastræti Birgittu Lífar verður öðruvísi

Bankastræti Birgittu Lífar verður í anda erlendra klúbba þar sem …
Bankastræti Birgittu Lífar verður í anda erlendra klúbba þar sem djammið hefst fyrr og lýkur fyrr. Samsett mynd

Klúbburinn Bankastræti verður opnaður á föstudagskvöldið klukkan 19:00. Athafnakonan Birgitta Líf Björnsdóttir hefur unnið hörðum höndum að því að opna klúbbinn þar sem skemmtistaður B5 var áður til húsa.

Birgitta segir að staðurinn verði öðruvísi en aðrir skemmtistaðir á Íslandi og kynnir til sögunnar stað sem verður líkari klúbbum í borgum á borð Los Angeles og Miami í Bandaríkjunum. 

„Við erum að reyna að gera þetta aðeins flottara og leggjum mikla áherslu á góða þjónustu og hærri standard en hefur verið,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is. 

„Um leið og ég byrjaði að hugsa út í þetta vissi ég strax að ég vildi gera þetta öðruvísi og flottara. Ég vildi hafa aðildarklúbb og rukka inn og taka þetta á næsta „level“. Opna fyrr og loka fyrr. Ég horfði til klúbba sem ég hafði heimsótt í Miami og LA en klúbbar víðast hvar í heiminum opna fyrr og loka fyrr. Ísland er eiginlega einsdæmi varðandi djamm til fimm á nóttunni og allir á milli staða allt kvöldið,“ segir Birgitta.

Hærra aldurstakmark

„Við verðum með hærra aldurstakmark, 22 ára, og munum rukka inn eftir klukkan 22:00 en það kostar 2 þúsund krónur inn. Móttökustýrur taka á móti gestum sem eru að koma á flöskuborð og meðlimum,“ segir Birgitta. Með því að kaupa sig inn á staðinn fylgir einn drykkur í dós að eigin vali eða eitt skot. Fastagestir geta keypt sér aðildarkort að staðnum. 

Tvær mismunandi áskriftarleiðir verða í boði, venjuleg áskrift og Elite-áskrift. Venjulegt aðgangskort kostar 5.990 á mánuði og innifalið í því er ótakmarkaður aðgangur að staðnum og klippikort fyrir 5 skot á barnum. Elite-áskrift kostar 19.900 á mánuði. Elite-félagar komast í VIP-röðina, fara inn á staðinn án endurgjalds og mega taka einn með sér. Þar að auki er 15% afsláttur á barnum og aðgangur að fleiri tilboðum

Birgitta Líf fyrir utan Bankastræti.
Birgitta Líf fyrir utan Bankastræti. Skjáskot/Instagram

„Við erum að reyna að bæta við fjölbreytileikann í miðbænum. Að mínu mati vantaði stað sem byrjar fyrr og hættir fyrr og maður getur átt góðan dag daginn eftir,“ segir Birgitta. Staðurinn verður opnaður klukkan 19:00 og hætt verður að hleypa inn á hann klukkan 00:30. 

Sala á flöskuborðum fyrir helgina hófst í vikunni og hefur salan farið vel af stað að sögn Birgittu. Salan fer fram á vef klúbbsins en aðildarkort eru ekki enn komin í sölu á vefnum en munu verða aðgengileg þar fljótlega.

Flöskuborð fyrir allt að átta manns kostar 10 þúsund krónur og gengur staðfestingargjaldið upp í flösku fyrir hópinn þegar á staðinn er komið. Þeir sem panta flöskuborð þurfa ekki að greiða aðgangseyri að klúbbnum. 

„Mig langaði að gera þetta aðgengilegra og þægilegra. Eins og til dæmis með flöskuborð, maður vissi ekki alveg hvernig ætti að panta það og hvað það kostaði. Þannig að mig langaði að sýna hvað er auðvelt að panta sér flöskuborð og hópa sig saman. Þetta eykur þægindin mikið og fólk getur aðeins skipulagt sig fram í tímann,“ segir Birgitta.

Þá mun staðurinn notast við QR-kóðatækni og geta flöskuborðsgestir pantað flöskur í gegnum símana sína með því að skanna kóða á borðinu. 

Partí alla helgina

Ólíkt gamla B5 verður mikil áhersla lögð á framkomu listamanna og mun það skína bersýnilega í gegn á opnunarhelginni. 

DJ Snorri Ástráðs mun þeyta skífum á föstudagskvöldið og raunveruleikastjarnan og rapparinn Bassi Maraj frumflytja nýtt lag. Á laugardag mun DJ Egill Spegill þeyta skífum og Flóni halda stemningunni uppi. 

„Annað kvöld verður lítið boðspartí þar sem við fögnum opnuninni og getum prufukeyrt allt saman og starfsfólkið fær að æfa sig. Síðan verður opnunarhelgin algjör veisla,“ segir Birgitta en dyrnar opnast klukkan 19:00 á föstudagskvöldið.

Flóni mun halda uppi stemningunni á laugardagskvöldið i Bankastræti.
Flóni mun halda uppi stemningunni á laugardagskvöldið i Bankastræti. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda