Ræddu glæpi forfeðra sinna

Kristín Amalía, Gunnar og Davíð ræddu glæpi feðganna Jens og …
Kristín Amalía, Gunnar og Davíð ræddu glæpi feðganna Jens og Hans Wiium sem eru forfeður þeirra Gunnars og Davíðs.

Í nýjasta þætti Gunnars og Davíðs í hlaðvarpinu Þvottahúsið voru gömul mál gerð upp. Í byrjun þáttarins les Gunnar upp yfirlýsingu sem snýr að syndum forfeðra þeirra Gunnars og Davíðs. Um er að ræða bein ættartengsl þeirra 8 kynslóðir aftur til sýslumannsfeðganna Jens og Hans Wiium. Feðgar þessir léku aðalhlutverk í lengsta sakamáli Íslandssögunar þar sem Sunnefa Jónsdóttir og Jón, bróðir hennar, voru dæmd til dauða fyrir blóðskömm í kringum 1740.

Í ljósi #MeToo-byltingarinnar ákváðu bræðurnir Gunnar og Davíð að taka þetta mál upp og brjóta til mergjar með góðri hjálp. Þeir fengu til sín Kristínu Amalíu Atladóttur, leikstjóra, menningarhagfræðing og kotbónda.

Kristín hefur síðustu ár kynnt sér líf allra þeirra 63 kvenna sem teknar voru af lífi hér á landi fyrir einmitt blóðskömm svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur lagt sérstaka áherslu á mál Sunnefu, enda við skoðun ein sú magnaðasta saga hvað varðar valdníðslu, ofbeldi og spillingu. 

„Það sem sótti að mér var, hvernig get ég leyft þessum konum með einhverjum hætti að njóta þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað,“ segir Kristin um þá ákvörðun að sökkva sér ofan í mál kvennanna. 

Kristín aflar sér heimilda um öll þau mál sem snúa að þessum 63 konum sem um ræðir en það sem hún hefur lagt áherslu á er fyrsta mál sem snýr að Halldóru Jónsdóttir frá Seyðisfirði.

Halldóru var nauðgað af föður sínum og eignaðist barn í kjölfarið. Faðirinn tekur barnið og grefur það meðan Halldóra er meðvitundarlaus eftir fæðinguna. Hann gróf það í gólf því það var frost úti og var barnið því grafið í anddyrið eða ganginn. Fyrir þetta eru þau bæði handtekin og dæmd fyrir blóðskömm og dulsmál. Faðirinn er tekin af lífi á vægast sagt hrikalegan hátt á Alþingi fyrir framan dóttur sína sem svo er flutt aftur austur.

Þrátt fyrir ítrekaðar náðunarbeiðnir var Jens Wiium, forfaðir Gunnars og Davíðs, gert, sem sýslumanni, að drekkja henni í nágrenni við Skriðuklaustur sem og hann gerði. Hann dró lappirnar með það en var svo skipað af amtmanni að útfæra þessa aftöku.

Sunnefumálið spannar heil 18 ár. Jens Wiium sýslumaður gætir Sunnefu og Jóns, bróður hennar, fyrstu mánuði eftir fyrsta dóminn sem var dauðadómur fyrir blóðskömm. Svo dó Jens á afar dularfullan hátt fyrir utan Seyðisfjörð og í kjölfarið tók sonur hans, Hans Wiium, sem var drykkfeldur, lauslátur og kærulaus sýslumaður í Vestmanneyjum, við öllum málum föður síns fyrir austan, meðal annars máli Sunnefu og Jóns.

Við tóku hræðileg ár þar sem Jens fúskaði hreinlega í öllum málum sem sneru að systkinunum og þeirra málaferlum. Hann náði að öllum líkindum að barna Sunnefu meðan hún var í haldi hans og klína því svo á bróður hennar sem þýddi í raun annan dauðadóm þeirra systkina fyrir blóðskömm.

Þessi frásögn var bræðrunum ekki auðveld. Þeir hlýddu þarna á alveg ótrúlega heimildarvinnu Kristínar sem sneri að glæpum forfeðra þeirra aðeins átta kynslóðir aftur í tímann. Glæpum sem þá voru aðeins tíðarandinn, spilling innan ríkis og kirkju og algjört réttindaleysi kvenna. „Það var komið fram við konur á þessum tíma sem húsdýr,“ sagði Kristín.

„Í ljósi kvenréttindabaráttu og #MeToo-byltingarinnar er hollt að sjá hvaðan við erum að koma. Það er hollt að horfast í augu við ofbeldið sem hefur viðgengist í aldir og átta sig á því að lygin og sársaukinn þrífast í myrkrinu. Heilun og jafnrétti mun aðeins nást ef við sem heild erum tilbúin að horfast í augu glæpi fortíðarinnar sem og að gangast við okkar eigin glæpum og lýsa yfir raunverulegri iðrun og áhuga á raunverulegum betrumbótum,“ segir Gunnar.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda