Leikkonan Lindsay Lohan ætlar ekki að leika sama leik og vinkona hennar Paris Hilton og halda þriggja daga brúðkaup með pompi og prakt. Lohan segist bara vilja lítið brúðkaup með nánustu vinum og fjölskyldu.
Lohan og fjármálamaðurinn Bader Shammas trúlofuðu sig síðastliðið haust og eru farin að skipuleggja brúðkaupið.
„Ég vil halda lítið og náið brúðkaup, bara, þú veist, fjölskyldan í forgrunni og virkilega fallegt,“ sagði leikkonan í viðtali við Good Morning America á föstudag í síðustu viku. Lohan segist ekki sjá fyrir sér að hún breytist í skrímsli við skipulagningu á brúðkaupinu. Sagðist hún vanalega vera of upptekin við að tryggja að öllum liði vel í veislum sem hún hefur haldið í gegnum tíðina.
„Ég verð örugglega meira þannig. Ég er farin að skoða staði til að halda brúðkaupið. Ég er búin að tala við vinkonu mína um kjólinn. En ég vil gera allt rétt, og ég vil gefa öllu sinn tíma,“ sagði Lohan.
Hvað varðar kjólinn sér hún fyrir sér að fá lánaðan kafla úr brúðkaupsbók Hilton og klæðast nokkrum kjólum. Hilton sjálf var í nokkrum dressum, enda stóðu veisluhöldin yfir í þrjá daga.
Shammas bað Lohan að trúlofast sér í nóvember á síðasta ári. Þau kynntust þegar hún bjó í Dúbaí, en þangað flutti Lohan árið 2018 til að hefja nýtt líf.