Elísa Elínardóttir skrifaði nýverið bók um hundinn sinn, Fenri, sem er af tegundinni Malamute, og hans sýn á nútímasamfélagi. Meinfyndin samskipti hans við eiganda sinn kitla hláturtaugarnar en á sama tíma eru þau grafalvarleg, sem gerir kímnina enn augljósari. Bókin er uppsett sem eins konar dagbókarfærslur sem Elísa skrifar út frá hugarheimi Fenris, sem hún býr til með einskærum skáldskap með því að rýna í atferli hans. Röð áfalla í lífi Elísu gerðu það að verkum að hún ákvað að setjast við skriftir. Til þess eins að fá ró og næði frá áhyggjum, vanlíðan og kvíða. Að hennar sögn hefur hún verið beitt öllum tegundum ofbeldis í gegnum tíðina sem hefur vitaskuld haft sínar afleiðingar í för með sér.
„Ég var í erfiðu sambandi við barnsföður minn og þegar eldri strákurinn okkar var tveggja ára datt okkur í hug að fá okkur hund. Við urðum fljótt vör við fordóma gagnvart hundategundinni og þess vegna byrjaði ég að skrifa grínfærslur um hann. Eiginlega til þess slökkva í neikvæðum hugmyndum fólks á þessari hundategund,“ segir Elísa. „Ég hef oft fengið holskeflu yfir mig af drullu frá fólki á hundasvæðunum sem iðulega spyr mig hvað í ósköpunum ég sé að gera með þessa drápsvél þarna og eitthvað svona,“ lýsir hún. „Mig langaði til þess að sýna skoplegu hliðar þessarar hundategundar því þetta eru líka mjög góðir heimilishundar. En í röngum höndum geta allir hundar verið hættulegir,“ segir hún ákveðin.
Elísa segir að skrifin hafi gert sér gott. Þau hafi verið henni sem ákveðin sálræn meðferð í gegnum erfiða tíma sem hún hefur gengið í gegnum. Þegar hún er við skriftir geri það henni kleift að nota skopskyn sitt og fjörugt ímyndunarafl. Þar með eigi hún það til að gleyma stað og stund hins raunverulega lífs.
„Þetta var eiginlega hálfgerð útrás fyrir mig sem vatt í raun aðeins upp á sig,“ segir Elísa um bókarskrifin, en bókin fékk heitið Dagbók Fenris - Átakanleg saga hunds í hlekkjum nútímasamfélags. „Það er þerapía fyrir mig að skrifa. Áhyggjur mínar hverfa þegar ég get notað húmorinn og hvatvísina til þess hripa eitthvað niður á blað. Mér finnst gaman þegar fólk hefur gaman að því sem ég skrifa, það gefur mér mikið,“ segir Elísa. „Það hafa margir hundaeigendur haft samband við mig og tengt við þá hegðun Fenris sem ég hef verið að lýsa og finnst þetta skemmtilegt sjónarhorn. Þannig ég hef fengið mjög góðar viðtökur.“
Bókin fjallar um sjónarhorn hundsins Fenris og með hvaða hætti hann upplifir mannheima og lífið sjálft með Elísu og fjölskyldu. Elísa segist gera óspart grín að sjálfri sér í bókinni og að grínið sé fremur ýkt. Hugmyndin er skemmtileg þar sem hundar geta í rauninni ekki átt venjubundin samtöl við mannfólk því þeir tala ekki mannamál. Tjáningarformið sem menn og hundar nota eru með frábrugðnum hætti en hægt er að lesa í svipi og hegðun.
„Ég er búin að búa til einhvern karakter sem mér finnst hann vera og mér finnst ég geta greint hugsanir hans bara með einu augnaráði sem hann gefur mér,“ segir Elísa. „Hann er stór og mikil persóna. Rosalega sjálfstæður, sem getur reynst mörgum mikil erfiði upp á þjálfun að gera. Fenrir kann allar skipanir og er mjög hlýðinn en hann er uppátækjasamur og gerir líka hluti sem hann veit að hann má ekki. Þegar hann gerir eitthvað af sér þá er ég fljót að grípa það og smyrja svolítið ofan á það svo að sagan af því verði ýktari og skemmtilegri. Ég bý bara til einhverjar samræður sem verða okkar á milli með því að lesa í hans atferli,“ segir hún og hlær. „Ég leiði oft hugann að því hvað það er sem hann er að hugsa. Hvað er að gerast í hausnum á honum sem leiðir til þess að hann fer að grafa í blómabeðinu eða sé með þennan svip eða hinn. Það er það sem ég ýki og bý til sögur og samræður í kringum.“
Lífshlaup Elísu hefur ekki alltaf verið vandalaust. Mörg áföll hafa yfir hana dunið í gegnum tíðina sem teygja anga sína langt aftur í æsku. Alvarleg áfallaröskun hefur fylgt henni í kjölfarið en Elísa hefur notað húmor og trúðslæti sem sinn skjöld í þeirri baráttu. Segist hún vera sérfræðingur í samskiptum við ofbeldismenn því sjálfsvirðingin hefur verið við frostmark til fjölda ára.
