Gógó gengur út með stæl

Hver á eftir annarri ganga þær fram á sviðið. Þær eru kynþokkafullar, sjálfsöruggar og seiðandi. Úr hátölurunum hljómar Það geta ekki allir verið gordjöss og nýkrýndar drottningar Íslands stíga ögrandi dans og láta sem þær syngi lagið.  

Það er 20.nóvember 2015 og við erum stödd á fyrstu sýningu Drag-Súgs á Gauknum. Þessi fyrsta sýning sló rækilega í gegn, viðburðurinn sem átti aðeins að vera ein sýning varð að mánaðarlegum dragsýningum.  En nú er komið að lokum. Síðustu sýningar Drag-súgs verða í Þjóðleikhúskjallaranum þann 12. og 13. nóvember, sýning sem ber titilinn Svanasöngur.

„Hún er sjálfsörugg. Hún er kynbomba. Hún er lauslát og heimsk. Hún er rosalega margt sem greyið hann Siggi var ekki. Gógó Starr er algjör fantasía!“ 

Við erum sest niður með Sigurði Starr, sem er betur þekktur sem dragdrottningin Gógó Starr. Gógó er ein af stofnendum Drag-Súgs, sem hefur rutt brautina fyrir blómstrandi dragsenu á Íslandi. Í dag starfar Siggi í fullu starfi sem dragdrottningin Gógó, en við hittum á hann rétt eftir heimkomu frá Færeyjum þar sem Gógó tróð upp á barnum Sirkus í Þórhöfn. 

Karakter Gógó hefur þróast talsvert frá fyrstu sýningu Drag-Súgs, en á sama tíma hefur hún hjálpað Sigga. 

„Ég leyfði sjálfum mér að tengjast mínum eigin kvenleika sem ég hafði ekki leyft mér að gera áður, og mér var fagnað fyrir það! Í dag er mikið af Gógó í Sigga, en hún hefur líka þroskast talsvert. Hún er orðin aðeins mannlegri, oggulítið dannaðari og Siggi er að verða aðeins meira sexy og svæsinn. Gógó hefur kennt Sigga heilan helling og þessi sköpunargleði haft mikil áhrif á það hvernig ég mynda samband við sjálfan mig,“ segir Siggi.

Ekki hægt að hundsa dragdrottningu

Siggi brennur fyrir að ögra staðalímyndum um kyn.

„Allar þessar hugmyndir um hvað er karlmannlegt eða kvenlegt og af hverju það skiptir máli. Ég leik mér að því að brjóta niður þessar kynjastaðalímyndir, til þess að raða þeim upp á nýjan máta. Þetta er partur af dragi sem heillar mig mikið, og margir draglistamenn gera mun betur en ég. Af hverju erum við bara með a eða ö þegar það er hellingur þar á milli?“ 

Frelsi er það sem einkennir drag, að hafa svigrúm til að skapa hliðarkarakter af sjálfinu.

„Ég held að drag komi til  því það er eitthvað innra með fólki sem það þarf að sleppa út, og það er svo innilega fallegt og öflugt. Sérstaklega fyrir hinsegin fólk, og þess vegna erum við oft áberandi þegar kemur að réttindabaráttunni. Það er ekki hægt að hundsa dragdrottningu! Þetta eru raddir sem ómögulegt er að þagga niður og þær munu aldrei hverfa!“ 

En dragi skal þó ekki ruglað við trans.

„Drag er eitthvað sem þú gerir, trans er það sem þú ert. Transfólk upplifir að hafa ekki fæðst í réttum líkama, á meðan að drag er listform. Það er til transfólk sem prófar sig áfram í gegnum drag, en ég get ekki talað um þá upplifun þar sem að það á ekki við um mig. Ég er hvítur SIS karlmaður og geri mér alveg grein fyrir því að ég er í talsverðri forréttindastöðu, en þess vegna reyni ég að nota þá rödd til að lyfta samfélaginu upp.“ 

Siggi stendur við þau orð en hann hefur verið virkur þátttakandi í samtökunum 78, og árið 2021 gengdi hann starfi framkvæmdastjóra hinsegin daga sem setur meðal annars upp Gleðigönguna í Reykjavík. 

Þegar Drag-Súgur byrjaði var lítil sem engin dragsena á Íslandi, og afar fáar sýningar í gangi. Drag-Súgur varð að vinsælustu dragsýningu landsins og með tímanum varð svo vinsælt að taka þátt að til urðu tvær sýningar, Drag-Súgur fyrir þá sem voru komnir aðeins lengra og Drag-Lab fyrir þá sem voru að stíga sín fyrstu skref eða ef flytjendur vildu prófa nýtt efni fyrir framan áhorfendur.    

Nú er senan í veldisvexti og fjölbreyttar sýningar í boði og dragskemmtikraftar orðnir fastagestir í fjölbreyttum veislum, brúðkaupum, skemmtunum, tónlistarmyndböndum svo eitthvað sé nefnt. 

Það má því vel furða sig á að hópurinn sé að leggja niður sýningarnar, þrátt fyrir mikla velgengni. En Siggi segir að það sé kominn tími á eitthvað nýtt og spennandi og hann efast ekki um að dragsenan muni halda áfram að blómstra. Gógó er líka ekki að fara neitt þó Drag-súgur syngi sinn síðasta söng. Framundan eru spennandi tímar þar sem Gógó mun meðal annars stíga sín fyrstu skref í sjónvarpi sem djammfréttakona á Hringbraut.  

„Dragunnendur mega ekki missa af þessari sýningu, þetta verður rosalegt! Það er nýbúið að gera upp sviðið í Þjóðleikhúskjallaranum og þar verða risastór hæfileikabúnt, dragdrottningar, dragkóngar og dragskrímsli. Áhorfendur mega búast við að skemmta sér konunglega. Það verður mikið sungið, hlegið, hárkollur, glimmer, dans og drama og án efa töfrar í loftinu!“ og Gógó Starr mun, eins og henni einni er lagið, ganga út með stæl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda