Hlaðvarpsstjórnandinn Fjóla Sigurðardóttir hefur ákveðið að stíga til hliðar í hlaðvarpsþáttunum Eigin konur sem hún stýrði með íþróttakonunni Eddu Falak.
Fjóla greindi frá ákvörðun sinni í gær og sagðist þakklát fyrir tímann í hlaðvarpinu. Edda segir í samtali við mbl.is að þær Fjóla hafi ekki skilið í illu. „Það að stýra hlaðvarpi tekur mikinn tíma frá manni. Það er auðvitað leiðinlegt að missa hana en fólk verður að gera það sem lætur því líða vel,“ segir Edda.
Edda og Fjóla stofnuðu hlaðvarpið í lok mars á þessu ári og hafa gefið út alls 24 þætti sem eru fríir. Nýverið hófu þær útgáfu þátta á bak við greiðsluvegg og þarf fólk að hafa áskrift að rásinni til að geta hlustað á þá.
„Ég er þakklátust fyrir hlustendur og fólkið sem sendi mér skilaboð til að hrósa mér, deila sinni reynslu og sínum sögum. Ég er þakklát fyrir traustið sem því fylgdi. Það voruð þið sem létuð mig aldrei missa trú á því sem ég var að gera,“ skrifaði Fjóla í kveðju sinni á Instagram.
Edda heldur áfram eftir skilnaðinn og tók upp þátt um helgina ásamt lögfræðingnum Kolbrúnu Birnu Bachmann sem var gestastjórnandi þáttarins. Aðspurð hvort nýr stjórnandi muni fylla skarð Fjólu segir Edda að það komi í ljós á næstunni.