Myndi bjarga brúðarkjólnum úr brennandi húsi

Birgitta Haukdal var að gefa út nýtt jólalag ásamt Vigni …
Birgitta Haukdal var að gefa út nýtt jólalag ásamt Vigni Snæ.

Tónlistarmaðurinn Birgitta Haukdal hefur verið í sviðsljósinu síðan hún gerði garðinn frægann með hljómsveitinni Írafár. Hún lifir annasömu lífi sem gift tveggja barna móðir. Ásamt því að vera að vinna í tónlist síðustu árin hefur hún skrifað barnbækur um Láru sem hafa notið vinsælda. Nú var hún að gefa út nýtt jólalag með Vigni Snæ. Lagið heitir Ég man svo vel um jólin og á án efa eftir að njóta vinsælda og koma þjóðinni í jólaskap. 

„Við Viggi höfum talað um það í mörg ár að gefa út jólalag og loksins fundum við rétta lagið. Þetta er erlent lag frá 1971 sem hefur lítið sem ekkert heyrst hér á landi en margir þekkja eflaust. Eitt kvöldið þegar ég sat við píanóið heima varð mér hugsað heim til Húsavíkur og hvernig jólin voru heima þegar ég var barn. Textinn kom því til mín áreynslulaust og hratt. Raddir okkar Vigga eru ólíkar og hljóma skemmtilega saman, svo úr laginu varð dúett,“ segir Birgitta í samtali við Smartland. 

Hver er þín morgunrútína?

„Morgnarnir mínir eru ekki alltaf eins þar sem vinnan mín er á allskonar tímum. Mér finnst mjög notalegt að koma börnunum í skólann og fara svo sjálf af stað. Þannig þegar allir eru farnir í skóla eða vinnu þá fæ ég mér morgunmat og kaffi í rólegheitunum og græja mig svo. Að eiga klukkustund ein með sjálfri mér finnst mér ofsalega notalegt. Ég get þó ekki sagt að sú sé raunin alltaf því aðra daga hendist ég út á undan eða um leið og hin og gríp mér epli eða kaffi á útleiðinni.“

Borðar þú morgunmat?

„Já, hafragrautur, epli og kaffi er algengasta blandan hugsa ég, en ég er þó ein af þeim sem get borðað allt á morgnanna. Ég man þegar við vorum á Balí þá voru kjúklingaréttir og núðlur á morgunverðarhlaðborðinu. Þá fannst mér sjálfsagt að borða það eldsnemma.“

Hver er besta kaka sem þú hefur smakkað?

„Ég er svo heppin að eiga systur sem á kökubúðina Bake me a wish í Garðabæ svo nánast vikulega smakka ég nýjar kökur. Nýjasta æðið mitt er sjúklega góð passion- og sítrónubaka sem hún var að byrja selja. Ferskir og léttir eftirréttir eru í uppáhaldi núna hjá mér.“

Birgitta ásamt dóttur sinni.
Birgitta ásamt dóttur sinni.

Á hvaða tónlist hlustar þú á laugardagskvöldi?

„Við hlustum oft á jazz þegar við erum að elda eða einhverja „playlista“ á Spotify sem eru jafnvel með lágstemmd tökulög úr ýmsum áttum. Annars spilum við mun meiri tónlist hér heima en hlustum. Við Bensi deilum þeim áhuga að elska að sitja saman við píanóið og spila og syngja saman þegar allir eru komnir í ró.“

Hvað er lúxus í þínum huga?

„Þessar stundir heima með fjölskyldunni. Að elda góðan mat í rólegheitum, spila eða horfa á mynd með krökkunum og setjast svo með manninum mínum við flygilinn þegar börnin eru sofnuð. Svona kvöldstundir eru yndislegar. Mér finnst líka lúxus að fara með fjölskyldunni í skíðaferðir. Hvort sem er norður eða erlendis. Það eru fríin sem ég held mest upp á.“

Ef þú þyrftir að bjarga einni flík úr eldsvoða, hver er yrði fyrir valinu?

„Ég tengist fötum og hlutum lítið tilfinningalega og á erfitt um svar. Kannski brúðarkjóllinn minn? Ekki það að ég ætli mér aftur í hann í framtíðinni svo sem. En væri gaman að sýna dóttur minni hann þegar hún verður fullorðin.“

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Man ekki eftir einstöku ráði en ég hef alltaf hlustað á magann eða „The gut feeling“ og tekið ákvarðanir þannig. Ætli það sé þá ekki að vera ég sjálf. Að láta umhverfið og aðra ekki stjórna mínum hugsunum og ákvörðunum og sitja sátt í sjálfri mér. Þannig að ef ég ætti að gefa öðrum ráð væri það eflaust. Vertu sönn/sannur. Í einlægninni býr sannleikurinn.“

Hvert sækir þú innblástur þegar kemur að tísku?

„Ég er mjög kærulaus í tískustraumum og stefnum. Fer bara í það sem lætur mér líða vel í hverja stund. Ég er mikið kameljón ef svo má að orði komast. Elska allskonar strauma og blanda þeim saman eftir í hvað skapi ég er þann daginn.“

Hvert er besta tískuráð allra tíma?

„Ekki klæða þig upp fyrir aðra. Gerðu það fyrir þig.“

Hvað getur fólk gert til að breyta heiminum?

„Úff stór spurning. Sýnum skilning og verum góð við hvort annað. Skilningsríkt samfélag er góður grunnur til að byggja á.“

Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án?

„Ég elska að prófa nýjar snyrtivörur og sennilega engin sem ég gæti ekki lifað án. Ég er mjög hrifin af Dr. Braga vörunum. Ég er búin að nota anditsgelið og maskann þeirra í mörg ár. Vörur sem eru án allra aukefna og henta mér ofsalega vel.  Eins elska ég förðunarvörurnar frá Mac og þaramaskann frá Blue lagoon svo eitthvað sé nefnt. Þessar vörur endurnýja ég reglulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda