Berglind Häsler, viðburða- og samskiptastjóri VG, og eiginmaður hennar, Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, eru búin að selja Karlsstaði í Berufirði. Jörðina keyptu þau hjónin árið 2014 og hafa rekið þar menningarmiðstöðina Havarí, gistiheimili, veitingastað og einnig framleitt Bopp og Bulsur. Greint er frá kaupunum á Havari.is. Viskiptablaðið greinir frá.
„Við höfum nú gengið frá sölu á Karlsstöðum í Berufirði og nýtt fólk tekið við rekstrinum. Við fluttum austur fyrir rúmum 7 árum og þó svo að Karlsstaðir hafi verið paradís okkar fjölskyldunnar þá var Havaríið mun stærra en það. Allt frá byrjun voru stórfjölskylda okkar og vinir tilbúin að taka þátt í þessu með okkur og stundirnar sem við áttum þarna saman ævintýralega magnaðar. Handtökin voru nokkur en eitt skref í einu þá gekk þetta upp. Það var mikið hlegið en líka grátið enda ekki átakalaust að reisa þennan fagra bæ upp úr öskustónni. Við eigum eftir að sakna sveitarinnar og alls góða fólksins fyrir austan sem tók okkur opnum örmum. Við göngum sátt og hamingjusöm frá borði. Þökkum öllum sem sóttu okkur heim og óskum nýjum bændum á Karlsstöðum alls hins besta í framtíðinni. Havarí mun áfram standa fyrir taumlausa gleði og listgjörninga í raunheimi og netgeimi,“ segir í tilkynningu.
Greint var frá því að jörðin væri á sölu á vef mbl.is í janúar. Þá sagði Berglind að þau hjónin ætluðu að einbeita sér að verkefnum í Reykjavík.
Svavar opnaði sig um veikindi sem hann glímir við í viðtali í Sunnudagsmoggann í apríl.
„Svo í lok árs 2018 ákváðum við að hvíla okkur á þessari keyrslu og búa einn vetur í Reykjavík. Í miðjum flutningum greindist ég með krabbamein í vélinda,“ sagði Svavar í viðtalinu. „Það byrjaði þannig að ég hafði fundið fyrir örðugleikum við að kyngja og var sendur í magaspeglun á Norðfirði en þá voru Berglind og krakkarnir komin í bæinn. Ég fæ strax að vita að ég sé með mein í vélindanu. Það sem gerðist í kjölfarið er að manni er kippt mjög snaggaralega inn í heilbrigðiskerfið.“