Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson og fyrrverandi knattspyrnumaðurinn David Beckham fóru saman á leik Englands og Danmerkur í undanúrslitum Evrópumeistaramótsins í fótbolta sem fór fram á Wembley í Lundúnum í gærkvöldi.
Með þeim á vellinum voru leikstjórinn Guy Ritchie og viðskiptamaðurinn David Grutman. Grutman birti mynd af þeim félögum í gærkvöldi.
Vinahópurinn sat í stúku fyrir ríka og fræga fólkið en fyrir neðan þá félaga sat meðal annars Vilhjálmur Bretaprins. Forseti UEFA, Aleksander Ceferin, Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands voru einnig í stúkunni. Athygli vekur að Johnson er eini karlmaðurinn í stúkunni sem ekki klæðist jakkafötum. Hann valdi heldur treyju enska landsliðsins.
Björgólfur og Beckham hafa verið vinir um árabil og hafa þeir reglulega komið til Íslands á sumrin til að veiða lax. Þá hefur Ritche oftar en ekki verið með í för.
Síðasta sumar komu þeir félagar meðal annars til landsins og veiddu í Haffjarðará á Snæfellsnesi.