„Við vorum bæði óvirkir alkóhólistar og ég hef verið óvirk núna í tæp fimm ár. Þegar við kynnumst þá er hann uppi á Litla-Hrauni. Á þessum tíma var ég nýkomin úr alvarlegu ofbeldissambandi og var alls ekki með hausinn á réttum stað. Ég hef verið í ofbeldissamböndum gegnum gangandi þannig ég hef ekki gert miklar kröfur á það hvernig það er komið fram við mig í nánum samböndum,“ segir Elísa og bendir á að hún hafi alla tíð verið að eiga við lágt sjálfsmat og álit á sjálfri sér.
„Fjölskyldan mín var ekki ánægð með þetta. Það voru allir brjálaðir yfir því að ég væri aftur að fara að vera með manni sem var inni á Litla-Hrauni, en þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég hafði kynnst manni sem afplánaði á Litla-Hrauni. Ég hafði gert þau mistök áður.“
Hvernig kynnist maður manni sem situr inni á Litla-Hrauni?
„Þetta er að stórum hluta afleiðing æskunnar. Ég er fullviss um það. Ég sem barn var lögð í einelti og upplifði útskúfun félagslega. Svo æfði ég handbolta alla barnæskuna og þótti afburðar góð og þar kom upp afbrýðissemi á meðal stelpnanna sem ég æfði með sem gerði það að verkum að ég var útilokuð ennþá meira. Og til að bæta gráu ofan á svart þá voru líka erfiðleikar heima hjá mér. Ég var erfið og á þeim tíma með ógreint ADHD. Mér fannst ég ekki eiga neinn griðarstað þegar ég var yngri. Þess vegna fór ég að leita svolítið í óreiðuna. Sprakk svolítið út á unglingsárunum og þekkti ekkert annað en taka niður fyrir mig. Leyfði öllum að koma hvernig sem er fram við mig,“ útskýrir Elísa.
„Ég þekkti einn aðila sem var þarna inni á þessum tíma og einhvern veginn kom hann okkur saman. Þetta byrjar svo með því að hann fer að hringja í mig og ég nota hann svolítið til þess að pústa. Losa aðeins um allt það sem ég hafði verið að ganga í gegnum og þannig styrktust tengslin. Í rauninni hófst þetta allt vegna þess að hann var einmanna. Þegar þú ert á gangi með ellefu öðrum karlmönnum þá vantar þig örugglega eitthvað annað í tilveruna. Fá útrás einhvers staðar annars staðar. Það var mikilvægt fyrir hann að geta hugsað um lífið fyrir utan. Svo fórum við að hittast og áður en ég vissi þá var þetta orðið samband.“
„Þegar hann kom út af Litla-Hrauni þá áttum við rosalega gott líf saman í fyrstu. Vorum bæði edrú og lífið lék við okkur. Við eignuðumst svo eldri son okkar, fengum okkur þennan hund og allt virtist vera nokkuð heilbrigt hjá okkur. Við vorum þó alltaf að díla við ákveðna djöfla, eins og fylgir þegar maður er fíkill. En svo verð ég ófrísk af yngri drengnum okkar og þá fer að halla verulega undan fæti. Hann fer að detta reglulega í það og var kominn í mikla neyslu. Á endanum labbar hann svo bara út af heimilinu frá okkur. Við höfum varla séð hann meir.“
Elísa segir öll áföllin markerandi fyrir þá manneskju sem hún er í dag. Hún eigi það þó til að skammast sín fyrir sögu sína en á sama tíma búi hún yfir miklum styrk, eftir að hún lagði upp í andlega vegferð og fór að hlúa að sjálfri sér. Nú sé hún í endurhæfingu hjá Janus í gegnum Virk starfsendurhæfingarsjóð. Segir hún það vera ómetanlegt tækifæri og lærdómsríkt ferli sem hefur verið henni til framdráttar.
„Það er búið að gera allan fjandann við mig. Ég hef verið beitt öllum tegundum ofbeldis í gegnum tíðina. Líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, tilfinningalegt, fjárhagslegt og starfrænt ofbeldi - ég hef því miður verið beitt þessu öllu,“ segir Elísa. „Þegar þú hefur farið í gegnum svona mikið ofbeldi þá ertu komin inn í ákveðinn vítahring. Þú heldur að þú eigir ekkert annað skilið og að þetta sé eitthvað sem þú hefur bara skapað þér sjálf. Þú sannfærir þig um að þú eigir ekkert annað skilið. Vegna þess að þetta gerist aftur, og aftur og aftur. Þú hefur enga stjórn á því,“ segir hún og lýsir lágu sjálfsmatinu.
„Ég held að ég hafi alltaf farið í þetta sama far aftur vegna þess að ég er svo góð í að tipla á tánum. Ég kann svo vel að umgangast ofbeldismenn. Ég er sérlega góð í að vera meðvirk og leyfa þeim að koma illa fram við mig. Ég veit hvað gerist, ég þekki þessar aðstæður best. Þess vegna er voða auðvelt að velja þær aftur og aftur,“ segir Elísa jafnframt.
„Ef ég færi svo í samband með manni sem þykir eðlilegur þá værum við alls ekki á sama stað lífsreynslulega séð. Ég veit ekki hvort ég hefði sjálfstraust í það eða hvort það myndi hreinlega geta gengið. Maður er sjálfur svo rosalega veikur þegar maður hefur farið í gegnum svona mikið ofbeldi, það er að svo mörgu að huga þegar maður reynir að lækna það sem situr eftir.“
„Síðan eldri strákurinn minn var tæplega eins árs hef ég einbeitt mér mjög mikið að sjálfri mér og því að vera í stöðugum bata. Ég fór í meðferð vegna þess að ég var svokallaður fúnkerandi fíkill. Ég var í fullri vinnu og hugsaði um barnið mitt og gerði allt sem þurfti að gera, en þegar allt var komið í ró á kvöldin og ég búin að svæfa strákinn þá þurfti ég alltaf aðeins að fá mér,“ segir Elísa.
„Svo kom upp atvik sem ég er ekki stolt af en það fékk mig til þess að vilja breyta mér og lífsmynstrinu. Eina nóttina vakna ég upp við mikinn grátur í stráknum og mér finnst eins og eitthvað sé að. Ég reyni að finna út úr því hvað sé að hrjá hann. Tek hann til mín, ríf hann úr öllum fötunum og finnst ég sjá svarta bletti um allan líkamann á honum. Ég hugsaði með mér hvað ég gæti gert, ég vissi að ég gæti ekki keyrt með hann á sjúkrahús vegna þess að ég var undir áhrifum. Svo leið ekki á löngu þar til ég átta mig á því að þessir svörtu blettir voru tyggjó tattú. Þarna sagði ég stopp við sjálfa mig. Það var ekki í boði fyrir mig frá og með þessum tímapunkti að vera að ala upp barn og vera ekki allsgáð á sama tíma. Ég ákvað að fara inn á Vog og hef staðið mig vel síðan,“ segir Elísa full af eldmóð en fimm ár eru liðin frá því hún sagði skilið við alla vímugjafa.
„Ég er ekki hlynnt því að foreldrar séu ölvaðir í návígi við börnin sín. Þó það sé einhvern veginn samfélagslega samþykkt. Hvað ef eitthvað gerist? Börnin verða veik eða eitthvað kemur upp á? Þá vil ég frekar geta tekið á því ókennd og af fullum hug. Það að hafa eignast tvo heilbrigða stráka hefur bjargað lífi mínu. Þeir eru tilgangurinn minn og drifkraftur. Ég vil að þeir alist upp í heilbrigðu umhverfi því það er það sem þeir eiga skilið og ég vil geta veitt þeim allt það öryggi sem þeir eiga skilið. Auðvitað hafa komið erfiðir tímar og slæmar uppákomur átt sér stað sem hefðu vel getað slegið mig út af laginu en ég hef staðið þá storma af mér allsgáð.“
Elísa stundar nú nám við Borgarholtsskóla og leggur allt sitt kapp á að eiga gott líf. Bakland hennar er sterkt en hún segir móður sína og stjúpföður hafa verið stoð sín og stytta í gegnum allt. Synir hennar tveir hafa glætt hana mikilli gleði og nýrri hugsjón og er ást hennar til þeirra nánast áþreifanleg.
„Ég mun aldrei geta flúið sjálfa mig þess vegna þarf ég að einbeita mér að því vinna í sjálfri mér og þeim áföllum sem ég hef upplifað. Það er ekki alltaf auðvelt en mér finnst ég standa mig vel og ég veit það, frá innstu og dýpstu hjartarótum að ég er að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að standa mig vel og veita strákunum mínum öryggi og umhyggju. Ég er í fyrsta skiptið stolt af sjálfri mér og því sem ég hef afrekað fyrir mig og strákana," segir Elísa að lokum.