Fyrrverandi knattspyrnustjarnan og núverandi kyntröllið Rúrik Gíslason er staddur hér heima Íslandi. Eftir að hafa notið lífsins með fjölskyldu sinni og vinum í Adeje á Tenerife er hann kominn heim og er sáttur með lífið og tilveruna, ef marka má færslurnar hans á Instagram.
Rúrik birti í dag myndir af sér á Instagram sem hafa slegið í gegn hjá fylgjendum hans. Á nokkrum klukkustundum hafa tugir þúsunda hjarta hrannast inn á færsluna. Síðustu daga hefur hann verið á ferðalagi um Suðurlandið með íslenska ferðaþjónustufyrirtækinu Midgard.
Á myndunum sést hann, ber að ofan, aðeins í hvítri nærbrók, taka sundsprett í jökulköldu Markarfljótinu. Nærbrókin er úr hans eigin fatalínu, íslenska tískumerkisins BÖKK.
Á fyrstu myndinni stendur hann hugsi, með ökklana í fljótinu, líkt og grískt goð. Á annarri myndinni hefur hann snúið sér við, kannski sá hann lax, og stingur sér til sunds í jökulkalt fljótið. Á þriðju myndinni flýtur hann svo um í ánni, í fullkominni núvitund.