Hætti að vinna sem lögfræðingur og lét drauminn rætast

Elva Björk Barkardóttir er lögfræðingur sem ákvað að láta drauminn …
Elva Björk Barkardóttir er lögfræðingur sem ákvað að láta drauminn sinn rætast.

Elva Björk Barkardóttir lögfræðingur rekur fyrirtækið Verandi ásamt Rakel Garðarsdóttur en það framleiðir húð- og hárvörur úr landbúnaðarafurðum sem annars myndu sóast. Á dögunum ákvað hún að leysa gjafahausverk landsmanna og stofnaði netverslunina Akkúrat en þangað getur fólk fundið hina fullkomnu jólagjöf, afmælisgjöf eða tækifærisgjöf.

Hvers vegna hættir lögfræðingur að vinna við lögmennsku og fer út í að þróa umhverfisvænar vörur og opna netverslun?

„Ég vann sem lögfræðingur í mörg ár og það var fínt en mér líður eins og ég sé á réttum stað núna. Drifkrafturinn er í eigin rekstri. Pabbi minn rekur fyrirtæki svo kannski er þetta í blóðinu. Svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér – hvort ég fari í lögfræðina aftur,“ segir Elva Björk en samhliða Akkúrat rekur fyrirtæki sem notar útlitsgallað grænmeti til að búa til húðvörur. 

„Við notum útlitsgallaðar gúrkur, kaffikorg, kakóhusk, bygg, krækiberjahýði og bjóraffall meðal annars í vörurnar okkar. Brjálæðislega góð hráefni fyrir húð og hár en hafa ekki nýst hingað til. Við erum að koma með nýjar vörur á markað í nýju útliti og á leið á erlenda markaði með vörurnar, þannig það eru spennandi tímar framundan. Þar á undan var ég með kjúklingabóndi sem framleiddi vistvænan kjúkling,“ segir hún. 

Þegar hún er spurð um netverslunina Akkúrat segist hún hafa haft þessa hugmynd lengi því henni fannst vanta stað með gjafahugmyndum. Hún segir að Covid hafi líka haft áhrif. 

„Ég hef séð fyrirtæki sem sérhæfa sig í gjöfum spretta upp víða erlendis og svo varð sprenging í þessum geira í Covid. Fólk er meira og meira að færa sig í netverslun. Mér fannst vanta að það væri einhver ein síða sem væri með gott og fjölbreytt úrval af vönduðum vörum en líka gjafabréf. Ég tók þetta aðeins lengra og býð einnig uppá fjölbreytt úrval af tilbúnum gjafaboxum sem er búið að velja í. Það gerir fólki kleift að fá hugmyndir af samsetningu en flýtir einnig fyrir ferlinu. Þú getur í raun farið inn á síðuna, valið þér gjafabox eða búið til þitt eigið á nokkrum mínútum og fengið sent heim innpakkaða gjöf sama kvöld. Auðveldara og þægilegra verður það ekki. Að auki bjóðum við upp á persónulega alhliða þjónustu við fyrirtæki þegar kemur að gjöfum,“ segir Elva Björk. 

Er fólk almennt í miklum vandræðum þegar kemur að gjöfum?

„Það getur alveg verið smá hausverkur. Það þarf að velja gjöf eða gjafabréf, fara á einn, tvo eða þrjá staði, kaupa kort og pakka inn. Þetta er alveg smá ferli. Og hvað þá ef þú vilt blanda saman vörum og gjafabréfum. Ég held að það sé alltof algengt að fólk kaupi bara „eitthvað“ hreinlega vegna þess að það hefur kannski ekki tíma til þess að eyða í gjafaferlið. Einnig veit ég að það getur verið tímafrekt fyrir fyrirtæki að finna gjafir fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Dýrmætur tími. Og því hentugt fyrir fyrirtæki að nýta sér þjónustu hjá AKKÚRAT.“

Eftir að Elva Björk varð móðir fór hún að hugsa meira um gjafir. Hún segir að barnaafmælismenning þjóðarinnar kalli á gjafakaup og hún vill hafa gjafirnar sínar metnaðarfullar. 

„Ég byrjaði meira að spá í þessu eftir að ég eignaðist börnin mín og byrjaði að halda afmæli og fara meira í barnaafmæli. Ég hef sjálf haft gaman af því að gefa upplifanir í bland við einhverja fallega vöru en þá hef ég þurft að fara kannski á tvo til þrjá mismunandi staði til þess að kaupa eina gjöf. Og þá átti ég eftir að pakka inn! Það eru svo mörg skipti sem ég hefði verið til í að geta notað síðu eins og AKKÚRAT þannig ég ákvað bara að búa hana sjálf til. Ég legg mikla áherslu á að hafa aðeins vandaðar vörur, vörur sem hafa notagildi og fjölbreytt úrval af gjafabréfum.“

Þegar hún er spurð að því hvað henni sjálfri sinnist skemmtilegast að fá í gjafir nefnir hún eitthvað sem hún geti upplifað. Einnig nefnir hún húðvörur, sælkeravörur og skartgripi. 

„Gjafabréf í leikhús, út að borða, í dekur eða aðra skemmtilega upplifun gefur manni svo mikið. Þú hefur eitthvað til að hlakka til ásamt því að skapa skemmtilegar minningar. Það er líka alltaf gaman að fá fallega gjöf eins og skartgripi eða eigulegan mun sem minna mann á manneskjuna sem gaf manni hana. Það er fallegt. Mér finnst líka æðislegt þegar börnin mín fá gjafabréf í einhverja upplifun. Það ýtir undir skemmtilega samveru með börnunum.“

Hvað er það sem drífur þig áfram í lífinu?

„Mér fæ mikið út úr því að skapa eitthvað nýtt og láta hugmynd verða að veruleika. Það er svo skemmtilegt að fara í gegnum ferlið frá upphafi. Ég er heppin að hafa getað starfað við það sem ég hef áhuga á og finnst skemmtilegt. Það eru forréttindi og ég er mjög þakklát fyrir það. Það sem drífur mig áfram í að gera vel og gera enn betur eru stelpurnar mínar. Það er kannski klisja en eftir að ég eignaðist börn þá verða þau drifkrafturinn fyrir öllu sem ég geri.“

Hver verður jólagjöfin í ár? 

„Jólagjöfin í ár er klárlega blanda af upplifun og fallegri eða nytsamlegri vöru. Það eru allir sjúkir í upplifanir eftir Covid. Fólk ekki búið að fara út að borða, í leikhús, dekur og svo framvegis í langan tíma og allir þyrstir í einhverja skemmtun. Það er líka svo gaman að hlakka til einhvers.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda