Stína Ágústsdóttir snéri sér alfarið að tónlistinni eftir að hafa lært verkfræði. Hún segist hafa verið arfaslakur verkfræðingur því hún er svo léleg að sitja á fundum. Hún býr í Svíþjóð ásamt eiginmanni sínum, Tómasi Gunnarssyni, og börnum en flakkar mikið á milli landa þar sem foreldrar hennar búa á Íslandi. Á sunnudaginn ætlar Stína að vera með útgáfutónleika í Hörpu en hennar fjórða sólóplata hefur litið dagsins ljós. Drown to Die a Little er sérstök að því leitinu til að þetta er í fyrsta skipti sem hún gefur út plötu með frumsömdum lögum en platan kom til hennar meðan hún var sem veikust af gigtarsjúkdómi sem hrjáir hana.
„Ég byrjaði á henni fyrir nokkrum árum síðan og kveikjan var eiginlega sú að ég varð svakalega veik af gigtarsjúkdómi. Það kom tímabil þar sem ég gat hreinlega ekki gert neitt nema að liggja og hugsa, hlusta á tónlist og horfa á sjónvarpið. Lögin og textarnir urðu svo til upp úr þeirri lægð. Ég skoða sjálfa mig og mín tengsl við aðrar manneskjur á þessari leið frá því að standa í stað í myrkri og komast svo upp úr því með jákvæðni og hjálp. Í þessu öllu saman lærði ég svo að njóta lífsins betur, lifa meira í núinu og gefa skít í meira sem skiptir ekki máli,“ segir Stína.
Tónlistina samdi hún ásamt vini sínum, Mikael Mána Ásmundssyni.
„Ég samdi flest lögin í samstarfi við ungan snilling og vin minn til nokkurra ára, Mikael Mána Ásmundsson, en hann spilar á gítar á plötunni og á tónleikunum. Ég er svo ofboðslega heppin að fá að vinna með stórkostlega hæfileikaríku og færu tónlistarfólki, eins og bassaleikaranum á plötunni Henrik Linder. Hann býr í Stokkhólmi eins og ég og það var í gegnum sameiginlega vini sem við kynntumst og fórum að spila saman. Hann er í hljómsveit sem heitir Dirty Loops og hefði undir venjulegum kringumstæðum verið að spila út um allan heim en útaf heimsfaraldri spilaði hann bara jazz með mér í staðinn og svo í þessu verkefni.
Hann verður einmitt með mér á útgáfutónleikunum ásamt þeim sem spiluðu á plötunni. Við ætlum líka að hafa selló, fiðlu og jafnvel tvinna dans inn í þetta líka! Það hefur verið draumur hjá mér lengi að sameina dans og tónlistina sem ég syng, því ég er í grunninn ballerína og hef alltaf dansað mikið. Ég fékk styrk til að halda tónleika í Hörpu sem voru mjög kærkomnir og gera okkur kleift að hafa tónleikana svolítið veglegri en ella. Lögin á plötunni eru mjög fjölbreytt og skemmtilegt að flytja þau þannig að ég held að þetta verði ofsalega skemmtilegir tónleikar,“ segir hún.
Hvernig kom það til að þú fórst að snúa þér að tónlist?
„Ég hef alltaf sungið og spilað tónlist en hélt satt best að segja að það væri ekki raunverulegur möguleiki sem starf. Mér gekk afskaplega vel í skóla sem barn og unglingur og fannst einhvern veginn að ég gæti ekki gert fólki það í kringum mig að fara bara að gera eitthvað ofsalega ópraktískt og óáreiðanlegt. Það eina sem mig hefur alltaf langað og langað meira en allt annað er að standa á sviði og syngja eða dansa svo ég held að þetta hafi verið óumflýjanlegt.“
Lærðir þú ekki verkfræði?
„Jú. Ég útskrifaðist sem véla- og iðnaðarverkfræðingur og vann sem slíkur í eitt og hálft ár. Ég var búin að lofa sjálfri mér að byrja í Söngskólanum í Reykjavík eftir að ég útskrifaðist og stóð við það. Þegar ég fór þangað var ekki aftur snúið, þörfin var bara of sterk. Ég var alveg arfaslakur verkfræðingur og er sérlega léleg í því að sitja á fundum og ræða alvarleg málefni. Ég flutti til London með fyrirtækinu sem ég var að vinna hjá þegar ég var verkfræðingur og svo var niðursveifla í tölvubransanum og það þurfti að skera niður og svo heppilega vildi til að ég lenti í þeim niðurskurði. Eftir það ævintýri flutti ég til Montreal í Kanada og fór svo bara í alvöru jazztónlistarnám og lýsti því yfir að ég væri hætt að vera verkfræðingur.“
Hvað er það við tónlistina sem drífur þig áfram?
„Það er einhvern veginn bara þannig að ég verð að syngja og búa til tónlist. Ég get ekki hugsað mér að gera neitt annað. Ég reyndi.
Tónlist er heilandi og hjálpar okkur mannfólkinu að eiga við lífið og tilveruna. Það er töfrum líkast að ná þessari tengingu þegar maður syngur fyrir fólk og það gerist eitthvað, einhver taug er snert og það hefur áhrif. Eftir slíkar upplifanir er erfitt að fara út í eitthvað annað, maður vill bara meira.“
Nú hefur þú verið búsett í Svíþjóð lengi. Hvers vegna fluttir þú þangað?
„Ég bjó ásamt manninum mínum í Montreal í Kanada áður en við fluttum til Stokkhólms og leið afskaplega vel þar og áttum mikið af skemmtilegum vinum og fengum að leika okkur og spila tónlist mjög mikið. Svo eignuðumst við barn 2011 og þá var bara ekki jafnspennandi að vera svona langt í burtu frá fjölskyldu og því sem okkur fannst mikilvægt varðandi umsjá og öryggi barna til dæmis. Maðurinn minn gat fengið vinnu í Stokkhólmi og ég er að hluta til sænsk og á stóra fjölskyldu í Svíþjóð þannig að fyrir mig var mjög lítið mál að flytja til Svíþjóðar. Svo var annað mál að koma sér inn á tónlistarsenuna þar sem er mjög lokuð að mörgu leyti. Ég eignaðist svo annað barn árið eftir að við fluttum til Stokkhólms þannig að þetta tók allt sinn tíma.“
Hvað finnst þér best við Stokkhólm?
„Stokkhólmur er ótrúlega falleg borg allt árið um kring. Þetta er stórborg en samt ekki of stór og hefur allt sem mann vantar og vantar ekki. Ég væri reyndar alveg til í að jazzsenan hérna væri meira lifandi og fleiri staðir að spila á en það breytist vonandi. Hér er svo búið að vera logn og sól í meira en viku núna og vorið á brjótast upp úr moldinni.“
Hvernig eru svíar öðruvísi en Íslendingar?
„Það vantar svolítið þetta „við reddum þessu“ hugarfar. Svíar eru ofsalega duglegir að fara eftir reglum og fara samviskusamlega í röð og hlutirnir ganga réttlátt fyrir sig en þegar eitthvað kemur uppá þá vantar þetta sem Íslendingar eru svo góðir í, að redda hlutunum. Mér finnst reyndar mjög þægilegt að keyra bíl hérna og þurfa ekki að hafa áhyggjur af troðningi í bíó og svona en stundum brýst Íslendingurinn fram í mér og nennir ekki að standa í þessu veseni.“
Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu?
„Oftast fara dagarnir hjá mér í það að æfa, skrifa texta, semja tónlist að hluta til og að vinna í kringum það eins og að skrifa svör við þessu viðtali, bóka gigg, plana æfingar, senda tölvupósta hingað og þangað og allt sem tilheyrir. Svo rek ég heimili með tvö börn, mann og kött og er í hlutastarfi sem gigtarsjúklingur. Allt púslast þetta svo saman á einhvern óreiðukenndan hátt með giggum hingað og þangað og ferðalög tengd þeim. Ég held að svarið við þessari spurningu sé kannski að ég veit það ekki!“