Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var áberandi í þriðja þætti Verbúðarinnar sem sýndur var í ríkissjónvarpinu í gær. Enn sem fyrr klóruðu yngri kynslóðir sér í kollinum þegar þáverandi forsætisráðherra landsins, sem leikarinn Benedikt Erlingsson túlkaði af sinni einskæru snilld, fór í viðtal við erlenda sjónvarpsstöð á sundskýlu.
Þeir sem eldri eru muna vel eftir þessu uppátæki forsætisráðherrans, en viðtalið var tekið hinn 9. október árið 1986. Tveimur dögum seinna fór fram fundur Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhails Gorbatjovs leiðtoga Sovétríkjanna í Höfða. Því var fjöldi erlendra fjölmiðlamanna kominn hingað til lands.
Í umfjöllun DV frá 10. október sama ár segir að Steingrímur hafi meðal annars rætt um draugagang í Höfða í viðtalinu en viðtalið tók Tom Brokaw, fréttastjóri bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC. Viðtalið var fyrir fréttaþátt Brokaws á NBC, Nightly News with Tom Brokaw.
Benedikt, sem túlkaði Steingrím á sundskýlunni í þætti gærkvöldsins, ræddi við Smartland fyrir þáttinn og greindi þar frá því að hann hefði þurft að þyngja sig um tíu kíló fyrir hlutverkið.
„Ég borðaði allt sem mér finnst best eins og rjómaís með rjóma, súkkulaði og gott brauð frá Brauði og co. Svo borðaði ég mikið af kökum og drakk bjór og vín í öll mál. Þetta var hrikalegt tímabil og ekki fyrir hvern sem er,“ sagði Benedikt.