Hjördís og Árni skipulögðu leynibrúðkaup

Hjördís Ýr og Árni giftu sig þann 12. febrúar síðastliðinn.
Hjördís Ýr og Árni giftu sig þann 12. febrúar síðastliðinn. Ljósmynd/Golli

Hjördís Ýr Johnson, framleiðslustjóri hjá StudioM, gekk að eiga Árna Friðleifsson, aðalvarðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á dögunum. Brúðkaupið fór fram á heimili þeirra hjóna en undirbúningur þess litaðist af miklu ráðabruggi. Höfðu þau hjónin lagt upp með að koma fjölskyldumeðlimum sínum að óvörum og tókst þeim það með glæsibrag þó svo að heimsfaraldurinn hafi staðið í vegi fyrir upphaflegu plani. 

„Það hafði staðið lengi til hjá okkur að ætla að gifta okkur,“ segir Hjördís Ýr. „Við höfðum farið í alls konar hringi með þetta en vildum finna leið til þess að koma öllum börnunum okkar og mökum þeirra saman í sínu fínasta pússi án þess að þeim færi að gruna eitthvað,“ segir hún jafnframt og út frá þessum pælingum hófst leynimakkið.

„Sú hugmynd fæddist svo að hafa þetta bara heima í notalegri stemningu. Ég tók upp á því að segja við börnin okkar að ég hefði unnið í starfsmannahappdrætti í vinnunni að fá matreiðslumeistara heim,“ segir Hjördís og hlær. „Við sögðum þeim að vinningurinn hafi bara verið fyrir sex manns en þar sem okkur langaði að hafa þau öll hefðum við bætt við og greitt á milli og alls konar svona,“ útskýrir hún en upphaflega stóð það til hjá þeim að kvænast hinn 4. desember.

Fjölskyldan skálaði í kampavíni í tilefni dagsins.
Fjölskyldan skálaði í kampavíni í tilefni dagsins. Ljósmynd/Golli

„Það var búið að græja allt. Hringana, kjólinn og allt saman en svo komu upp veikindi í fjölskyldunni nokkrum dögum fyrir áætlaðan dag. Það kom ekki annað til greina en að fresta þessu þá,“ segir hún. Börn Hjördísar og Árna eru á aldrinum 19-25 ára og því gat það reynst vandasamt að ná að hóa allan skarann saman. Fyrir utan alla hina aðilana sem komu að því að gera daginn sem eftirminnilegastan.  

„Sumir eru í vaktavinnu og annað sem hafði áhrif á skipulagið og dagsetningar,“ segir Hjördís og þau Árni ákváðu þá að færa brúðkaupsdaginn til 22. janúar. „Svo leið tíminn og allt leit út fyrir að vera að smella þangað til Þórólfur fyrirskipaði tíu manna samkomutakmarkanir,“ segir hún og getur ekki annað en hlegið. „Við Árni vissum vel að við yrðum fleiri en tíu þó svo að okkar innsta kjarna væri einungis boðið. Við höfðum bókað ljósmyndara, kokk, tónlistaratriði og prest og allt þetta,“ útskýrir Hjördís Ýr sem gat að sjálfsögðu ekki hugsað sér að fara í bága við reglur sóttvarnaryfirvalda. „Landlæknir býr hérna hinum megin við götuna og presturinn sem ætlaði að gifta okkur þennan dag er sjálfur giftur ríkislögreglustjóra og Árni minn er aðalvarðstjóri. Þannig þetta var borin von,“ segir hún og hlær. 

Hjördís segir börnin hafa klórað sér svolítið í hausnum á þessum tímapunkti og ekki skilið hvers vegna þurfti að fresta matarboðinu enn eina ferðina – þau væru nú bara akkúrat tíu. „Þarna þurftum við að beita útsjónarsemi til að það myndi ekki komast upp um okkur og ná að selja þeim það að fresta þessu einu sinni enn,“ segir hún. „Þá var dagurinn 12. febrúar ákveðinn. Það var dagur með auka bónus því sá dagur er afmælisdagur mömmu minnar,“ segir Hjördís. „Mér fannst það voða skemmtilegt. Mamma varð áttræð þennan dag og hélt upp á það á Tenerife.“ 

Árni og Hjördís fundu strax að þau ættu samleið.
Árni og Hjördís fundu strax að þau ættu samleið. Ljósmynd/Golli

Heppnaðist fullkomlega

Loks rann stóri dagurinn upp, laugardagurinn 12. febrúar 2022. Afnám sóttkvíar og samkomutakmarkanir höfðu verið rýmkaðar deginum áður og tímasetningin því fullkomin. Hjördís segir að engan hafi verið farið að gruna neitt en hún hafði samið við tónlistarflytjandann, ljósmyndarann og prestinn að hittast fyrir utan heimili þeirra Árna og ganga inn um dyrnar öll saman á ákveðnum tímapunkti, dyrnar yrðu ólæstar.

„Öll börnin okkar og makar mættu klukkan hálf sjö. Allir svo fínir og sætir og við fengum okkur að borða og svona. Svo er klukkan að ganga níu þegar GDRN, Golli ljósmyndari og Adda Steina prestur, labba inn í stofu í fullum skrúða. Golli byrjaði strax að taka myndir og fangaði nokkur skemmtileg augnablik því allir urðu svo hissa og svipirnir eftir því,“ segir Hjördís og minnist dagsins með miklum hlýhug. 

„Ein dóttir okkar stóð þá upp og öskraði; „ég vissi það, ég vissi það.“ Þá hafði hana grunað eitthvað,“ segir Hjördís og segir að tilfinningarnar hafi verið miklar á meðal fjölskyldumeðlima á þessari stundu. „Þetta var svo falleg stund. Hin dóttir okkar var bara eitt stórt spurningamerki en þegar hún fattaði svo hvað var að gerast fór allt á fullt og tárin fóru að streyma niður kinnar hennar,“ segir Hjördís sem er svo þakklát fyrir samheldnina og kærleikann sem býr í fjölskyldu þeirra Árna.

Tónlistarkonan GDRN söng fyrir brúðhjónin og fjölskyldumeðlimi.
Tónlistarkonan GDRN söng fyrir brúðhjónin og fjölskyldumeðlimi. Ljósmynd/Golli

„Það voru svo miklar tilfinningar í gangi en það var svo fallegt og gaman – allt á sama tíma. Þetta heppnaðist fullkomlega. Var alveg eins og við höfðum óskað okkur og séð fyrir okkur,“ segir Hjördís ánægð og hamingjusöm. Áður en athöfnin fór fram söng tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð eða GDRN eitt lag en þegar hjónin höfðu verið pússuð saman og líða fór á kvöldið var skálað í kampavíni og dansað fram á nótt.

„Sonur okkar sótti gítarinn sinn og söng og spilaði langt fram eftir,“ segir Hjördís en þau Árni dönsuðu brúðarvalsinn við lagið Það er gott að elska, eftir Bubba en við undirleik sonar þeirra. „Að dansa brúðardansinn við dynjandi söng barna okkar var alveg yndislegt og einstakt,“ segir hún og brosir. 

Hjördís og Árni umkringd börnum sínum og tengdabörnum á deginum …
Hjördís og Árni umkringd börnum sínum og tengdabörnum á deginum stóra. Ljósmynd/Golli

Mikilvægt að njóta tímans með makanum

Hjördís og Árni kynntust árið 2007 í gegnum sameiginlega vinkonu, innanhússtílistann Þórunni Högnadóttur. Segir Hjördís þau Árna hafa smollið saman við fyrstu kynni. „Þórunn var alveg viss um að við ættum eftir að eiga samleið og hún hafði rétt fyrir sér. Við smullum saman um leið,“ segir hún. Hjördís og Árni ákváðu þó strax í upphafi að flýta sér ekki um of og hófu ekki formlegan búskap fyrr en nokkrum árum síðar.

„Við vildum fara rólega í þetta allt saman. Við erum bæði fráskilin og vildum gera á rólegan hátt, þá sérstaklega fyrir börnin okkar,“ segir Hjördís en börnin hafa nú vaxið úr grasi og eru öll komin á fullorðinsár. „Við leggjum mikið upp úr því að njóta tímans saman. Við erum dugleg að finna tíma til þess að njóta tvö saman,“ segir Hjördís og vill meina að þannig geti hjón viðhaldið ástinni. „Við eigum ýmis sameiginleg áhugamál sem við stundum saman. Við skíðum mikið á veturna og svo förum við mikið í laxveiði á sumrin, erum mikið fyrir austan þar sem við erum með skógræktarjörð og þar eigum við miklar gæðastundir saman allt árið,“ segir hún og bendir á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir maka sínum og því sem hann brennur fyrir.

Allt ráðabruggið heppnaðist fullkomlega hjá nýgiftu hjónunum.
Allt ráðabruggið heppnaðist fullkomlega hjá nýgiftu hjónunum. Ljósmynd/Golli

„Þarfirnar eru misjafnar og áhugamálin líka. Árni hefur mikið dálæti á mótorhjólum og ég er á fullu í bæjarpólitíkinni. Hann hefur ekki jafn gaman að þessu stjórnmálastússi eins og ég en við höfum alltaf stutt við bak hvors annars,“ segir Hjördís enda er gagnkvæm virðing grunnurinn af farsælum hjónaböndum. 

Hjördís Ýr og Árni eru búsett í Kópavogi og hefur Hjördís setið í bæjarstjórn Kópavogsbæjar síðustu tvö kjörtímabil. „Núna býð ég mig fram til áframhaldandi setu en ég bauð mig fyrst fram árið 2014 þannig ég er með átta ára reynslu,“ segir Hjördís sem gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 12. mars, næstkomandi.  

„Það stefnir í mikla endurnýjun á listanum hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi. Það eru 15 frambjóðendur á lista en aðeins þrír þeirra eru núverandi bæjarfulltrúar,“ útskýrir Hjördís og segir brýnt að halda í þá sem hafa reynslu þó svo að það sé líka gott að fá ferskan andvara inn í bæjarmálin. „Ég legg áherslu á að halda í grunngildi sjálfstæðisstefnunnar, það er að segja, að íbúar geti haft val,“ segir hún og talar um innviði, líkt og leik- og grunnskóla og hjúkrunar- og dvalarheimili í því samhengi. „Það skiptir líka miklu máli að halda áfram lækka fasteignaskatta og sýna aðhald í rekstri,“ segir Hjördís sem skortir svo sannarlega ekki reynsluna þegar kemur að stjórnmálum bæjarins.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda